Ecce Ancilla Domini – engillinn flytur Maríu mey fregnir af óléttunni – eftir Dante Gabriel Rosetti.

Engill til bjargar: Prédikanir á föstu

Að taka föstutextana alvarlega er að íhuga föstuna með sínu trúarlega inntaki, þann aðdraganda að krossfestingu Krists sem gerir stöðu hans og fórn áþreifanlega í lífi hins trúaða. Við búum aftur á móti við hefðir og í sumum þeirra felast möguleikar á því að „koma sér hjá föstuboðskapnum“ – eins og raunin var í prédikun Guðbjargar Jóhannesdóttur síðastliðinn sunnudag, þegar útvarpað var messu sem haldin var til heiðurs 50 ára starfsafmæli Jóns Stefánssonar organista við Langholtskirkju. Tilefnið var slíkt að eðlilegt má kalla að þeir textar sem fylgja boðunardegi Maríu, með sterk tengsl við gleðiboðskap jólaguðspjallsins, hafi verið teknir fram yfir föstutextana sem fylgja 5ta sunnudegi í föstu, þó rúm vika hafi verið liðin frá 25.mars, Boðunardeginum sjálfum. Messuna sem útvarpað var má mæra fyrir margt, enda öllu til tjaldað á hátíðisdegi og vígslubiskup Skálholts og æskuvinur Jóns, Kristján Valur Ingólfsson þjónaði fyrir altari af sínum alkunna myndugleik. En satt best að segja hefði ég kosið að farið hefði verið alla leið með að prédikunin stæði í tengslum við tilefnið frekar en að reyna að ráða fram úr þeim skilaboðum sem fram komu í henni í samhengi föstunnar.

Séra Guðbjörg er mikils metinn prestur, formaður Prestafélags Íslands og til þess að gera ung kona. Því er eðlilegt að textar boðunardags Maríu höfði sérstaklega til hennar til að leggja út af. Stíll hennar er í sterkum tengslum við hinar svokölluðu nútímalegu aðferðir í prédikun, þar sem reynsluheimur hversdagsins verður henni að yrkisefni og rekur fyrri hluti prédikunar hennar þræði sem gætu verið hvaða áheyranda sem er kunnuglegir. Hún fjallar um „atburðinn“ þegar kona fær fréttir af þungun sinni; því undri. Hún setur þungunina sem undur í fyrsta sæti og tengir frásögn sína þekktri persónu, um leið og hún fjallar um fréttina af þungun Maríu í samhengi dægurmenningar og samtímavísinda með hugleiðingu um „jólasýninguna vinsælu“ um Jesú litla, sem flutt var á fjölum Borgarleikhússins við góðan orðstír um árið. Og hún blandar inn málefni sem snertir pólítíska sérstöðu þjóðkirkjunnar í hinu kirkjulega landslagi – í ljósi þróunar mála í nágrannaríki okkar Noregi – sem er getnaður innan samkynhneigðs sambands, óvenjulegur (ekki de facto náttúrulegur) en um leið tákn þeirrar blessunar sem má túlka þungun konu sem. Það er „nútímalegt“ í því samhengi sem tengja má við „erindið um fordómaleysi og víðsýni“ sem kirkja þeirrar kynslóðar sem Guðbjörg tilheyrir í Þjóðkirkjunni vill standa fyrir. En um leið þá virðist hún ekki hafa nægilega skýra sýn á það hvert prédikun hennar eigi að leiða. Það er að segja, þegar hún er komin að þeim punkti að afgreiða burt hið óvísindalega kraftaverk meyfæðingarinnar – í krafti þekkingar nútímans – og undrið „að eiga von á barni“ er komið í forgrunn þá fellur hugleiðing hennar að mestu leyti í þann farveg að við megum trúa hverju sem er því að lífsafstaða okkar gagnvart spurningum trúarinnar sé það sem gildir.

Það er sök sér í lagi, en ef það er erindi prédikunarinnar; að við séum frjáls til að hafa okkar skilning á játningum kirkjunnar á meðan lífsafstaðan sé jákvæð, þá hefði sá föstutexti sem samkvæmt hefð kirkjunnar er markaður fimmta sunnudegi í föstu í raun átt mun betur við en frásagan af Gabríel og Maríu. Það sem ég á við er að sá texti fjallar sérstaklega um „hina fornu játningu“ og hina nýju ásýnd sannleikans sem Jesú boðar Gyðingum í helgidómnum, en er dreginn til dauða fyrir. Og að lífsafstaða hans hvikar ekki frammi fyrir þeirri vegferð sem fastan leiðir okkur í gegnum, hvernig sem túlkanir og lögmálsfesta Gyðinganna setja Jesú í stöðu þar sem hann verður að taka af skarið með að kalla trú þeirra hismi, föður þeirra djöfulinn sjálfan og þá holdgervinga lyginnar; þá verður Jesú að vera sannleikanum trúr. Og prédikarinn á að vera þeim sama veruleika trúr. Að benda á hið nýja undur frammi fyrir og í samanburði við forneskju lögmálsins. Eða hvernig er hægt að draga játningu kirkjunnar í efa með annarri setningunni en vinda sér svo í að þylja hana af skyldurækni í næstu?

