Lágkúruleg illska nær og fjær

The Act of Killing og The Unknown Known

Heimildarmyndin The Act of Killing (Joshua Oppenheimer, 2012) hefur skiljanlega vakið mikla athygli. Flestir, þar á meðal undirritaður, fyllast óhug og furðu við áhorf hennar. Eru það þá sérstaklega „aðalpersónurnar“, með Anwar Congo fremstan í flokki, sem reynast óskiljanlegar í því hvernig þær hreykja sér af gjörðum sínum og virðast (allavega framan af) skorta alla sjálfsskoðun eða iðrun. Enn fremur kemst áhorfandinn varla hjá því að líka vel við þá, svo viðkunnanlegir og skemmtilegir eru þeir. Það hversu áhugasamir og metnaðarfullir þeir eru við endursköpun voðaverka sinna í klassískum Hollywood-myndastíl veitir myndinni svo enn furðulegri blæ sem endar í súrrealískum hæðum. Hvað er eiginlega á seyði í þessari mynd? Ég mun í eftirfarandi ræða myndina með kenningu Hönnuh Arendts um lágkúrulega illsku til hliðsjónar. Í seinni hlutanum mun ég svo ræða nýlega heimildarmynd, The Unknown Known (Errol Morris, 2013), þar sem ég tel að sama fyrirbæri megi að miklu leyti finna í henni.

Bakgrunnur The Act of Killing er fjöldamorðin í Indónesíu á árunum 1965-66. Þau hófust eftir misheppnaða byltingartilraun 30. september hreyfingarinnar sem varð til þess að kommúnistum var kennt um og hreinsanir á þeim voru fyrirskipaðar. Þessir atburðir leiddu einnig til þess að fyrsta forseta landsins, Sukarno sem leitt hafði sjálfstæðisbaráttu Indónesíu gegn Hollandi, var steypt af stóli. Við tók ógnarstjórn einræðisherrans Suhartos sem réði ríkjum næstu þrjátíu árin á eftir. Á þessum tíma vann Anwar Congo við að selja bíómiða á svörtum markaði en var svo fenginn til að stjórna einni alræmdustu dauðasveitinni í Norður-Súmötru. Áætlað er að í kringum 2,5 milljónir manna (tölurnar eru á reiki eins og ævinlega við svona kringumstæður) hafi látið lífið í þessum aðgerðum sem CIA lýsti, í leynilegri skýrslu, sem einum af verstu fjöldamorðum 20. aldarinnar, og sagði þess utan að atburðirnir hefðu ekki fengið nærri eins mikla athygli og þeir ættu skilið1. Þetta er markvert í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem Bandaríkin spiluðu í þessum fjöldamorðum og við munum ræða hér að neðan.

AoK1

Sumir gagnrýnendur efast þó um að það sem við sjáum á skjánum sé fullkomlega sannleikanum samkvæmt2. Það er að segja, þeir efast um meinta hreinskilni Anwars Congo og félaga hans. Myndin endar, eins og frægt er orðið, á áhrifamikilli senu þar sem það virðist loks renna upp fyrir Congo hvað hann hafi gert og hann ælir og iðrast gjörða sinna. Þetta gerist í framhaldi af því að hann spilar hlutverk fórnarlambsins í endursköpun á pyntingunum og drápunum sem hann stóð fyrir (endurskapað í gangster myndastíl!). Það sem þessir gagnrýnendur setja spurningamerki við er að þessi hegðun Anwars er kannski einum of fullkomin fyrir áhrifamátt myndarinnar. Þeir efast stórlega um að Anwar Congo og félagar hans, sem allir eru með kvikmyndadellu á háu stigi, átti sig ekki á raunverulegri ætlun leikstjórans Joshua Oppenheimers með myndinni. Þeir hljóti að hafa verið fullkomlega meðvitaðir um hana og því ákveði þeir að spila með til þess að gera eins góða mynd og mögulegt er, í samræmi við væntingar áhorfandans. Þeir eru því að spila með leikstjórann og áhorfandann. Þeir eru að leika hlutverk, hlutverk sem þeir hafa, sem kvikmyndaáhugamenn, dreymt um allt sitt líf.

