Það má deila um hvort það er til marks um firringu mannkyns eða seiglu, en hvar sem mannskepnur fyrirfinnast hafa þær frá örófi alda gert sér mat úr hörmungum. Frá Sturlungavígum til heimsstyrjalda hefur listafólk fundið sköpunargáfu sinni farveg í frásögnum, tónlist og lýsingum sem er ýmist ætlað að skemmta, hrífa eða hvetja fólk til dáða. Skáldin hafa ekki farið varhuga af aðdráttarafli hörmunganna og í heimi bókmenntanna spila loftslagsbreytingar og umhverfisvandamál nú um stundir stóra rullu. Þetta sést kannski best á því að sá angi hans sem gefur sig að umhverfishörmungum er nú álitinn sérgrein og hefur fengið titilinn climate fiction, eða cli-fi. Innan cli-fi leynast bæði gullmolar og afleit verk og við báðum jaðrakaninn, sem er bæði víðlesinn og margfróður, að leggja mat á nokkur áhugaverð verk.