Í þessu verki Ai Weiweis hefur hann tekið nokkra tvö þúsund ára gamla kínverska vasa og sprautað þá með bílalakki samkvæmt litapalettum bílafyrirtækja.

Æ! Vei! Vei!

– leyndardómurinn um Ai Weiwei og dularfullu vasana

Þann 3. apríl síðastliðinn opnaði yfirlitssýning á verkum kínverska andófsmannsins og listamannsins Ai Weiwei í Martin-Gropius-Bau í Berlín og stendur hún til 7. júlí næstkomandi. Í kynningartexta fyrir sýninguna, á heimasíðu Berliner Festspiele, segir meðal annars: „Þrátt fyrir alla þá ótrúlegu óvild sem honum hefur verið sýnd í heimalandi sínu ákvað Ai Weiwei að setja upp sína stærstu einsmanns sýningu í Martin-Gropius-Bau í Berlín. Sýningin nær yfir 3.000 fermetra í 18 herbergjum og í hinum stórfenglega Lichthof-sal mun hann sýna verk og innsetningar sem hafa annað hvort verið hannaðar fyrir Martin-Gropius-Bau eða aldrei áður sýndar í Þýskalandi.

Nafnið sem hann gefur sýninginunni er „Evidence“ – „Sönnunargagn“ – hugtak sem þekkist langt út fyrir hinn enskumælandi heim úr bandarískum glæpaþáttum í merkingunni sönnun sem stenst fyrir rétti. Þetta er pólitísk sýning sem Ai Weiwei hefur hannað fyrir Berlín í fábrotnu en rúmgóðu stúdíó sinu í strjálbýlum útkanti Pekingborgar.

Starafugl var með fólk á svæðinu – Haukur Már Helgason og Eiríkur Örn Norðdahl fóru á sýninguna og urðu upprifnir af einu verkanna, þótt mörg væru góð en sýningin í heild kannski í það sjálfhverfasta.

EÖN: Ai Weiwei tekur sem sagt handfylli af vösum frá Han-tímabilinu (206 fyrir Krist til 220 anno domini) og lakkar þá með skínandi bílalakki. Á berlinartlink skrifar rýnir að hér sé Wei Wei „dálítið“ írónískur – en er það ekki full vægt til orða tekið? Er þetta ekki yfirgengilega írónískt, jafnvel svo að jaðrar við einhvers konar menningarofbeldi?

HMH: Vissirðu að í febrúar braut safngestur í Flórída einn vasa frá Ai Wei Wei? Ég hélt að hann hefði verið hluti af þessari seríu, en sé núna að svo var ekki. Vasarnir í Flórída voru málaðir í björtum litum og já, eiginlega einlægir og blátt áfram við hliðina á þessum hér. Maðurínn í Flórída, sem er í fréttum sagður listamaður eða málari, var kærður fyrir skemmdarverkið. En ég er að víkja mér undan efninu. Tilfellið er að mig langar að byrja á stórum yfirlýsingum. Að mér finnst bílalökkuðu vasarnir magnað verk. Að þeir kveikja í mér geðshræringu. Og það var áður en ég vissi að þeir væru jafn gamlir og Jesús.

EÖN: Já. Ég var búinn að sjá þetta. Hann hafði líka sjálfur brotið annan vasa.

Það er áhugavert að eldri vasarnir eru ódýrt kits á meðan bílalökkuðu vasarnir eru dýrt kits – eldri vasarnir herma eftir ódýrum hlutum en nýrri vasarnir herma eftir dýrum hlutum. Dýrum bílum. Og ég er augljóslega sammála þér um að þeir séu magnaðir – þeir afhjúpa einhvern yfirborðsleika í samtímanum og tilbúnar, mjög materíalískar hugmyndir um menningararf og virði vasa og bíla og lakks og hugverka og handverks. Mér dettur jafnvel í hug að hugsa um verkið sem krítík á listaverk sem fýsíska hluti í heimi sem offramleiðir hluti, og einmitt ekki síst listaverk: bæði tónlistar- og bókmenntamenn stunda mjög ákafan og þróttmikinn lífróður fyrir hönd „hins fýsíska hlutar“ – þ.e.a.s. plötunnar og bókarinnar – á tímum sem krefjast þess alls ekki að hver plata og hver bók verði fýsískur hlutur. Þótt mér finnist ólíklegt að fetisjistinn Weiwei hafi ætlað sér þangað.

