Ég skrifa þess vegna er ég – um Bréfabók eftir Mikhaíl Shíshkín

Í Bréfabók eftir Míkhaíl Shíshkín (sem er nýkomin út hjá Bjarti í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur) lesum við bréfaskipti Volodenka, hermanns sem berst í fjarlægu stríði, og Sashenka, elskhuga hans sem er heima fyrir. Bókin byrjar á hefðbundin hátt, bréfaskipti þeirra samanstanda mestmegnis af endurminningum og ástarjátningum ásamt ýmsum vangaveltum um heimspeki og vísindi. Fljótlega áttar lesandinn sig þó á því að eitthvað furðulegt er á seyði. Við komumst að því að Volodenka berst í Kína á tímum boxarauppreisnarinnar, sem átti sér stað í kringum aldamótin 1900, á meðan að Sashenka lifir mun nær nútímanum þar sem hún notar síma og aðra nútímatækni – án þess þó að árið sé gefið upp nákvæmlega. Það sem meira er virðast þau ekki eiga í neinum raunverulegum samskiptum yfirhöfuð, því engin viðbrögð við efni bréfa þeirra má sjá hjá hinu.

Frásögnin verður svo enn skringilegri þegar að Volodenka deyr á mjög ódramatískan hátt í stríðinu ríflega sjötíu blaðsíður inn í bókina: „Kæra skírnarnafn og föðurnafn! Mér þykir afar leitt að tilkynna yður að sonur yðar. En annars, þér vitið hvað ég á við. Bítið á jaxlinn“ (bls.75). Sashenka syrgir Volodenka með fjölskyldu hans en þrátt fyrir það halda bréfaskiptin áfram. Volodenka heldur að því er virðist áfram að berjast í stríðinu og Shashenka heldur áfram með líf sitt, kynnist öðrum manni sem á dóttur og við fylgjumst með samskiptum hinnar nýju fjölskyldu í gegnum bréfaskiptin við Volodenka.

Hvað er hér á seyði? Okkur eru gefnar þó nokkrar vísbendingar um að í heimi bókarinnar lúti tíminn annars konar lögmálum. Ásamt því að Volodenka vitnar í Hamlet, („Úr liði er öldin“), má finna ýmsar hugleiðingar sem gefa til kynna að tíminn sé ekki línulegur:

Og tíminn lætur vísindamennina ekki í friði. Þeir uppgötvuðu jú fyrir löngu í tilraunum sínum að hann fyllir ekki aðeins rýmið að jaðri þess eins og þunnur grautur heldur safnast hann líka saman í hrúgu eins og þykkur grautur, vandamálið nú er varðveisla hans. Samkvæmt nýjustu heimildum geta aðeins annálaritarar varðveitt hann og aðeins í réttri tímaröð, þar sem eitt kemur á fætur öðru, eftir braut sem liggur í sömu átt og sporvagnabrautir og þar sem brautir sameinast, en til þægindaauka hefur þessi línulegi tími verið skorinn í búta eins og endalaus makkaróni. (bls.260-261)

Að forminu til er Bréfabók bréfabók og stendur því undir nafni. Hún tilheyrir sömu hefð og til dæmis Pamela og Clarissa Samuel Richardsons og Drakúla Bram Stokers. En fyrir utan formið er fátt annað hefðbundið við bókina. Raunar mætti lýsa henni sem einskonar frumspekilegri tilraunaskáldsögu með fantasíuáhrifum, en í stríðinu í Kína birtast til dæmis allt í einu menn með hundshausa án þess að það sé útskýrt neitt nánar hvernig þeir passa inn í heim sögunnar.

Bókinni er lýst sem „ástarsögu allra tíma“ á kápunni en þessi lýsing er eilítið villandi. Ekki aðeins vegna þess að þetta hljómar eins og lýsing á einhverri Nicholas Sparks þvælu (sem hún er alls ekki), heldur finnst mér bókin ekki vera fyrst og fremst ástarsaga. Shíshkín nær þó mjög vel að fanga ástina og hvernig hún getur lýst upp hin minnstu smáatriði hversdagsins, en gildi bókarinnar liggur aðallega annars staðar. Shíshkín gefur þetta sjálfur til kynna þegar Sashenka heldur því fram í bókinni að ástarsögur séu í rauninni ekki um ást heldur dauðann og eilífðina.