Þrenningin

Í nútímalegri og samfélagslega meðvitaðri prédikun virðist vera ákveðið „trend“ í gangi, nánast eins og um formúlu sé að ræða sem kennd hafi verið á einhverju námskeiðinu, þar sem eiginleikar þriggja óskyldra persóna eru tengdir saman. Það vill þá verða að „hvunndagshetja“ – persóna úr guðspjalli og einhver önnur góð og gegn „fyrirmynd“ séu tengdar saman í flæði prédikunarinnar, svo að eftir standi eiginleiki sem sé til eftirbreytni (erindi prédikunarinnar). Seigla, þrautseigja og kjarkur eru þeir eiginleikar sem Guðbjörg kýs að gera að yrkisefni prédikunar sinnar í ljósi viðbragða Maríu við hinu mikla undri sem hendir hana. Undrið tengir hana og fyrstu persónuna sem fjallað er um en þrautseigja hins ósérhlífna þjóns verður farvegur umfjöllunar um organistann Jón Stefánsson, sem messan er í raun tileinkuð. Það sem aftur á móti stingur í flæði prédikunarinnar er að það verður algjört rof á milli fyrri hlutans og einhverskonar hugleiðingar í endann um lífsstarf og þjónustu Jóns við Guðs kristni í landinu. Hér er ekki ætlunin að kasta rýrð á framlag hans til tónlistarstarfs í kirkjunni með því að segja tenginguna á milli Maríu Guðs móður og hans í þessu samhengi hæpna. Punkturinn er bara sá að prédikunin er sem heild nokkuð klúðursleg vegna þessarar lauslegu tengingar tveggja óskyldra hugleiðinga. Í messu tileinkaðri Jóni hefði verið eðlilegra að fjalla bara með skýrari hætti um framlag hans til tónlistarstarfs í kirkjunni – enda hin almenna krafa um að prédikunin sé frammúrskarandi útlegging byggð á spámannlegri innsýn og ritskýringu á guðspjalli dagsins, fyrir nokkru lögð af.

Þó það sé vissulega ekki meiningin með rýni sem þessari að fabúlera með hvaða leiðir hefði mátt fara frekar en það sem valið var þá má benda á hið eðlilega samhengi á milli Maríu Guðsmóður og Jóns Stefánssonar – sem er vinna hans með þau kvæði og lög sem tengjast hinum íslenska tónlistararfi. Framlag Jóns til þess að við kunnum svo ríkulega að meta Maríu í evangelísk-lúterskri kirkju dagsins í dag liggur í þeim þráðum. Ákveðin rök mætti einnig færa fyrir því að ástæðan fyrir þvi að haldnir eru í hávegum dagar sem tengjast hinum fornkirkjulega arfi, eins og boðunardagur Maríu, sé einmitt sú að listamenn eins og Jón lyfta t.a.m. íslenskum kvæðum úr kaþólskum sið á þann stall sem þau eru á, með elju sinni og áhuga. Með öðrum orðum, það eru englar eins og Jón sem hafa bjargað því að biblíulegar persónur eins og María lifa góðu lífi í menningu dagsins í dag sem táknmynd þrautseigju og heilagleika, og eru lifandi veruleiki í hugskoti þeirra sem kynnast henni í gegnum klassíska túlkun kirkjulegs tónlistarstarfs.

Ljóðrænt niðurlag

„Fréttir eru yfirleitt fluttar með orðum en fyrir flest er bókstafurinn illskiljanlegur, því með orðum verður það aðeins mín og þín túlkun sem mætast. Hins vegar með tónum, upplifun og reynslu verður allt að fiseindum og bylgjum sem gera mestu undrin meðtakanleg. Trúðurinn og tónlistin miðla hinu óskiljanlega með þeim hætti.
„Það voru þessar fréttir sem skiptu máli ekki hvar maður var staddur þegar þær komu“.
Það er boðun Maríu í hnotskurn, vegnanesti til að taka með sér til næsta samfundar við undur lífsins. Í tónum, elsku, orðum og verkum.“
– úr Þú átt von á barni GJ
Að mörgu leyti má vera ljóst að prédikun Guðbjargar er í stíl sem kallast á við samtímann og er tilraun til samtals um undur lífsins og trúarafstöðu í kristnum farvegi. Þræðir hennar falla brotakennt saman í ljóðrænu niðurlagi sem lýsir fullu trausti til þess vefnaðar sem spunninn hefur verið, og það er vel. Það getur vel verið að fagurfræðilega komi prédikunin sem texti því út sem áhugaverð smíð en það sem hana skortir sem íhugun um guðfræðileg efni á föstunni er aðkallandi í huga þess sem í rýnir. Þrautseigja og kjarkur standa uppúr sem gildi á endanum sem séu til eftirbreytni, og að við séum kölluð eitt sem öll ætti að fylgja. Að drepa þeim boðskap á dreif með vísunum til hins óræða, að undri lífsins sé miðlað með mismunandi hætti, tónum og ljóðum, í ljóðrænu niðurlagi skilur mann eftir í tómarúmi þar sem það gleymist fljótt hvaða erindi prédikunin átti við mann. Ekki bætti úr skák að annan sunnudaginn í röð voru hljóðgæði útsendingar RÚV fyrir neðan allar hellur, það hjálpaði ekki til og óskiljanlegt að jafn veigamikilli tónlistardagskrá og Graduale Nobili og Kór Langholtskirkju hafi ekki verið gert hærra undir höfði en svo að úr sér genginn tækjabúnaður truflaði viðburðinn meir en góðu hófu gegnir. Hvaða engill það var sem bjargaði þessu klúðri veit ég ekki en ljóðrænn var hann.