Blekkingin um alsælu líkamans

Um Kroppurinn er kraftaverk eftir Sigrúnu Daníelsdóttur með myndskreytingum eftir Björk Bjarkadóttur

„Líkaminn er ekkert hús“, sagði sonur minn þegar ég spurði hann hvers vegna sér hefði ekki þótt Kroppurinn 1 er kraftaverk , eftir Sigrúnu Daníelsdóttur með myndskreytingum eftir Björk Bjarkadóttur, vera skemmtileg. Og fékkst ekkert til að útskýra það frekar. Líkaminn er bara ekkert hús. Nú skortir Aram Nóa ekki hugmyndaflug og er vel vanur líkingamáli – ef ég á að geta í eyðurnar myndi ég segja að hann upplifi ekki líkamann sem eitthvað aðskilið frá sjálfum sér. Finnist ekki líkaminn vera skel utan um sig, ekki vera farartæki fyrir sig, ekki hús til að búa í, heldur einmitt hann sjálfur. Og þá er ég ekki frá því að ég sé sammála honum.

Þegar ég gekk svo á hann eftir seinni lestur – eftir hvern hann skipti um skoðun og sagði að bókin væri víst skemmtileg (hann ætlaði samt varla að fást til að lesa hana aftur) – bætti hann því við að líkaminn væri ekki húsið okkar heldur værum við húsið hans. Ég er enn að melta þann boðskap. Mér finnst hann í öllu falli hljóma vel, zenískur.
kroppurinn1
Örlítið um myndirnar. Þær eru vel gerðar, einsog Bjarkar er von og vísa – stútfullar af kærleik og leikaraskap og persónurnar, sem eru alltaf skemmtilegar, njóta sín þeim mun betur eftir því sem vikið er lengra frá klassískum andlitsdráttum. Aðspurður sagðist Aram vera hrifnastur af myndinni hér að ofan, með fólkinu og blómunum, og spurði á móti hvaða mynd mér hefði þótt skemmtilegust, sem var þessi hér að neðan, sem honum fannst þá líka skemmtilegustu (ásamt hinni, ekki í staðinn fyrir hana).
kroppurinn2
Við Aram Nói höfum lesið nokkrar af bókum Bjarkar um Gíra stýra sem og nokkrar um Súperömmu, sem er í sérstöku uppáhaldi, og mér finnst í það minnsta myndirnar í Kroppurinn er kraftaverk fara fram úr Gíra og Ömmu í skemmtilegheitum.

Mér gekk ekkert sérstaklega vel að fá Aram til að ræða innihaldið í bókinni, kannski vegna þess að boðskapurinn í henni er svo augljós – þetta er einfaldlega predikandi bók, þótt boðskapurinn sé á hippísku – og kannski vegna þess að ég hikaði við að ræða það sem truflaði mig sjálfan. Afstaðan til líkamans er til dæmis ótvírætt jákvæð – þetta er nýja testamentisvirðing, ekki gamla testamentisvirðing, sem maður á að bera fyrir líkamanum. „Líkaminn er skemmtilegur“ og „það er gott að eiga líkama“ og líkaminn er „klár“ og „snillingur“ og „listasmíð“ og „allir líkamar eru góðir líkamar“ og svo framvegis.

Ég veit ekki hvort það er neitt pláss fyrir það í barnabók en ég saknaði dálítillar spennu, dálítils harms – að það kæmi fram að líkaminn heldur okkur ekki bara á lífi hann heldur okkur líka í heljargreip og drepur okkur öll að síðustu, steypir okkur í sjúkdóma (og læknar sig ekki alltaf) og hver einasti líkami er ekki bara góður heldur líka vondur, skelfilegur, hryllilega gallaður. Ég elska ekki bara líkama minn fyrir unaðinn sem hann veitir, ég óttast hann líka.

Einhvern tíma í vikunni rakst ég síðan inn á blogg Ragnars Þórs Péturssonar þar sem hann fjallar meðal annars um afstöðu sína til kirkjuheimsókna – þar kemur fram að hann hugsi um uppeldismál barna meðal annars eftir þessum línum:

Kynning barna á samfélagi sínu snúist framanaf um það að samfélagið geti verið gott. Síðan að það sé fallegt. Loks að það sé flókið. Börn séu beinlínis þjálfuð í því að bera hlýjan hug til annars fólks, að sjá fegurðina í fjölbreytileika mannlífsins og að ráða við að hugsa um og í flóknum heimi.

Ef ég nálgast Kroppurinn er kraftaverk með þessum hugsunarhætti mætti líta á jákvæða innrætinguna sem þrep í ferli sem verði svo afbyggt eða í það minnsta flækt. Svona einsog maður byrjar á að læra að alhæfa – benda á bláa bílinn – áður en maður lærir díteilana, að bíllinn sé nú eiginlega túrkís og sé raunar Mercedes og þar að auki mikill skaðvaldur fyrir umhverfið en svolítið flottur og komist í hundraðið á 0,1 sekúndu en það séu fyrst og fremst glataðar týpur sem eigi svona og því sendi það kannski röng skilaboð. En það breytir því auðvitað ekki að í þessari bók er bíllinn bara blár. Líkaminn bara góður. Hugsanlega geldur bókin fyrir að ætla að höfða til of margra aldurshópa – hugsanlega átta ég mig ekki alveg á því til hvaða aldurshópa hún á að höfða (sonur minn er fimm ára, hann er líklega of gamall). Það er einsog hún sé í senn of þung og of létt.

Svo er bara að sjá hvort barninu finnist þetta skemmtilegt næst, það virðist vera alveg fiftí-fiftí.

Myndir: 5 stjörnur
Boðskapur: 1-4 stjörnur (ég er enn að melta þetta)
Texti: 3 stjörnur (hefði hreinlega mátt vera fyndnari, til að létta á glaðleikanum)

   [ + ]

1. Það fer alveg í mínar fínustu smámunataugar að í titli skuli talað um „kropp“ til að stuðla, en í bókinni sé alltaf talað um „líkama“.