Ég sé framtíðina. Ég sé maurana fjölga sér og vinna saman við að byggja betri heim. Heim með ódýrari raftækjum. Heim með þægilegri fötum. Heim þar sem litríkir kjólar fátæku sígaunakonunnar verða orðnir að tískuvarningi. Heim þar sem fátækar sígaunakonur ganga í notuðum jogginggöllum.
Heim þar sem allir eru alveg að fara að meika það.
Heim þar sem margar hendur vinna létt verk. Heim þar sem margar hendur vinna og vinna og vinna. Heim þar sem maurarnir dást að mannfólkinu fyrir agann og framleiðnina og samstöðuna. Heim þar sem jörðin er ein risastór mauraþúfa.
Heim þar sem hinir fátæku munu hafa ennþá fátækara fólk til þess að vorkenna. Til þess að setja hlutina í samhengi. Til þess að allir viti að þótt þeir hafi það skítt gætu þeir haft það ennþá verra. Þótt barnið þitt svelti þá máttu ekki gleyma því að úti í heimi er eitthvað annað barn með næringarskort. Þótt barnið þitt sé að deyja þá máttu ekki gleyma því að úti í heimi er eitthvað annað barn löngu dautt.