Slavoj Žižek hefur einnig komið með áhugaverða nálgun á efni myndarinnar3. Hann sér Congo og félaga sem einstaklinga sem lifa í skáldskap. Þannig sjái þeir ódæði sín í gegnum gleraugu Hollywood mynda og séu ófærir um annað. Það skýrir metnaðinn hjá þeim í endursköpuninni. En hann vill þó ekki kenna Hollywood um þessar aðstæður. Þvert á móti er það nútíma, hnattvæddur kapítalismi sem hefur útrýmt hinu almenna, félagslega rými sem heldur uppi siðferðislegum kerfum, og þannig komið á fót hinni róttæku einstaklingshyggju sem gerir menn eins og Anwar Congo mögulega. Menn sem skortir alla samúð með fórnarlömbum sínum vegna þess að almenningsrýmið sem slíkt krefst er horfið. Eftir stendur siðferðislegt tómarúm. Þeir lifa þannig algjörlega í sínum eigin heimi og hreykja sér af gjörðum sínum.

Ég tel þó aðra nálgun vera gagnlegri til að skilja efni myndarinnar, greiningu Hönnuh Arendts á lágkúrulegri illsku („the banality of evil“). Eins og frægt er notaði hún hugtakið til að útskýra fjöldamorð og voðaverk nasista. Í greinaskrifum sínum um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann, einum aðalarkitekti útrýmingabúðanna, lýsti hún honum sem afskaplega venjulegum og óspennandi manni frekar en einhvers konar djöfullegu illmenni eins og margir höfðu gefið sér að hann hlyti að vera til að geta framið slíka verknaði4. Það sem einkenndi hann öðru fremur var hugsunarleysi og skortur á dýpt og sjálfs-íhugun. Þannig talaði hann í innihaldslausum, klisjukenndum frösum og skriffinnskutungumáli. Hann – eins og aðrir háttsettir nasistar við Nürnberg réttarhöldin – hélt því fram að hann hefði aðeins verið að framfylgja skipunum. Hann gekk meira að segja svo langt að halda því fram að ef honum hefði verið skipað að myrða föður sinn hefði hann gert það án þess að hugsa sig tvisvar um.

Það sem gerir greiningu Arendts óhugnanlega er að hún bendir til þess að menn eins og Eichmann séu ekki sjaldgæfir. Síður en svo. Öllu heldur gefur hún til kynna að getan til að framkvæma slíka glæpi búi í flestum, líkt og Þýskaland Nasismans var til marks um. Það eina sem til þurfi er hugsunarleysi. Annað athyglisvert við greiningu hennar á Eichmann er sú staðreynd að Eichmann skorti ekki siðferðisvitund eins og maður myndi kannski ætla í fyrstu. Þvert á móti studdi hann gjörðir sínar með vísun í engan annan en einn mesta siðferðisheimspeking allra tíma, Immanuel Kant. Eichmann hélt því fram að hann hafi alltaf leitast við að framfylgja skyldu sinni í samræmi við hið skilyrðislausa skylduboð Kants. Það sem kom Arendt enn meira á óvart var að Eichmann hafði ekki óljósa hugmynd um siðfræði Kants heldur gat hann útlistað hana með þokkalegri nákvæmni og skýrleika. Hann gerði þó eina veigamikla breytingu á kerfi Kants. Skilyrðislausa skylduboðið, sem hjá Kant var lögmál skynseminnar, var fyrir Eichmann skipanir foringjans. En hann fórnaði samt sem áður sínum eigin löngunum og þrám til að framfylgja skylduboðinu, alveg eins og siðfræði Kants kveður á um. Þannig taldi hann breytni sína vera af siðferðislegum toga.

Hvað segir þessi greining Arendts á Eichmann okkur um Anwar Congo? Þrátt fyrir að við getum ekki lagt þá Eichmann algjörlega að jöfnu er ljóst að greiningin á einnig við í þessu tilfelli. Congo er ósköp venjulegur, jafnvel mjög viðkunnanlegur einstaklingur, til dæmis góður við barnabörn sín. En hjá honum má sjá sama hugsunarleysi þegar hann montar sig af pyntingunum og drápunum sem hann stóð fyrir. Í áðurnefndri senu þar sem hann spilar hlutverk fórnarlambsins er eins og það renni loks upp fyrir honum hvers konar þjáningu hann hafi valdið, eins og hann hafi aldrei leitt hugann að því áður. Það er ekki ljóst hvort Eichmann hafi gortað sig af gjörðum sínum á þann hátt sem Anwar Congo og félagar gera í myndinni, en það má spyrja sig hvernig hegðun hans hefði verið ef nasistarnir hefðu unnið stríðið. Samfélagið sem birtist í The Act of Killing er, þrátt fyrir allt, samfélag þar sem „vondu kallarnir“ unnu. Myndin er um: „killers who have won, and the sort of society they have built“, eins og segir á heimasíðu hennar.

