Ég fór á tónleika í bíó. Eða réttara sagt á bíómynd sem var eins og safn tónlistarmyndbanda sem var sýnd á undan beinni útsendingu af tónleikum sem varpað var upp á kvikmyndatjald. Það sem tengdi þetta alltsaman var tónlistarkonan Alison Goldfrapp. Hún lék í öllum stuttmyndunum sem búnar höfðu verið til við tónlistina hennar af plötunni Tales of Us. Þær stuttmyndir voru svo klipptar saman í eina þrjátíu mínútna langa mynd. Svo var hún miðja hljómsveitarinnar í seinni hlutanum, live tónleikunum frá Air Studios. Þetta var því einskonar Goldfrapp veisla.
Ekkert að því, tónlistarkonan Alison Goldfrapp hefur gert magnaða hluti og er greinilega að vinna með áhugaverðri kvikmyndagerðarkonu, Lisu Gunning. Það er heldur ekkert að því, þannig, að senda út tónleika í bíó. Upplifunin af slíkum viðburði er hinsvegar talsvert öðruvísi en af því að fara á tónleika. Og í þessu tilfelli líka talsvert öðruvísi en af því að fara í bíó. Samt var þetta bæði.
Það hafa margir, mér mun fróðari menn, skrifað um fyrirbærið „live“. Það er engu að síður alltaf áhugavert að finna á eigin skynfærum hvernig miðlun viðburða breytir upplifun manns á þeim í rauntíma. Engir lærðir textar eftir Auslander geta undirbúið mann undir það. Það væri heldur að leita til Merleau-Ponty en jafnvel þá er hætt á að maður sannreyni bara gamla stef Derrida (og fleiri) um vanhæfni tungumálsins til að miðla raun-upplifun mannsins af heiminum. En bundinn í fjötra tungumálsins reynir maður samt.
Kvikmyndin Tales of Us var ekki bara kvikmynd. Strangt til tekið var hún safn stuttmynda, sem hver um sig var áhugaverð en áttu fátt sameiginlegt þegar nær var gáð. Engu að síður runnu þær vel saman, að mestu fyrir tilstilli tónlistar Goldfrapp. Textar af plötunni Tales of Us voru greinilega uppspretta myndanna, en þó nógu fjarri þeim til að ég eigi erfitt með að tengja þetta tvennt beint, eftirá. Eftir sitja myndir af tveim konum sem mætast á strönd, háu grasi sem bærist með vindinum, kynni kvennanna í sandinum sem færast frá því að vera kynferðisleg yfir í ofbeldi og enda með grafningu á ströndinni. Ég man eftir Goldfrapp í fallegum fötum að henda exi í sundlaug og ég man að ég veit ekki afhverju hún gerði það. Ég man eftir ungum strák sem finnur glitrandi kjól í nestispokanum sínum og dansar, geislar sólarinnar brotna í kjólnum og ég brosi eins breitt og hann. Ég brosi við myndum af leynistað hans sem geymir myndir af Bowie. Ég brosi yfir eigin minningum af því að renna höndunum yfir myndir af frægu fólki sem prýddu veggi mína sem barn. Ég man eftir að hugsa að nekt gerði ekki list góða í öðru broti þar sem ungt fólk hlaup nakið um náttúruna og ég man að ég sá enga tengingu við textann þar. Fann hvorki til losta né þeirrar gleði sem fegurð getur fært áhorfendum. Ég man eftir klippingu í takt við tónlist, en hef gleymt hver takturinn var.
Brotakenndur stíll Gunning var ekki ástæða þess að upplifun af myndinni var óvenjuleg. Í salnum sat nefnilega fólk og rembdist við að heyra hvort að tónlistin sem kvikmyndin féll svo fallega saman við, væri „live“, hvort að goðið sem ætti að hylla væri þarna einhversstaðar, bakvið tjaldið, bakvið hátalarana, um leið og það reyndi að njóta myndefnisins. Var að greina einhverja bresti í röddinni sem upptaka hefði hulið annars? Gat bandið raunverulega verið svona vel í takt við myndina án þess að þessu tvennu hefði verið skeytt saman fyrirfram? Það var örugglega hægt að gúgla þetta til að finna svar, en þá hefði maður rifið sig burt frá núinu. Og núið var spennandi af því að það var fullt af spurningum. Ólíkt öðrum kvikmyndum fjölluðu spurningarnar um viðveru einhvers, sem vitað var að væri ekki í sama rými, en var samt næstum áþreyfanleg, bakvið vírana. Leikarinn var ekki viðstaddur, frekar en í nokkurri annarri kvikmynd, samt hélt ég næstum niðri í mér andanum í þeirri von um að kvikmyndin gerðist „live“.
