Notkun þessarar myndar brýtur hugsanlega í bága við lög um höfundarrétt. En hvaða mynd ætli þetta sé?

Erfiða togstreitan í Mean Girls, Clueless, Legally Blonde. Í gegnum gleraugu tvíhyggjunnar.

Í grein sinni Hegelskur módelsmiður veltir Brynjar Jóhannesson fyrir sér díalektík líkama og hugar út frá togstreitu kvikmyndaáhorfandans. Áhorfandinn gerir sér grein fyrir bágri internet-einkunn; hann veit að Hollywood myndin fyrirsjáanlega mun ekki svala þorsta hugans vitsmunalega og því hlýtur hún að svala andstæðunni, líkamanum. Þetta er samsvarandi ástand og þegar hugurinn svignar undan líkamlegri þrá til ruslfæðis. Afleiðingin verður sektarkennd og þaðan höfum við „guilty pleasure“.

Mmmmmm, sektarkennd intellektsins. Það er eitthvað YNDISLEGT við þetta pokahorn kúlistans. Það er auðvitað frekar kjánalegt að fella alltaf dóm um lélegheit. Þetta er sérhannaður varnarmekkanismi kúlistans: að neita frekar en að játa, krossleggja hendur, fara í fýlu, nei þetta er ömurlegt, segja þau.

Síðan koma kúlistar eins og Brynjar (og ég) og fagna þessum kitcshuðu fjöldaframleiddu neysluvæddu listvörum og upphefjum okkur sjálf á næsta level, við viðurkennum að það lélega er gott á öðrum mælikvarða, það er gott vegna þess að það er lélegt og viðhöldum kúlinu. Og hugurinn sigrar líkamann.

Skoðum aðeins aðra yndislega togstreitu, ekki þá sem myndast inn í mér við áhorf lélegra mynda, heldur togstreituna sem myndast hjá ungum kvenkarakterunum í nokkrum fyrirsjáanlegum Hollywood myndum. Togstreituna sem virðist myndast milli vitsmuna og ytri fegurðar (a.k.a. súbjektsins og objektsins; anda og náttúru; hugar og líkama).

Umræddar myndir skipa að mínu mati hásæti chick-flickanna og engin af þeim slefar upp í fyrstu einkunn á IMDB.

Mean Girls, Clueless og Legally Blonde

Síðan fyrir langa langa löngu ákváðu mennirnir að það sem skilgreindi þá út frá dýrunum væru VITSMUNIR. Þetta virðist einhvernveginn hafa þróast í svona fína formúlu:

Vitsmunir = Maður
Líkami = Dýr

Eða þið vitið, í afskaplega grófum dráttum. Þetta leiðir okkur einnig að svipaðri niðurstöðu og Brynjar, að vitsmunir og skynsemi reyni að beisla líkamlegar og dýrslegar hvatir til þess að gera okkur mennskari.

Fegurð er með báðum í liði. Bæði er til ytri fegurð (bundin líkama og objektinu) og innri fegurð (bundin sál og persónuleika og súbjekti). Innri fegurðin sigrar alltaf! í fegurðarsamkeppni vitsmunaverunnar. Hún er mennskari heldur en skel ytri fegurðar. Á sama tíma er innri fegurðin einskonar gestaþraut manneskjunnar. Sumar manneskjur hafa ekki leyst þrautina og skilja ekki að fyrirbærið innri fegurð er a) til, b) mikilvægari heldur en ytri fegurð.

Þaðan fáum við yfirborðskennd. Yfirborðskennd hleypir ekki vegfarendum undir húðina og inní sálina. Yfirborðið vísar líka beint í ytri fegurð á meðan innri fegurð hvílir í undirheimunum, í djúpinu.

Legally Blonde er Elle Woods. Henni er dömpað af Hr. Hálfvita af því að hún er ekki nógu „serious“. Hún er ekki nógu klár og virðuleg til þess að eiga samleið með Harvard elítunni. Fyrstu tuttugu mínúturnar af myndinni fer mestmegnis í að sýna áhorfandanum gríðarlega og kjánalega áherslu Elle og vinkvenna hennar á útlit. Handsnyrting verður t.d. tilfinningabráðamóttaka stúlknanna. Hr. Hálfviti er á leiðinni í lögfræði í Harvard og Elle fær þá flugu í höfuðið ná honum til baka með því að leggja námsleið sína einnig þangað.

Í Harvard uppgötvar Elle að henni finnst gaman að vera meira en „homecoming queen“. Hana langar í rökfræðiformúluna sál&skel. Hún endar auðvitað á því að fara með morðmál fyrir rétti og sigra það, og hafnar Hr. Hálfvita.