Viðbrögðin við efni myndarinnar eru skiljanleg. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér fjöldamorðingja ganga frjálsan og óáreittan um göturnar, talandi opinskátt um glæpi sína. Hvað þá að slíkir aðilar séu hylltir sem hetjur eins og í myndinni. En það má þó spyrja sig hversu fjarlægt þetta sé veruleika okkar, vesturlandabúa. Ég vil meina að sama fyrirbæri (þó ekki nærri eins ýkt) megi sjá í nýjustu heimildarmynd Errol Morris, The Unknown Known (en Errol Morris var einnig meðframleiðandi The Act of Killing).

UKSú mynd samanstendur af viðtölum við Donald Rumsfeld, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn George W. Bush. Ná viðtölin yfir allan feril hans, með sérstökum fókus á hlutverk hans í Íraksstríðinu. Óþarfi er að fara náið í allar hörmungarnar sem það ævintýri hafði í för með sér fyrir íbúa þess lands og víðar, þær ættu enn að vera ferskar í minni fólks. En það sem er áhugavert í okkar samhengi er Rumsfeld sjálfur. Þar er á ferðinni maður sem sýnir ekki minnsta vott um að hann efist um gjörðir sínar, heldur algjöran skort á sjálfs-íhugun og enga viðleitni til að setja sig í spor fórnarlamba sinna og finna til með þeim. Þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að maðurinn sé skrýmsli. Langt í frá. Hann er mjög sjarmerandi viðmælandi, oft mjög fyndinn og ef maður vissi ekki sannleikann um hann gæti maður ímyndað sér að það væri gaman að kynnast honum. Því má segja að lágkúrulegu illskuna sem Arendt greindi hjá Eichmann megi einnig finna hjá honum. Errol Morris sjálfur rennir stoðum undir þessa túlkun þegar hann segir í viðtali að myndin sé: „a fable about a man stuck in some Looney Tunes world of his own devising.“ Það er þó opin spurning hvort hann myndi fallast á að endurskapa glæpi sína í Hollywood-myndastíl.

Donald Rumsfeld er gott dæmi um lágkúrulega illsku en hana má þó finna víðar. Áhugavert er að lesa bandaríska rýni um myndina The Act of Killing þar sem áhorfendur og gagnrýnendur eru sjokkeraðir yfir því sem þar má finna. Ég hef þó enn sem komið er ekki rekist á neina umfjöllun sem bendir á það lykilhlutverk sem Bandaríkin spiluðu í fjöldamorðunum í bakgrunni myndarinnar. Bandaríkin studdu einræðisherrann Suharto eindregið, Clinton kallaði hann m.a. „our kind of guy“ á meðan hann var forseti. Þau spiluðu einnig lykilhlutverk í innrás Indónesíu inn í Austur-Tímor 1975, sem leiddi til dauða u.þ.b. 200.000 manna. Var þessi aðgerð því á sínum tíma versta fjöldamorð miðað við fólksfjölda síðan á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar. Noam Chomsky, sem hefur skrifað mikið um þennan atburð, bendir á að indónesíski herinn hafi fengið um 90% af hergögnum sínum frá Bandaríkjunum, sem voru seld þeim ólöglega, en með vitund og vilja valdaaðila í Washington. Hann bendir einnig á að bandarísk stjórnvöld hafi verið fullkomlega meðvituð um það sem var að fara að eiga sér stað og að þau hefðu auðveldlega getað komið í veg fyrir þennan atburð hvenær sem þau vildu, en það hafi einfaldlega ekki hentað hagsmunum þeirra5.

Þrátt það mikilvæga hlutverk sem bandarískir stjórnmálamenn spiluðu í þessum atburðum, og þá sérstaklega Gerald Ford, Jimmy Carter og Henry Kissinger, hafa þeir aldrei verið dregnir til ábyrgðar né krafnir um afsökunarbeiðni. Carter og Kissinger eru enn mikilsmetnir einstaklingar í alþjóðapólitík og þeir tala opinskátt og stoltir um fortíð sína (og eru sekir um mun fleiri glæpi en þá sem ég hef nefnt hér.) Ég er auðvitað ekki að leggja þá að jöfnu við Anwar Congo. Þeir drápu aldrei neinn eða pyntuðu með eigin höndum, en ég vil þó meina að þar sé um stigs- frekar en eðlismun að ræða. Adolf Eichmann drap aldrei neinn persónulega heldur. Í báðum tilvikum sjáum við góð dæmi um lágkúrulega illsku í ólíkum birtingarmyndum.

