Einsog hún hafi alltaf verið þarna

Um þjóðsöguna Sóla og sólin eftir Ólöfu Sverrisdóttur með myndskreytingum eftir Rio Burton

Sóla er eitt af börnum Grýlu en sker sig úr fjölskyldunni fyrir að þykja vænt um börn og vilja ekki hrekkja nokkurn mann. Hún er fædd á sumardaginn fyrsta og fékk nafnið af þeim sökum – en eitt árið lætur sólin ekki sjá sig á afmælisdaginn. Þá fer Sóla á stúfana eftir nöfnu sinni. Hún heimsækir hrímþurs, nátttröll, ref og ísbjörn sem allir mælast gegn því að Sóla Grýlubarn finni sólina, enda hafi þeir það fínt í myrkrinu. Loks rekst hún á álftapar sem hjálpar henni, það leiðir hana að huldukonu nokkurri sem leiðir hana til álfkonu sem hefur haft fyrir vana í gegnum aldirnar að syngja sólina á fætur. En nú bregður svo við að álfkonan er veik og getur hvorki talað né sungið. Huldukonan býr til íslenskt jurtaseyði fyrir álfkonuna sem læknast smám saman og getur aftur sungið einsog engill á þriðja bikar. Sem hún gerir, sólin snýr aftur og er upp frá því ævinlega á réttum tíma.

Það er galdur að skrifa nýja þjóðsögu sem hljómar einsog hún hafi alltaf verið þarna. Höfundur Sólu og sólarinnar, Ólöf Sverrisdóttir, er leikkona og hefur sagt þessa sögu mörgum sinnum í frístundaheimilum og leikskólum, sem hún heimsækir á sögubílnum Æringja – líklega má þakka því ferli einhvern sannferðugleika í frásögninni. Byggingin er góð, díteilarnir góðir og endurtekningar og minni markviss – þetta er saga sögð styrkri röddu. Þá er textinn líka góður – setningar hvorki of fornfálegar né kæruleysislegar og frásögnin flæðir vel.

Myndirnar eru kapítuli út af fyrir sig. Þær eru afar „óíslenskar“, sem er hvað sem öðru líður hressandi í íslenskri þjóðsögu; náttúran á myndunum er ekki íslensk náttúra, hrímþursinn sprettur úr annarri hefð og svo framvegis. Þetta er mér að skapi – gott uppbrot í þjóðsagnaflóruna. Myndirnar eru þess utan afar fallegar. Eg er ekki viss í hvaða broti bókin er 1 en þessar myndir myndu sóma sér vel í stóru broti.

hrimthurs

Á forsíðu eru myndirnar eignaðar Rio nokkrum Burton, en á titilsíðu eru þær eignaðar útgáfunni, Óðinsauga, sem ég reikna með að komi til af því að útgáfan hafi einfaldlega keypt myndirnar með húð og hári – og teiknarinn hafi fengið eingreiðslu. Það að ráða erlendan teiknara á „betri“ kjörum en íslenska – sé það ástæðan fyrir valinu – er hugsanlega gjörningur af sama tagi og að flytja inn tíu þúsund Kínverja til að byggja fyrir sig tónlistarhús. Í besta falli hressandi fyrir einangrað land að fá erlend áhrif og skiljanlegt fyrir útgáfuharkara á litlum markaði að velja ódýrasta kostinn, í versta falli misnotkun sem bitnar bæði á undirborguðu erlendu vinnuafli og grefur undan kjörum íslenskra teiknara. Þeir sem vinna að bókum sem koma út á Íslandi eiga að fá greitt eftir íslenskum taxta, alveg einsog þeir sem vinna í íslenskum frystihúsum. En hvað um það – ég veit ekki hvað veldur, vonandi fékk teiknarinn greitt eftir íslenskum taxta og vonandinn fylgist löggjafinn og verkalýðsfélagið með þessu.

Hnotskurn: Fallegt íslenskt ævintýri með skemmtilega „erlendis“ teikningum.

P.S. Ég gleymdi víst að nefna að Aram Nóa, syni mínum, sem las bókina með mér fannst hún mjög góð og hefur viljað lesa hana mörgum sinnum.

   [ + ]

1. Við sonur minn lásum hana sem pdf-skjal á iPad og súmmuðum mikið inn og út