Ferðamaðurinn ofan við þokuhafið eftir Caspar David Friedrich.

Hvað er fegurð? – 7. svar

gunnarjonsson

Gunnar Jónsson. Mynd:bb.is

Hvað er þessi fegurð?

Ég virðist ekki skynja fegurð fyrr en löngu seinna. Finn þá hvernig máttleysið hellist yfir mig er ég reyni að endurtaka fegurðina, sem enginn annar hefur upplifað og enginn annar skilur. Það vonleysi er fyrir mér óaðskiljanlegt frá fegurðinni.

Ef ég gef mér það að fegurð sé bundin reynslu og athugun minni á einstakri upplifun, getur þá hlutgerðin eða eftirmyndin orðið að hinni einu sönnu fegurð fyrir öðrum? Getur ein fegurðarskynjun verið sterkari en önnur, er eitthvað til sem er fallegra en fallegt? Býr hugurinn til fegurðina með því að ríma við raunveruleikann. Fegurðin verður því varla endurtekin, því ein og sér er hún ekki til staðar, því upplifunin og skilningur saman skapa heildarlistaverkið.

Það var fagurt þegar ég keyrði niður Gemlufallsheiðina um daginn. Dalalæða lá yfir Önundarfirði, heiðblár himininn eins langt og augað eygði. Sólstafir léku við fjallshlíðarnar. Einn í umhverfinu fann ég hve smár maðurinn er frammi fyrir mikilfengleika náttúrunnar. Máttvana lét ég bílinn renna niður hlíðina líkt og ég væri Rückenfigur í málverki eftir Caspar David Friedrich.

Gunnar Jónsson er myndlistarmaður.

Starafugl bað sextán listamenn úr ólíkum listgreinum og á ólíkum aldri að svara til um afstöðu sína til fegurðarinnar. Svörin munu birtast eitt á dag næstu daga á meðan enn eru nokkur til.