Opnar æfingar Berglindar Maríu

Frá og með föstudeginum 12. september og til 10. október mun Berglind María Tómasdóttir, flautuleikari og tónskáld, standa að opnum æfingum í um það bil 40 mínútur á dag alla virka daga í almannarými Hörpu, nánar tiltekið í Hörpuhorninu. Þar mun Berglind æfa verk Brian Ferneyhoughs ‘Cassandra’s Dream Song’ fyrir opnum tjöldum og eru gestir og gangandi hvattir til að koma og hlýða á og fylgjast með ferlinu. Um ræðir gjörning sem er liður í undirbúningi opnunarverks Berglindar fyrir tónlistarhátíðina Myrkra Músíkdaga 2015, sem haldin verður í Hörpu dagana 29. janúar – 1. febrúar 2015. Æfingarnar hefjast að jafnaði kl. 13 og standa í um 40 mínútur.

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna sjálfsmyndir og erkitýpur. Hún hefur unnið talsvert með vídeólist, leikhús og tónlist í performönsum sínum svo sem í hennar rómaða I’m an Island. Berglind María hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík, Bang on a Can maraþoninu í San Francisco, Sumartónleikum í Skálholtskirkju, CMMAS tölvutónlistarsetrinu í Morelia í Mexíkó, Myrkum músíkdögum, MSPS New Music Festival í Shreveport, Louisiana, REDCAT í Los Angeles og Nordic Music Days svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Hún lauk nýverið doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego.

Nánar um Myrka Músíkdaga 2015

Myrkir Músíkdagar 2015 fara fram í Hörpu dagana 29. janúar – 1. febrúar 2015 og samanstanda að fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og fullorðna. Allt frá stofnun hátíðarinnar árið 1980 hafa Myrkir Músíkdagara verið leiðandi tónlistarhátíð nýrrar íslenskrar tónlistar og hefur verið hvati að nýsköpun fjölda verka, þar sem árlega eru frumflutt hátt á þriðja tug nýrra verka á hátíðinni.

Markmið hátíðarinnar er að vera hvati að nýsköpun í íslenskri tónlist og hvati að nýjum og spennandi verkefnum sem vinna þvert á listgreinar og á milli gerðar tónlistar.