Svipaða þroskasögu má segja af Cher í Clueless. Cher er rík, vinsæl og dekruð 16 ára stúlka sem í fyrstu virðist ófrumlegur, yfirborðskenndur tískufíkill frá Beverly Hills. Dæmi um hugmyndafræði hennar: „Do you prefer ‘fashion victim’ or ‘ensembly challenged?’“

Cher tekur nýjan nemanda undir sinn verndarvæng; grunge-útlítandi stúlku að nafni Tai. Cher kennir Tai lífsreglur í fatavali, strákasmekk og orðanotkun. Á sama tíma uppgötvar Cher að sjálf þurfi hún andlegt meikóver, líktog Tai „þurfti“ félagslega. Aðalorsökin fyrir þessari uppgötvun er að Cher verður ástfangin af Christian (útlitslega), en kemst síðan að því að hann er samkynhneigður. Þá uppgötvar hún andlega ást sína á Josh, en formerki hans eru ó-tíska, vitsmunir, samviska á heimsmælikvarða. Við sjáum Cher fyrst reyna að heilla Josh með útlitinu og fegurð, en hún nælir ekki í hann fyrr en hún hefur lagað sig að fleiri formerkjum eins og sjálfboðaliðastarfi og lögfræðiáhuga.

Silúetta Mean Girls af atburðarásinni er aðeins öðruvísi. Cady er 16 ára klár og indæl stúlka sem stígur sín fyrstu skref í bandarískum menntaskóla eftir að hafa hlotið heimakennslu frá foreldrum sínum allt sitt líf. Foreldrar hennar eru dýrafræðingar og þau fjölskyldan hafa búið í Afríku frá því Cady var lítil. Nú þarf Cady að glíma við frumskógarlögmál menntaskólans, hún kynnist Janis og Damian sem vara hana við hinum ýmsu stereóhópum innan skólans. En mest þarf hún þó að vara sig á The Plastics. The Plastics er kvenkynselítan í skólanum og samanstendur af þremur ríkum, yfirborðskenndum tískudrottningum. Yfirborðskenndin tekur á sig aðra mynd í The Plastics. The Plastics vísar beint til objektsins, eða „cold, shiny, hard; plastic“ eins og Janis orðaði svo réttilega.

Plastpíurnar bjóða Cady að sitja með sér af því að hún býr yfir fegurð og þær byrja að slípa hana að sínum stöðlum. Cady verður skotin í Aaron, fyrrverandi kærasta Reginu George (forrysturakka plastpíanna), og þegar Cady segir Reginu sakleysislega frá skoti sínu kippir Regina Aaron aftur til sín, en heldur áfram að sofa hjá öðrum gæja á meðan (Regina er illskan uppmáluð!)

Þetta veldur því að Cady, Janis og Damian byrja að vinna í leynilegum hefndaraðgerðum í garð Reginu og í því felst að Cady þykist verða plastpía.

Skólaárið líður og Cady verður vinsælasta stúlka skólans sökum nýja þykjustuvinahópsins. Hún þykist líka vera vitlaus til þess að ná athygli Aarons, og dettur óvart inn í þykjustuleik sinn þar sem hún er tíkarleg og plastkennd.

Þessar tvær grímur hennar renna að lokum í dálítið rugl; hún getur ekki verið plastpía og ekki plastpía. Í rökfræði kallast þessi formúla mótsagnarlögmálið sem segir að hlutur geti ekki VERIÐ og EKKI-VERIÐ á sama tíma : ~(a&~a)

Þetta endar náttúrulega á mótsögn, formúlan fellur og Cady missir allar vinsældir sínar og þarf að fara að vinna persónuleikann sinn upp á nýtt. Hún tekur til í sjálfri sér og endar á því að verða „actual human being“ eins og hún sjálf orðar það í endann. Getur það verið tilviljun? Actual human being er manneskja með jafnvægið á réttum stað – persónuleiki skiptir meira máli en yfirborðið, hugurinn er yfir líkamanum, vitsmunir yfir fegurðinni, hið innra yfir hinu ytra, andinn yfir efninu; manneskjan yfir dýrinu.

Og við endum á því að klappa (eða svona næstum því), jei! Þær gátu það! Þær sigruðu gestaþrautina! Þær urðu að alvöru manneskjum! Þær gengu í gegnum hegelska þroskasögu andans!

Samt situr eitthvað óbragð eftir í munninum, (svona eins og þegar maður reykir sígarettu!), stelpurnar upplifðu erfiðu togstreituna eiginlega bara útaf strákunum. Þessar fallegu vitsmunaverur urðu bara vitsmunaverur útaf dýrslegum hvötum fegurðardrottingarinnar.

Og síðan drekkur maður bara kók ofan í óbragðið, smakkar sér á vænum KFC bita, (muna bara að vera meðvitaður um neysluna!), whatever floats your soul.