En á sama tíma sýna vasarnir líka hversu mikið vald ríkur maður með hátt menningarkapítal getur tekið sér – maður sem er líklega með allt kínverska ríkið upp á móti sér (án þess að ég skilji þá pólitík alveg, sem allt í senn leyfir honum og bannar og styrkir og fangelsar). Það er eitthvað magnað þarna og fallegt – en mér liggur við að segja að það sé eitthvað siðlaust í þessu líka.

weiweitriptych

HMH: Ég nota líklega hugtakið montage þegar ég stend frammi fyrir verki sem er svona einfaldur samsláttur tveggja hluta: þú klippir mynd við mynd og af þeim fæðist eitthvað annað. Hugtak, sagði Eisenstein. En stundum tala myndirnar saman um svo margt í einu að það verður hæpið að kalla það hugtak. Venslin á milli myndanna/fyrirbæranna hér eru fjölmörg og ekki afdráttarlaus um hvað hefur forgang. Krítíkin sem þú nefnir er tæk. En ég sé líka mildari dóm, jafnvel engan dóm, einhverja kátínu: staðhæfingu um að bíll og vasi séu sami hluturinn. Báðir eru til orðnir vegna notagildis. En með fegrun fer verðmæti beggja langt fram úr notagildinu og þeir verða stöðutákn. Raunar svo sterkt stöðutákn að segja má heilagir: viðbrögðin við því að maður rispi annars óskaddaðan bíl eru eins og framin hafi verið helgispjöll. Uppreisnargjarn eða reiður unglingur sem gengur um og lyklar bíla er meðvitaður um það. Viðbrögðin þegar vasi var brotinn í Flórída voru líka eins og framin hefðu verið helgispjöll. Þriðji helgigripurinn er auðvitað listaverkið sjálft – og líklega bara í krafti þess sem Ai kemst upp með að „eyðileggja“ upphaflegu vasana. Ef við lesum okkur áfram í þá átt gerir Ai Wei Wei, kannski tongue-in-cheek, hér tilkall til að listin ryðji öllum öðrum heilagleik/blæti úr vegi. Eins og guðinn sem heimtar að vera þinn eini.

EÖN: Mér varð fyrst hugsað til handritanna og þess að Íslendingar bæði átu Íslendingasögur og gerðu úr þeim skó og notuðu í önnur klæði. Þar er að vísu farin öfug ferð, listaverk með lítið notagildi er gert nothæft í sínu félagslega samhengi. Bækur höfðu ekkert gildi; matur og skór höfðu gildi. Og ég stend á því fastar en fótunum, hvað sem líður gildi menningar, að þá segirðu ekki foreldri með sveltandi börn að eitthvað fornyrðislag sé merkingarbærara en lífið.

En þarna gerast samt þessi helgispjöll þótt þau verði ekki ljós (eða einu sinni til) fyrren Árni Magnússon fer að safna þeim saman. Og skömmin í dag. Að hugsanlega hafi búralegir forfeður mínir étið hin fegurstu ljóð, uppljómandi sagnfræði og vísindi, tortímt síðustu leifunum af einhverju sem mér finnst að þeir hefðu átt að sjá að væri ótrúlega mikilvægt. Mikilvægara en lífið.

Kollarnir hans Ai Weiweis.

Kollarnir hans Ai Weiweis.

Og kannski kom sú hugsun upp í hugann strax þegar ég kom inn á safnið og sá kollana sex hundruð – þar sem sá elsti var samt ríflega einni og hálfri öld yngri en vasarnir. Og fór að velta fyrir mér upprunanum. Ekki bara bóndanum sem bjó til stólinn heldur eigendunum alla tíð síðan og þeim sem seldu Weiwei sína kolla, sína vasa. Ef ég horfi framhjá túlkun á listaverkinu sem slíku þá stendur samt eftir eitthvert óbragð af viðskiptunum – tilfærslunni – sem ég á erfitt með að sleppa hendinni af. Einhver auðjöfra-dekadens. Og mér þykir óþægilegt að setja mig í svo móralska stöðu og veit ekki nákvæmlega hvers vegna ég geri það. Ég gerði það ekki í tilfelli Fallegustu bókar í heimi, sem var að vísu ekki forngripur en samt takmörkuð gæði. Annars er ótækt af mér að segjast með þessu „horfa framhjá túlkun á listaverkinu“ – viðskiptin á bakvið þau eru hluti af verkinu.

