Airwavesdagbók: Föstudagur

Ég stíg út úr leigubílnum og hurðinni feykir upp um leið. Bílstjórinn hefur skilið mig eftir fyrir utan ranga blokk í Túnunum undir því yfirskyni að hann vilji ekki að ég labbi of mikið í þessu roki. Í mínum huga hefði þá verið betra að hlusta þegar ég sagði honum hvar ætti að stoppa þó þar væri ekki innkeyrsla. Bölvandi í sand og ösku staulast ég í átt að réttri blokk.

Spagettí Carbonara með vinum við kertaljós og svo franskt núgat í eftirrétt bætir upp fyrir að hafa sveiflast um í þessu rokrassgati fyrr. Við hlustum á Önnu Calvi og förum yfir dagskrá kvöldsins. Húsfrúin er nýkomin frá lækni og hefur parkódín sér til deyfingar meðan við hin höfum sætar dökkar þrúgur til að gleyma bólgnum fótum. Hún grípur bíllyklana. Við erum að verða of sein á Kaleo í Hörpu.

Kaleo sem er svo ekkert að spila. Hefðum getað vitað það ef við hefðum lesið fréttirnar á vefsíðu Airwaves en bjuggumst við að eitthvað væri að fengjum við „push notifications“ – nógu djöfull mikið er af þeim fyrir. Benny Crespo’s Gang er að taka settið sem ég sá á miðvikudaginn og Kira Kira er virkilega flott á að líta en aðeins of súr fyrir fólk nýkomið úr matarboði. „There’s not enough drugs in the world for me to enjoy that“, segir vinkona mín og þó ég sé viss um að svo sé raunverulega ekki er ég sammála að eiturlyfja væri þörf. Við hlömmum okkur á gólfið og bíðum átekta. Miðað við hvað Harpa er dýr var til of mikils mælst að biðja um nokkra stóla?

Það eru fáir jafn vel til þess fallnir að bjarga partýinu og Mugison. Aðdáendur hafa flykkst að til að sjá þennan fastagest, enda hefur hann aldrei brugðist gestum áður og ætlar ekki að byrja núna. Sjarmatröllið að vestan byrjar með krafti og af viðtökum áhorfenda að dæma eru heimamenn í meirihluta í salnum. „BABABARABABABABABARARA!!“ Héðan í frá hefur hann okkur í hendi sér, fær okkur til að slamma, þykjast þungarokkarar og urra „Ég er blóð“, bráðna yfir dúett með konunni og heimta fyrir hana og aðra tónlistarkennara hærri laun, hlæja með hljómsveitinni að andlitsgrettum trommarans og gleyma hljóðrituðum útgáfum af lögunum því live útgáfurnar eru miklu þéttari og kraftmeiri. „Best concert of the festival so far“, segir Frakkinn í hópnum og hefur rétt fyrir sér.

Næst á svið er Anna Calvi og eins og með Mugison er ljóst frá fyrsta tón að hún er þúsund sinnum betri á tónleikum en í upptökuveri. Án þess að tala mikið við áhorfendur tekst henni að heilla þá upp úr skónum. Mennirnir sem standa fyrir aftan mig geta ekki orða bundist. Við enda hvers lags stynja þeir upp nýju hóli handa þokkadísinni. „Þú sérð það vel að þetta er einn af hápunktum hátíðarinnar.“ „Já, hún kann þetta stelpan!“ Það sem kemur mér mest á óvart er ekki hve breitt tónsvið hennar er eða hve góðar lagasmíðarnar. „Hin nýja PJ Harvey“ er ekkert slor og það vissi ég fyrir. Að hún er viðbjóðslega fær á gítar vissi ég hinsvegar ekki, alveg þannig að hugurinn leitar til Jimi Hendrix. Þegar hún tekur Fire eftir Bruce Springsteen eru ekki þurrar nærbuxur í húsinu, þvílíkur þokki hefur ekki sést á Airwaves síðan The Kills ollu kynórum á Nasa forðum daga. Þegar tónleikunum lýkur lýsir vinkona mín yfir að þetta hafi verið með betri tónleikum síðari ára og hefur hún séð þá þónokkra. Eina sem kemst að í huga mér er „Ég er farin heim. Þetta verður ekki toppað.“ Þannig að ég fer bara, fullkomlega sátt.