Skáldsagan Look Who’s Back (Er ist wieder da) eftir þýska rithöfundinn Timur Vermes hefst á því að Adolf Hitler vaknar í almenningsgarði í Berlín. Það er sumar og árið er 2011. Hann man síðast eftir sér í bönkernum. Í skamma stund er hann ringlaður yfir því hvað hafi gerst en kemst svo að þeirri niðurstöðu að slíkt sé óþarfi – það sem hefur gerst hefur gerst og best er að bregðast við heiminum einsog hann er frekar en eyða óþarfa tíma í að velta því fyrir sér hvernig hann varð einsog hann er.
Hitler rekst á blaðasala sem heldur að hann sé besta (og fyndnasta) eftirherma sem hann hefur séð og kynnir hann fyrir sjónvarpsfólki sem býður honum í þátt hjá frægum grínista af tyrkneskum ættum – hann slær í gegn á Youtube og fær sinn eigin þátt. Hitler hefur einsett sér að ná völdum aftur og notar til þess öll meðul og það truflar hann lítið að fólk skuli hlæja á meðan hann flytur pólitískan boðskap sinn af sömu ákefð og hann hefur gert alla tíð.
Bókin, sem er nýkomin út á ensku, vakti eðli málsins samkvæmt nokkra úlfúð í Þýskalandi – og í sjálfu sér víðar – þegar hún kom út 2012. Hins vegar er hún langt í frá sérstaklega transgressíf, að minnsta kosti í stíl og meðhöndlun á efni, þótt efnið sé viðkvæmt og merkingu meðhöndlunarinnar fylgi þar með talsverð túlkunarnauðsyn. Eiginlega er yfir henni svolítill Hollywood andi, og auðvitað búið að selja kvikmyndaréttinn – póstmódern og fílgúdd – sem er svo aftur áhugavert að svo miklu marki sem bókin er einmitt í aðra röndina spegill á frægðardýrkun og hlutverk fjölmiðla.
Nokkuð hefur verið lagt út af því í jákvæðri gagnrýni á bókina – málsvörninni – að það sé langt í frá að höfundur láti okkur finna til með Hitler. Hvað mig sjálfan varðar er það einfaldlega ekki satt og ef það væri það þætti mér bókin fullkomlega máttlaus. Ég fann til með Adolf. Sá Adolf Hitler sem birtist okkur í bókinni liggur mitt á milli þess Hitlers sem Bruno Ganz túlkaði í Der Untergang og þess Hitlers sem Chaplin túlkaði í The Great Dictator – hann er í senn beiskur og vondur, og hættulegur kjáni. Allir þrír eiga þessir Hitlerar það sameiginlegt að manni er fært að finna til með þeim – þeir verða mennskir og standa í sviðsljósinu og þótt manni finnist þeir vondir þá er margt í aðstæðum þeirra sem maður ber kennsl á. Untergang-Hitler er sá aumi, paþetíski – maðurinn sem hefur misst stjórn á draumsýn sinni og þar með veruleikaskyninu. Einræðisherra Chaplins er draumóramaðurinn á fullu flugi í allri sinni kjánalegu og stórhættulegu gleði. Báðir segja sögu sem við þekkjum öll persónulega þótt ekki hafi kannski legið jafn mikið undir og markmið okkar ekki verið jafn mannfjandsamleg. Hitler Timur Vermes er næsta lógíska skref – á eftir kjánalega draumóramanni Chaplins kom hinn beiski lúser Ganz en Hitler Vermes er sá upprisni, sá sem fær annað tækifæri við nýjar aðstæður til að framkvæma ætlunarverk sitt. Fyrir óskiljanlega heppni. Og það höfum við öll upplifað, þá kátínu og framkvæmdagleði getum við öll skilið.
Adolf Hitler, bjargvættur gyðinga
Líkt og Look Who’s Back er The Jewish Messiah (De Joodse Messias) eftir hollenska rithöfundinn Arnon Grunberg sögð í fyrstu persónu sjónarhorni ákafs hugsjónamanns, en í stíl og meðhöndlun fer í hún í þveröfuga átt og gengst upp í transgressjón sinni þar til mann verkjar í öll skilningarvitin. Xavier Radek er 16 ára gamall svisslendingur – einfeldningur í mörgum skilningi en afar ástríðufullur og rómantískur. Afi hans barðist í stríðinu og var duglegur að drepa gyðinga. Sem barn er Xavier stoltur af afa sínum en svo fer hann smám saman að skammast sín og þegar sagan hefst hefur hann nýverið tekið algera og fanatíska trú á fegurðina – sem sé hið eina sem geti uppleyst sársaukann.