Að ofan: Flora Islandica eftir Eggert Pétursson.  Að neðan: Fallegasta bók í heimi eftir Hannes Lárusson, Tinnu Grétarsdóttur og Ásmund Ásmundsson.

Að ofan: Flora Islandica eftir Eggert Pétursson.
Að neðan: Fallegasta bók í heimi eftir Hannes Lárusson, Tinnu Grétarsdóttur og Ásmund Ásmundsson.

HMH: Ég er sammála að verkið er óþægilegt. Ég ætla að halda mig frá kollunum – sem voru sex þúsund, held ég – og við vasana. Geðshræringin yfir verkinu liggur, fyrir mér, meðal annars í einhverri svona runu: Má þetta? Þetta má ekki! Er þetta hægt? Er þetta plat? Þetta getur ekki verið hérna. Þetta er samt hérna! – vegna þess, einmitt, að það þarf verulegt vald til að vega á móti því valdi sem segir að þetta megi ekki. Kannski duga peningar, kannski er það allt og sumt. En hvers konar vald sem það er þá streyma valdaátökin frá vösunum, eins og uppspennt jafnvægisástand.

Líklega má segja það sama um Fallegustu bók í heimi: það er eins gott að einhverjum finnist verkið óþægilegt, eins gott að það hafi snert einhvern sem helgispjöll, sem þýðir aftur á móti ekki að það eigi að vera hægt að stöðva það. Þó er auðvitað sá munur að það er hægt að framleiða fleiri kópíur af því upprunaverki, en vösum frá fyrstu öldunum fyrir og eftir Krists burð fjölgar ekki úr þessu. Það er: með Fallegustu bók í heimi var aðeins ráðist á mynd. Hluturinn sjálfur, íslensk náttúra, stóð eftir ósködduð, þó að myndspjöllin kæmu við kauninn á fólki. Í tilfelli vasanna er myndin hluturinn sjálfur. Valin svæði í Þjórsáverum bílalökkuð. Eða kannski Hornstrandir. Þannig eru vasarnir hans Ai skyldir „lagfæringum“ Chapman bræðra á koparristum eftir Goya fyrir tíu árum síðan, þar sem þeir máluðu Mikka Mús og Ronald McDonald inn í stríðssenurnar.

EÖN: Flora Islandica er auðvitað á þessu skrítna myndlistarfjöldaframleiðslusvæði, þar hermt er eftir takmörkuðum gæðum, kannski einmitt í leit að forngripasnobbi. Það eru prentuð 500 eintök af Flora Islandica – hvað ætli séu til margar Stradivarius fiðlur í heiminum? Ef ég prenta ljóðasafnið mitt í jafn mörgum eintökum verður það þá jafn verðmætt … ? Hvað ætli séu til margir Han-vasar? Ebay segir mér að þeir kosti á bilinu 19 til 4.000 dollara, svo sjálfsagt eru þeir margir. En hvað ætli þeir séu margir miðað við höfðatölu Kínverja – ætli þeir séu þá fleiri eða færri en íslensk skinnhandrit miðað við höfðatölu Íslendinga? Og svo er bara ein „Fallegasta bók í heimi“. Er hún þá 500 sinnum verðmætari en Flora Islandica?

Hvað heitir hann aftur maðurinn sem skrifaði orðin á íslenska náttúru – og Hlynur Hallsson afhjúpaði … augnablik, gúgla

bismarck2

Mosi Bismarcks. Mynd: Akureyri Vikublað.

