Aflausnarseiður eftir Emil Hjörvar Petersen

 

Samviskan rauðglóandi
gegn samvistun kuldagadds
og gildi höfuðstóla
nær hámarki við suðumark.

Kýldar voru sællífis vambir
kýldir voru rakir kjálkar
allar vertíðir
allan ársins hring.

Höggin fannst okkur gjarnan þægileg
því við þrifumst í gufunni
úr þeim suðupotti
sem við kölluðum tilvist.

En nú, í soðningu úthverfa
sýna veggjakrotin
handan suðumarks:

Aðeins dynjandi trumbur og bassar
sundraðra sjálfsvera í frumskógum
geta fært gráan hversdagsleikann
á það stig að hægt sé að berjast
gegn hnefum haustins
eða, í raun, allra meinlegu lýrísku árstíðanna.

Hver mánuður er jafn grimmur
í græðslu sinni á græðgi
andsamfélagslegri tilfinningu
sem stendur í vegi eins og heimskur sauður
með afkvæmi sín, börn sem verða óumflýjanlega étin;
slátrað af vinnandi höndum
sem slá að lokum frá sér, kýla sviðakjammana svo fast
að allt þetta tilbúna viðskiptavit
mun frussast sem fallin línurit
út úr svitaholum sléttra og vel rakaðra vanga.

Dynurinn verður endurtekinn
þar til aflausnin fæst.