Jón Viðar hættir á Fréttablaðinu

Jón Viðar Jónsson leiklistargagnrýnandi er hættur að skrifa leikrýni í Fréttablaðið vegna samningsbrota, að því er fram kemur á dv.is. „Ég gerði bara ákveðinn samning við ritstjórann þegar ég byrjaði að starfa þar. Hann er búinn að brjóta þann samning tvívegis. Ég hef boðið honum að gera nýjan samning og hefur hann ekki orðið við því. Ég starfa ekki hjá neinum fjölmiðli nema það sé samkomulag hvernig störfum mínum sé háttað,“ lét Jón Viðar hafa eftir sér í viðtali við DV.

Leikarinn og leikstjórinn Vignir Rafn Valþórsson gerir starfslok Jóns Viðars að umtalsefni á Facebooksíðu sinni og segir meðal annars ástæðuna fyrir uppsögn Jóns vera þá að dómar hans hafi ekki verið prentaðir í fullri lengd, heldur styttir. Segir Vignir:

Það er margt hægt að segja um Jón Viðar en hann má þó eiga það að hann skrifar af ástríðu fyrir leikhúsinu. Hann skrifar ýtalega og rökstudda leikhúsgagnrýni sem hann stendur fyllilega á bakvið. Hann er óhræddur við að hafa skoðanir á hlutunum og veit hvað hann vill.

Þetta hefur oftar en ekki farið öfugt ofan í margt leikhúsfólk og hann er málaður sem gamaldags fýlupoki sem hefur allt á hornum sér og ætti í raun að vera á safni. Það verður þó að segjast að áðurnefnd leikhúsfólk verður seint kallað miklir listamenn. Að bregðast þannig við skrifum manns sem er hámenntaður í faginu og hefur lifað og hrærst í leikhúsinu allt sitt líf bendir til að viðkomandi ætti að finna sér annað að gera en að búa til leikhús. Við búum til leikhús fyrir áhorfendur og þeir hafa skoðanir.

Ef að áhorfandi labbar út í öðru ástandi en þegar hann kom þá er eitthvað búið að gerast. Þá hefur leikhúsið haft áhrif. Það er gott. Jafnvel þó að ástandið á viðkomandi sé þannig að hann sé froðufellandi yfir því hve “illa” eða “rangt” var farið að uppsetningunni þá ættu aðstandendur sýningarinnar að vera það örugg með sína framsetningu og listrænar pælingar að það veit betur en að afskrifa gagnrýnendan sem vitleysing. Fólk væri einfaldlega ósammála. Og það er allt í lagi.

En til að taka mark á gagnrýni þá þarf hún að vera málefnaleg, rökstudd og bera þess vott að gagnrýnandinn hafi rýnt í alla þætti sýningarinnar og segi sína faglegu skoðun.
Því miður eru þeir orðnir ansi fáir leikhúsgagnrýnendurnir sem tikka í þessi box.

Leikhúsgagnrýni á Íslandi er á algjöru amatörleveli. Enda flest allt amatörar sem bera þennan titil í dag. (flestir, sem betur fer ekki allir!)

Aftur og aftur mætir þetta fólk á frumsýningar, lætur taka mynd af sér í sjoppunni, horfir á sýninguna, fer svo heim og skrifar eitthvað um sýninguna. Bara eitthvað. Sárasjaldan er reynt að rýna í það sem listamennirnir voru að gera. Hvaða ástæður séu á bakvið listrænar ákvarðanir, af hverju það var ákveðið að fara þessa leið að verkinu en ekki einhverja aðra. Oftast snýst þetta bara hvernig leikararnir stóðu sig (án rökstuðnings) og svo aðeins minnst á að leikmyndbúnigarljósoghljóð “unnu vel saman”.

Það sem við þurfum er vönduð gagnrýni frá fagfólki. Við þurfum fleira fagfólk sem treystir sér til að sinna þessu “leiðindadjobbi” í þessum agnarsmáa leikhúsheimi. Við þurfum listamenn sem geta tekið faglegri gagnrýni og við þurfum að hætta að hampa skoðunum amatöra eins og þær væru eitthvað annað. Leikhúsin eiga að sjá sóma sinn í að vera í fararbroddi í þessum efnum og skreyta ekki auglýsingar sínar með stjörnum og kvótum frá Siggu sumarafleysingamanni eða Bödda bloggara.

Við þurfum líka að fá fjölmiðla með okkur. Það vantar mun meiri umfjöllun um leikhús (þá er ég ekki að tala um endurbirtar fréttatilkynningar eða viðtal við leikara um hvernig var að alast upp í Kópavogi)

En til þess þarf leikhúsið að þora að vera til, að hafa skoðanir á samfélaginu og vera virkur þáttakandi í umræðum. það þarf að vera lifandi og taka sig ekki of hátíðlega.

Jón Viðar hætti á Fréttablaðinu vegna þess að hann fékk ekki plássið sem honum var lofað. Gagnrýni hans á Hamlet var stytt. Hann fór í fýlu og hætti. Lét ekki bjóða sér þetta. Gott hjá honum. Vont fyrir okkur.

En afhverju fékk hann ekki meira pláss? Er það vegna þess að almenningur hefur hvort eð er engan áhuga á leikhúsgagnrýni? Er það kannski vegna þess að almenningur hefur einfaldlega engan áhuga á leikhúsinu? “Það les þetta enginn!”

Hvað sem það er þá finnst ritstjórum landsins leikhúsið ekki eiga skilið stærra pláss í umræðunni og eitthvað þarf að gera. Leikhúsið þarf að vekja áhuga fjölmiðla á samtali, vekja upp áhuga almennings á leikhúsinu og vekja upp áhuga fagfólks á gagnrýni.

Það gengur allvega ekki að ritstjóri menningarmála á Fréttablaðinu labbi út af sýningu í hléi sem hún átti að gagnrýna og láti bara einhvern annan gera það. Bara einhvern.

Fréttablaðið er stærsta og besta dagblað landsins og ætti að vera í fararbroddi með vandaða leikhúsgagnrýni frá fagfólki.