Já, Julius von Bismarck. Þetta líka yfirgangssama nafn. Ég veit ekki hvort þetta voru óafturkræf spjöll, hugsanlega mátti hann líka gjalda þess að koma inn á landsvæði þar sem var verið að há stríð fyrir. Kom og krotaði á mosa í landi sem kunni bara að bregðast við Kárahnjúkum. En merkingin var líka takmörkuð – það var enginn slagkraftur í þessu. Eða kannski finnst mér það bara vegna þess að ég er svo lítill náttúrukall „frá náttúrunnar hendi“. Og kannski hefur þetta meira með almennan tolerans fyrir raski að gera. Mér finnst ekkert að háhýsum, jafnt þótt þau skyggi á fjöll. Eða þannig. Og upplifði ekki næg helgispjöll í þessu kroti. Ekki nægt rask.

HMH: Skil þig. Og sá einmitt að hann taldi það sér til varnar einhvers staðar – að enginn tæki eftir þessu nema mannfólk, það hefði engin áhrif á fuglalíf, dýralíf eða náttúruna sjálfa að öðru leyti.

EÖN: Kannski krefst svona skemmandi verk – transgressíft – að það sé þess virði. Það verður að hitta í mark. Og ég veit ekki einu sinni hvort ég upplifi sama slagkraft í hinum vasaverkum Weiweis – það er eitthvað sérstaklega íkonískt við þetta bílalakk, einhver tiltekinn glæsileiki sem slær mann. Einsog að fá Rolls Royce í andlitið. Þú nefndir einmitt þarna á göngunni heim að það væri erfitt að birta bíla í myndlist – að þarna væri kannski loksins kominn fyrsti bíllinn … rosalegur bíll.

hanvasi

Rosalegasti bíll myndlistarsögunnar.

HMH: Jean-Luc Godard sagði einhvern tíma að eina manneskjan sem hefði tekist að mynda bíl væri sambýlis- og samstarfskona hans, Anne-Marie Mieville. Vandinn við að mynda bíl er að bílar eru myndir, eru sviðsetning á sjálfum sér. Jafnvel gamlir bílar eru myndfrekir. Enda hef ég aldrei séð bíla sem viðfangsefni á myndlistarsýningu. Þangað til nú. Eitt af því sem Ai tekst með þessu verki er að gera mynd af bíl. Mynd sem á sig sjálf, er ekki undirgefin bílahönnuðunum.

Reyndar fannst mér banalitetið í áletrunum Bismarcks eitthvað spennandi. Þessi klifun. Hugsanlega hefði annar þekktari listamaður heldur komist upp með slíkt verk. En þekktari listamaður hefði líka kannski farið aðra leið, keypt sér aðgang að hrauninu eða samið við landeigendur sem þætti þá vegsemd af áhuganum og svo framvegis.

EÖN: Talandi um náttúruna – sjálfsafstöðuna. Hvar standa kínversk stjórnvöld gagnvart svona gjörningum? Ætli þau séu ekki frekar ligeglad?

HMH: Eru þau ekki alltaf hress? Mig grunar … en er þá bara að spekúlera … að það geti snúist meira um að hafa rétt leyfi en efnislega afstöðu til þess sem gert er. Ég var að horfa á viðtal við Þorgeir Þorgeirson. Vissirðu að það verða bráðum 20 ár frá því að tjáningarfrelsi var fært í lög á Íslandi? Fram til 1995 var bannað að segja satt um embættismenn, til dæmis lögreglumenn, væri það gert „ótilhlýðilega“. Með tíu ára baráttu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu fékk Þorgeir þessu breytt. Hann flutti síðan erindi sem hann kallaði hnefaréttur og tjáningarfrelsi. Mér varð hugsað til þess í þessu samtali vegna þess að hér virðumst við hafa til umræðu tjáningarfrelsi sem hnefarétt. Í það minnsta að einhverju leyti: að það er í krafti kapítals, peninga eða menningarkapítals, sem Ai Wei Wei kemst upp með vasaverkið og sem önnur skyld verk vinna eða tapa í einhvers konar hnefaleikahring.

Ekki þar með sagt að gæði verksins skipti ekki máli. Gæðin eru hnefi eða upphandleggsvöðvi. Og já, nýju vasarnir eru miklu höggþyngri en Flórída-vasarnir.

EÖN: Ég er a.m.k. ekki viss um að kínversk stjórnvöld notist mikið við hugtak einsog menningarverðmæti. Nema einmitt að því leyti sem má verðleggja þau (19 dollarar á ebay).