Og svo gerðist það. Hið fallega svarthvíta myndhaf breytti lit, fagurfræði tónlistarmyndbandsins var brotin þegar stjarnan steig út úr rammanum og inn í upptökuver, fullt af tónlistarmönnum sem vantaði færni til að þykjast vera leikarar. Loksins! Goðið var þarna eftir alltsaman, tilbúið til að tala við okkur. Nema hún heyrði ekki svörin. Áhorfendurnir sem hún kom fram fyrir voru þarna, við vorum þarna, en ekki þó. Hún vissi það. Við heyrðum að hún vissi það þar sem hún beið skilningsrík eftir klappi í þöglu upptökuverinu og horfði beint inn í linsuna sem skildi okkur að og færði okkur „saman“. Við sátum prúð í fallegu rauðu bólstruðu sætunum okkar í bíó, langt langt í burtu og klöppuðum fyrir konunni á skjánum og hljómsveit hennar. Þau heyrðu ekki klappið og finna mátti lítinn kjánahroll leggja upp hryggjarliði áhorfenda, óvissir um hvað skildi gera í þessum undarlegu aðstæðum. En við vorum prúð og góð. Létum eins og við værum í bíó, engir símar, engin samtöl. En samt klöppuðum við eftir hvert lag fyrir stjörnunni sem vissi af okkur, talaði við okkur, fékk okkur til að langa til að dansa en var ekki hér. Við vorum ein, saman og pössuðum að ekkert okkar bryti gegn hegðunarmynstri bíófarans, um leið og við sýndum Goldfrapp þá virðingu að klappa fyrir henni. Hún átti það alveg skilið. Hún var að syngja bara fyrir okkur. „Live“ meira að segja.
Um tónleikana sjálfa má segja margt fallegt. Lagavalið var yndislegt og spannaði það helsta í feril hennar. Hún talaði um að Ísland hefði gefið sér innblástur sem er alltaf gaman að heyra, sama hversu langt frá ættjörðinni maður situr. Hlutir fóru úrskeiðis nægilega oft til að fara ekki í taugarnar á neinum en fullvissa okkur í salnum um að þetta væri ekki upptaka, við værum að upplifa allt eins og það gerðist. Framsetningin var falleg, nægilega mikið af myndrænum töfrum til að þröngt sjónarhorn vélarinnar héldi okkur uppteknum. Goldfrapp sjálf var óaðfinnanleg, klædd hvítum jakkafötum eins og myndin af Bowie sem við sáum í kvikmyndinni áður. Þetta var útpælt. Ég minnist atburðarins eins og myndavélinni hafi verið beint að mér, ég sit þarna opinminnt og með hverja taug þanda til að heyra hvern einasta tón, eins og einhver í auglýsingu sem á að sína hvað upplifun í bíósal getur verið sterk, hvað innlifunin getur verið mikil. Meðvituð um allt sem gengur á í salnum en einnig svo hrikalega meðvituð um eigin meðvitund. Ekki ólíkt Goldfrapp sem vissi hvar myndavélarnar voru og hvar hún gat stigið út úr rammanum og verið næstum því „alvöru.“
Þetta voru ekki tónleikar í þeim skilningi sem ég hef vanalega lagt í það orð. Ég deildi ekki rými með tónlistarmönnunum, bara tíma. Rýmið sem við vorum í var fullt af þeim, en við vorum hvergi í þeirra rými. Engar myndavélar sýndu þeim okkur. Þau voru ein, ósnertanleg. Sviti þeirra myndi aldrei fylla vit okkar. Loftið sem fyllti lungu þeirra var fjarlægt því súrefni sem mettaði blóðkorn okkar. Við vorum öll í núinu, en núið var ekki hér. Augu Goldfrapp voru meter á lengd hvort, en þau sáu mig ekki.
Vissulega hef ég verið á tónlistarhátíðum þar sem upplifun mín einkenndist af því að horfa á upptöku af því sem var á sviðinu fyrir framan mig. Nærskotum af fingrum sem ég sá aðeins glytta í, einhversskonar DVD útgáfu af atburðinum sem enn átti sér stað. En ég var samt á staðnum, sama stað og fólkið á skjánum. Ef ég hefði tekið upp byssu og skotið að sviðinu hefðu tónlistarmennirnir þurft að bregðast við. Í rauntíma. Það hefði sést á skjánum, en líka á sviðinu. „Live“ og live.
Upplifunin af Tales of Us, Live from Air Studios var samt ekki slæm. Ég var búin að sætta mig við fjarlægðina á milli mín og Alison áður en ég settist, fjarlægð sem ekkert festival hefði boðið áhorfendum sínum en ég kannaðist svo vel við af hvíta tjandinu. Ég gat notið þess sem þetta samansafn af listamönnum hafði að bjóða og sem bíóferð var þetta mjög eftirminnilegt kvöld. Hefði ekki verið eins á DVD eða í sjónvarpinu, en hefði ekki verið eins á risaskjá á Roskilde heldur. Í mínum huga á ég ennþá eftir að fara á tónleika með Goldfrapp.
Það má kalla hlutina „live“ en ef miðillinn er boðskapurinn (the medium is the message) er boðskapurinn skýr: Það er tjald á milli okkar og mikið er það öruggt og þægilegt. Nú sýni ég þér það sem ég vil að þú sjáir. Svo má spyrja sig hvort að við séum ennþá fær um að upplifa hlutina í nútíð. Hvort að við sjáum nokkuð sem einhver annar hefur ekki ákveðið að við eigum að sjá. Ég gat ekki beðið eftir að orða núið eftirá og deila því á Facebook. Miðla miðluninni (út í hið óendanlega).