Orð að sönnu: Um Hlýtt og satt eftir Davíð Stefánsson

Ég hef skrítna tilhneigingu til að lesa ekki smásögur. Fletti til dæmis hugsunarlaust yfir þær í Tímariti Máls og Menningar sem ég les annars upp til agna. Alice Munro varð að fá Nóbelsverðlaunin til að ég sýndi henni minnsta áhuga og það þurfti að setja mér Raymond Carver fyrir til að hann fengi inni á leslistanum.

Samt er ég langoftast afar þakklátur smásagnalesandi. Eiginlega alltaf. Svo er afar hollt að lesa smásögur. Þær skerpa athyglisgáfuna. Enginn tími til að fljóta hálfsofandi í lygnum frásagnarstraumi (sem stundum er kallað „lestrarnautn“). Þú gætir misst af kjarna málsins. Það nánast öruggt að þú gerir það.

En svona er þetta. Ég les ekki smásögur. Nema þegar ég geri það.

Davíð Stefánsson þekki ég ekki. Hef ekki lesið ljóðin hans, en heyrt vel af kennslubókunum látið. Eftir lestur átján sagna af lífi og lygum sem hann kallar Hlýtt og satt er ég orðinn, tjah, við skulum kannski ekki segja aðdáandi (full melódramatískt og næstum krípí). Kannski meira svona nokkuð öruggur um að það sé engin tímasóun að gefa honum þá fullu athygli sem smásögur krefjast.

Davíð vinnur skemmtilega með kosti og annmarka smásögunnar. Hvort hann sé frumlegur að þessu leyti veit ég ekki (sjá fyrstu setningu). Hann kýs oftar en ekki að segja okkur af hversdagslegum (en afdrifaríkum) atvikum á jaðri einhvers sem lesandann grunar að sé meginatburðarásin, örlagasagan, kannski skáldsagan, sem persónurnar hans eru aðal- eða kannski aukapersónur í.

Gott dæmi er sagan Jarðarförin – ein þeirra sem sitja fastast í mér. Sögumaður fær símtal frá móður sinni sem verður til þess að hann býðst til að fara með föður sínum (sem hann er greinilega í stirðu/engu sambandi við) í jarðarför. Hinn látni er gamall vinur pabbans og sögumaður á æskuminningu um fund kallanna í Öskjuhlíðinni:

Þeir spjölluðu heillengi um allt og ekkert þarna í vegakantinum en bróðurpartur spjallsins var það ofar mínum skilningi; eitthvað um fattningar og föls, grópir, rör og fossa. Annað um sellur, gengi og aðgerðir.

Í framhaldinu verður pabbinn „skrítinn til augnanna“ og rekur strák inn í bíl svo kallarnir geti talað í næði (án vitna). Og nú erum við öll orðin spennt.

En sagan er ekki um þetta og leysir ekki úr þessu. Það er kannski flett ofan af leyndarmáli en það er annað mál. Sagan er um tilraun til að tengjast föður sínum, þrátt fyrir, en ekki í gegnum, þessa minningu.

Þetta er frábær saga.

Einsemd og þrá eftir lausn á henni (tvísemd?) þræðir sögur Davíðs saman. Í samskiptum barna og foreldra og í samskiptum kynjanna. Þetta hljómar eins og frekar dæmigert viðfangsefni svo ekki sé fastar að orði kveðið, en þá má líka benda á að ef við værum búin að finna lausn á þeim tiltekna tilvistarvanda væri fólk líka hætt að skrifa um hann.

Þetta eru ekki tilraunakenndir textar, en Davíð ratar augljóslega um vopnabúr nútímahöfundarins og beitir tækjunum af smekkvísi. Ég veit ekki hvað skal gera með vísanir milli sagnanna: flekaskil og rauðar flísar. Þaðan af síður tilvitnanir í Leonard Cohen og aðra meistara sem eru notaðar, sparlega en vísvitandi. Góðu heilli er ég lesandi en ekki að læra fyrir próf. Flísarnar glöddu mig reyndar, sérstaklega á óvæntum stöðum – í eldhúsum og anddyrum.

Hvar sögurnar gerast, og hvenær, er eitt sterkasta vopn Davíðs og er sveiflað hér af mikilli fimi og hittni. Innan skamms verðum við hefst á þeim orðum og rammast inn af augnabliki sem virðist vofa yfir, lýsir í raun aðstæðum á því augnabliki frekar en framvindu, en teiknar atburðarásina sem leiðir þangað og þaðan og tilfinningalegar afleiðingar hennar sérlega glæsilega.

Línulegar frásagnir fá sitt pláss líka. Uppsprettan er fantagóð næstum-hrollvekja með fjarskylda frændur hjá H.C. Andersen (Skugginn) og Stephen King (Secret Window, The Dark Half), án þess að skulda þessum köllum neitt.

Ætli mín eftirlætissaga í augnablikinu sé samt ekki Lífið er ekki ferðalag (reikna með að lesa þetta alltsaman aftur). Sögumaðurinn er pabbi sem kemur í heimsókn til sonar síns. Óboðinn og óvænt, og þeir eiga greinilega ekkert sameiginlegt nema erfðaefnið. Og það gerist mest lítið. En samt. Með því að vera hlutlægur, nákvæmur og sparsamur gefur Davíð okkur allt sem við þurfum til að gera þessa menn (og litla strákinn sem kemur nánast ekki við sögu) nákomna okkur. Skiljanlega okkur.

Hlýtt og satt er afbragðs bók. Og orð að sönnu.