Bryndís Loftsdóttir um Línu Langsokk

Leikgerðin er unnin upp úr sögum úr fyrstu Línu bókinni, sem jafnframt er sú besta. Þýðing handritsins er í höndum Þórarins Eldjárns, en til marks um hve íhaldssamir okkar yngstu áhorfendur geta verið þá snéri 6 ára dóttir mín sér að mér í miðju leikritsins til að tilkynna mér að leikurinn sem Lína bjó til héti „gripasöfnun“ en ekki „hlutaleit“. Hún áleit einfaldlega að leikararnir hefðu ruglast eitthvað enda vön textanum úr bókunum..  Nútíma viðhorf hefur svo líklega ráðið því að Langsokkur skipstjóri er nú orðinn sjóræningi í stað svertingjakóngs og prinsessutign Línu því væntanlega fokin út í veður og vind. Allt situr þetta svolítið í manni og sýnir kannski hvernig upprunaleg þýðing bókanna hefur áunnið sér gildi frumtexta meðal unnenda verksins hér á landi. En þýðing Þórarins rann einkar vel eins og við var að búast. Ég er þó ekki frá því að hægt væri að vinna betri leikgerð upp úr bernskuminningum Línu, en ef til vill fæst ekki leyfi til slíkrar sköpunar frá sænskum rétthöfum.

via Pressan.is.