Xavier ákveður að hann verði að bæta gyðingum helförina. Í fyrstu heldur hann að því markmiði verði best náð með því að skrifa „hina miklu gyðinglegu skáldsögu“ en þar sem hann veit fátt um gyðinga byrjar hann á því að sækja sýnagógu. Í sýnagógunni kynnist hann rabbínanum og syni hans Awromele og drengirnir hefja eins konar ástarsamband sem má kannski einfalda niður í að Awromele sé haldinn hroðalegum dofa á meðan Xavier bætir gyðingum helförina með munn- og rassmökum (píkan er fyrir Xavier uppspretta illskunnar en rassgatið uppspretta hamingjunnar). Xavier lætur líka umskera sig með þeim afleiðingum að hann missir annað eistað – sem hann svo geymir í glerkrukku. Eftir að Awromele er barinn af hrottum sem koma að þeim félögum í almenningsgarði þar sem Xavier er að totta hann – á meðan hrottarnir sparka og kýla Awromele vitna þeir stöðugt í Kierkegaard og segja að hann eigi að vera þakklátur fyrir að þeir skuli tjá sig við hann með hnefum og fótum, því öll tjáning sé vinátta – flýja þeir til Hollands þar sem þeir taka til við að þýða Mein Kampf yfir á hebresku. Síðustu 40 blaðsíðurnar í skáldsögunni gengur allt mjög hratt fyrir sig og í sem stystu máli enda þeir í Ísrael þar sem hópur gyðinga tilbiður eistað á Xavier sem verður svo forsætisráðherra og kemur af stað þriðju heimsstyrjöldinni.
Ég hef ekki einu sinni minnst einu einasta orði á fósturföður Xaviers sem er ástfanginn af honum eða móður Xaviers sem stendur á hverju kvöldi í eldhúsinu og stingur sig í lærið með kjöthníf svo blóðið seitlar niður á gólf. En bókin er of stútfull. Það er einfaldlega ekki hægt að nefna allt.
Það þarf ekki snilling til að sjá Hitlersgerving í Xavier – hann er hinn fullkomni og algerlega einlægi fanatíker sem vill þreyja öll sín hugsjónarök til enda án þess að gefa sér nokkurn tíma færi á að líta upp eða efast. Það að hann skuli vera á röngunni – hann skuli vilja vernda gyðinga og bæta þeim helförina – breytir því ekki að aðferðir hans og orðræða, sjálfur hamur hans, er fenginn beint úr smiðju fasista, meira að segja skefjalaus trúin á fegurðina. Xavier Radek er gæddur hinni fasísku virkni þótt hann aðhyllist ekki hugmyndafræði þeirra að öðru leyti.
Stríðni hinnar einlægu ákefðar
Báðar spyrja skáldsögurnar meðal annars að því að hverju megi gera grín og hvernig megi gera það. Í Look Who’s Back gerist Adolf Hitler beinlínis grínisti. Í fremur vel heppnaðri senu þar sem Hitler birtist fyrst í sjónvarpi kemur hann í kjölfar tyrknesks grínista sem gert hefur tyrkjagrín að sérgrein sinni – svona einsog Chris Rock gerir grín að svörtum bandaríkjamönnum – og Hitler lætur duga, eftir langa, mikla og dramatíska þögn (sem er einkennismerkið hans), að taka undir með tyrkneska grínistanum að Tyrkir séu ómögulegur skítakynstofn og skömm að því að þurft hafi Tyrki sjálfa til að benda á það. Þar varpar hann ekki kastljósinu á grínistann, nema að litlu leyti, heldur miklu fremur á aðdáendurna sem hafa gert hann frægan – og maður spyr sig ekki lengur bara hver er að segja brandarann (skv. reglunni um að allir megi gera grín að „sjálfum sér“) heldur hver er að hlæja að honum.
Verstu óvinir Hitlers í Look Who’s Back eru svo vel að merkja nýnasistar sem verða gríðarlega sárir að hann skuli gera grín að sér (og honum finnst á móti lítið til þeirra koma – sem og NDP, afkomanda þýska nasistaflokksins, sem hann heimsækir með sjónvarpsvélar á bakinu og gerir lítið úr við miklar vinsældir hjá þýskum áhorfendum). Nýnasistarnir enda meira að segja á því að berja Hitler nærri því til ólífis.
Líklega segir Look Who’s Back minnst um nasismann eða Hitler og meira um hið póstmóderníska ástand, um samtímann og fjölmenningu og fjölmiðla og ídentítetspólitík – á meðan The Jewish Messiah fjallar um hugmyndafræði og virkni nasismans þótt þar sé sögulega fígúran Hitler aldrei nema í bakgrunni. Á meðan Look Who’s Back spyr hverjar væru afleiðingar þess að manneskjan Hitler sneri aftur (og speglaði nútímann í sínum glöggu gestaaugum) spyr The Jewish Messiah hverjar væru afleiðingar þess að einurð hans, ákefð og fanatík gengju aftur. Fyrri tilgátan er í sjálfu sér áhugaverð þótt hún sé vel að merkja jafn ómöguleg og sú síðari er möguleg (og daglegt brauð bæði hjá valdaaðilum og öfgaklíkum).
Xavier Radek og Hitler Vermes eru báðir gæddir ofsa hinnar ystu róttækni, þeirrar sem linnir aldrei látum, hættir aldrei að grafa upp ræturnar þótt þær reynist hafa legið undir öllum húsunum í hverfinu og byltingin sé að ganga af öllum dauðum. Það er alveg sama hversu absolút og absúrd afleiðingarnar eru, eina svar fasistans er alltaf að marsera beint af augum án tillits til nokkurs nema hugsjónarinnar.