Aðalþema bókarinnar er miklu heldur máttur orðanna. Það er í gegnum skrif sín sem Voldenka virðist sigrast á línulegum tíma og dauðanum. Heil öld aðskilur Volodenka og Sashenka efnislega en á tilvistarstigi orðanna er gefið í skyn að allt gerist á sama tíma, eða öllu heldur, allt hefur nú þegar gerst. Upphaf Jóhannesarguðspjalls kemur oft fyrir í bókinni:

Mér virtist að ég hefði uppgötvað sannleikann. Mér fannst ég allt í einu vera orðinn mjög sterkur. Ekki bara sterkur heldur alls megnugur. Já, Sashka, hlæðu bara að mér – mér fannst ég vera almáttugur. Ég skildi það sem fávísum hafði verið hulið. Ég uppgötvaði kraft orðanna. Að minnsta kosti fannst mér það þá. Ég var orðinn mjög mikilvægur hlekkur, kannski sá mikilvægasti, sem tengdi okkur við hinn raunverulega mann – kannski var hann sveittur, andfúll, örvhentur, rétthentur, með brjóstsviða – það skiptir ekki máli, hann er jafn raunverulegur og þú og ég sem skrifaði einu sinni: „Í upphafi var orðið.“ Og orð hans urðu eftir, hann er í þeim, þau eru líkami hans. Og þetta er hinn eini sanni ódauðleiki. Það er ekki til neinn annar. Allt hitt er þarna niðri í holunni með kirkjugarðsúrganginum. (bls. 156-157).

Þannig virðist bókin taka upphafsorðum guðspjallsins bókstaflega og rannsaka afleiðingarnar af því. Það er í gegnum orðin og skriftirnar sem aðalpersónurnar lifa. Þó er þetta ekki alveg svo klippt og skorið því Volodenka lýsir einnig yfir efasemdum um kraft orðanna og talar um takmarkanir þeirra: „Aðalatriðið er samt að hið raunverulega passar ekki í nein orð. Maður verður orðlaus fyrir framan raunveruleikann. Allt mikilvægt sem gerist í lífinu er handan við orðin.“ (bls. 157) Þannig er bókin flókin hugleiðing um tengsl skáldskaparins við lífið og dauðann.

Gríski heimspekingurinn Demókrítos er líka áberandi. Í bréfum sínum virðist Volodenka aðhyllast atómkenningu hans, sérstaklega þá hugmynd að atóm og sálir geti ekki snerst:

En kostulegt að Demókrítos skuli hafa haldið því fram að skipta mætti öllum líkamanum í hluta nema sálinni. Sálin er það eina sem er ekki hægt að kljúfa í sundur, eins og atóm. Milli atóma er alltaf bil. „Ef atóm gætu snerst væri hægt að kljúfa þau í tvennt, en samkvæmt skilgreiningu er það ekki hægt. Aðeins aðskildir hlutir geta snerst.“ Það er að segja líkamar geta snerst en milli sálna verður alltaf bil, tóm. (bls.67)

Er þessi kenning því lýsandi fyrir fjarlægðina á milli elskhuganna. En í lokin – í undarlegri senu sem virðist vera einskonar draumur eða handanheimur – segist Volodenka loksins vera á leiðinni heim til Sashenku. Þá gefur hann kenningu Demókrítosar upp á bátinn og heldur því fram að fólk sé öllu heldur hlýja og birta. Ekki aðeins líkamar heldur líka sálir geti snerst, eins og Volodenka og Sashenka hafa verið að gera í gegnum bréf sín.

Þá er dauðinn alltumlykjandi í bókinni. Shíshkín býður upp á hryllilegar lýsingar á stríði og er það kannski sá hluti sem er eftirminnilegastur. En það er líka samspilið, hvernig Shíshkín hoppar auðveldlega frá næmum ástarjátningum, fallegum og ljóðrænum lýsingum, gráum hversdagsleikanum yfir í villimennsku stríðsins í Kína við upphaf 20.aldarinnar sem hefur sérstök áhrif á lesandann. Raunar er ótrúlegt hversu mikið Shíshkín nær að fjalla um á aðeins þrjú hundruð blaðsíðum, en ásamt dauðanum, ástinni, tíma, skáldskap og stríð þá fjallar bókin ítarlega um sambönd og einmannleika. Hann kemur einnig víða við í hugmyndasögunni en meðal rithöfunda og heimspekinga sem koma við sögu má nefna Shakespeare, Markús Árelíus, Óvíð, Platon, Gogol, Púshkín, Jonathan Swift og Ferðir Gúllívers og Dostojevskí svo einhverjir séu nefndir.

Bréfabók er stórfurðuleg en jafnframt meistaralega skrifuð skáldsaga. Shíshkín hefur verið hylltur sem nútíma arftaki hinna miklu rússnessku meistara eins og Tolstoy og Chekhov af sumum bókmenntagagnrýnendum. Ef með því er átt að hann haldi upp hinni miklu rússnesku bókmenntahefð í dag þá hafa þeir rétt fyrir sér, en að öðru leyti eru verk og stíll Shíshkíns nokkuð langt frá hinum miklu nítjándu aldar skáldum. Verkið er einkennileg blanda af ástarsögu, frumspeki, fantasíu og raunsæi sem rennur vandræðalaust saman í einn farveg í meðförum Shíshkíns.