Það sem gerir þessa greiningu erfiða, eins og ég hef áður nefnt í tilviki The Act of Killing, er spurningin um heiðarleika. Sumir gagnrýnendur hafa sagt að Anwar Congo sé að leika hlutverk og þannig að spila með áhorfendur. Arendt fékk á sig svipaða gagnrýni. Þ.e.a.s. margir bentu á að hún hafi verið alltof tilbúin til að trúa Eichmann og útskýringum hans og þannig hafi hann einnig spilað með hana. Rumsfeld hefur sömuleiðis verið sakaður um óheiðarleika í heimildarmyndinni The Unknown Known, m.a. af leikstjóranum sjálfum. Það er eflaust margt til í þessari gagnrýni í öllum tilvikunum. En hvað er þá til ráða? Sannleikurinn er sá að við munum aldrei komast fullkomlega að sannleikanum. Við munum aldrei komast að „sanna sjálfi“ þessara aðila. Það eina sem við getum gert er að reyna að ráða í leikritið sem Rumsfeld, Eichmann og Congo setja fram. Þetta eru auðvitað ólíkir einstaklingar eins og ég hef þegar nefnt. Congo og Rumsfeld eru t.d. sjarmerandi og viðkunnanlegar manneskjur á meðan að Eichmann var, eins og frægt er, grútleiðinlegur og óspennandi. Ýmsir sögulegir og félagslegir þættir spila einnig mikilvægt hlutverk í glæpum þeirra, því verður ekki neitað. En ég tel að greining Arendts haldi þó og eigi við í tilviki þessara þriggja aðila. Þrátt fyrir að þeir séu kannski óheiðarlegir að einhverju leyti er óneitanlegt að allir þrír bera ábyrgð á fjöldamorðum án þess að það hafi nein teljandi áhrif á sálarlíf þeirra. Hugsunarleysið og skortur á efa og sjálfs-íhugun, sem Arendt taldi vera höfuðorsök þessarar illsku, má einnig finna hjá þeim öllum. Í glæpum sínum fókuseruðu þeir allir þrír á verkefnið sem þeir stóðu frammi fyrir og reyndu að leysa það eftir fremsta megni án þess að setja hlutina í víðara siðferðislegt samhengi.

Það er athyglisvert að við vesturlandabúar skulum hneykslast yfir því að fjöldamorðingjar gangi lausir um götur Indónesíu á meðan að það sama á sér stað hér í vestrinu. Sumir þeirra eru meira að segja hylltir sem hetjur, alveg eins og fólkið sem við fylgjumst með í The Act of Killing. Ein mótbáran við þessari fullyrðingu gæti verið sú að menn eins og Kissinger, Rumsfeld og George W. Bush séu alls ekki litnir jákvæðum augum af flestum. En við verðum að hafa í huga – eins og margir Indónesíubúar hafa bent á í kjölfar myndarinnar – að Anwar Congo og þeir sem stóðu fyrir fjöldamorðunum eru alls ekki álitnir vera hetjur af öllum í Indónesíu, og fylltust margir íbúar þess lands alveg sama óhug og við hin við áhorf hennar. Að því leyti gefur heimildarmyndin kannski eilítið skakka mynd af samfélaginu.

Lágkúruleg illska er fyrirbæri sem á sér ekki aðeins stað í fjarlægum löndum. Hún er almennt fyrirbæri sem finna má í öllum samfélögum. Mikilvægi heimildarmynda eins og The Act of Killing og The Unknown Known liggur í afhjúpuninni á flókinni sálfræði mannsins. Raunar er einn af helstu leyndardómunum hér sú spurning afhverju við verðum alltaf jafn hissa þegar við stöndum frammi fyrir því sem maðurinn er fær um, þrátt fyrir endalaus dæmi um það, úr öllum áttum.

1. Blumenthal, D. & McCormack, L.H. (2007) The Legacy of Nuremberg: Civilising Influence or Institutionalised Vengeance? Martinus Nijhoff Publishers, bls. 81.
2. T.d. Dadras, D.M. (2014) The Act of Killing‘ and How Not to Get Conned by a Charming Madman. Popmatters.com. Sótt: 24/4/14
3. Žižek, S. (2013). Slavoj Žižek on The Act of Killing and the Modern Trend of „Privatising Public Space.“ The New Statesman. Sótt: 23/4/14
4. Arendt, H. (2006). Eichmann in Jerusalem: A Report on the Banality of Evil. Penguin Books, London, England.
5. Chomsky, N. (1999) Why Amerians Should Care About East-Timor. Chomsky.info, Vefslóð: http://www.chomsky.info/articles/19990826.htm Sótt: 24/4/14