On air: Lokadagur Reykjavík Dance Festival

Margir hefðu sagt að On air væri ekki danssýning því það var ekki beint dansað heldur spjallað inn í uppblásnu gegnsæju snjóhúsi. En þetta er póstmódernískur dans og það er hægt að dansa með samtölum og hversdagslegar hreyfingar í ákveðnu samhengi geta verið dans. Kannski er líka tímabært að hugtakið dans sé víkkað út og áhorfendur búist ekki alltaf við að sjá dansara í ofurmannlegum hreyfingum á hverri danssýningu. Þó var sýningin líka líkamleg en sá hluti kom ekki fyrr en í lokinn. Þetta voru fjórir dansarar…. Vinkonur sem hafa búið saman í langan tíma í Essen og þekkjast vel. Svona verk er gagnlegt til að brjóta upp staðalímyndina af kvenlegum samtölum, samtölin voru ekki tilfinningatengd og ekki um stráka heldur um orð og heimspeki.

En miðað við hvað snertifletirnir í líkamlega hlutanum voru innilegir og hráir fannst mér samtölin stundum aðeins of grunn og gelgjuleg. Kannski eru margir sem hafa gaman að þessari “friendsdýpt” á samtölum en mér leiddist stundum og varð eiginlega bara pirruð á tímapunkti þegar eitthvað átti að vera fyndið. Samt sem áður voru þessi samtöl kannski byltingakennd fyrir suma stráka eða karlmenn sem eru ekki vanir því að konur tali um þróun á sjálfsfróunarorðum og eigi í töffaralegum samskiptum, tali saman eins og stelpugaurar. En þó að samtölin hafi ekki alltaf kveikt áhuga þá fannst mér framsetningin sniðug. Þagnirnar urðu áþreifanlegar og tíminn sem þær tóku í hvert samtal var mátulegur. Þegar hverju samtali lauk kom tónlist en þær héldu áfram að tala saman og ég var forvitin um hvað þær sögðu þá. Hreyfingarnar þar á milli fengu líka meiri vægi.

ON AIR

Í seinni hluta verksins fóru þær svo út úr uppblásna snjóhúsinu og fóru að glíma. Það var að mínu mati besti hluti verksins, einfaldlega því það er svo gaman að glíma og samblandan af ákveðni, snertingu, virðingu, leik og trausti er svo mikilvæg mannkyninu. Ég hefði viljað sjá sömu dýpt í samtölunum og glímunni því þar drógu þær ekkert undan. Svo bjuggu þær til orm með því að krækja sér saman og það er sérstaklega fyndið fyrir þá sem hafa prófað það að vera með höfuð á rassi o.s.frv., á tímabili varð þetta nánast kynferðislegt og minnti mig á hópfróun sem rímar við djúp gefandi samtöl. Svo fóru þær úr öllum fötunum. Það var fallegt. Algjörlega skammarlaust og kúl. Þannig héldu þær áfram og samtölin urðu dýpri því þá var meiri leikur, innileiki og samtölin urðu lífspekileg í myndlíkingum og falleg. Í lokinn sungu þær svo lag sem var mjög vel skrifað og fallegt.

Hugmyndin og framsetningin verksins var áhugaverð, glímuatriðin gefandi, heildarmynd samtalanna var flott og greinilega útpæld en samtölin í fyrri hlutannum hefðu mátt fara dýpra að mínu mati. Eða var það pælingin? Að eftir leik og innileika dýpki allt?