89: Dusty in Memphis með Dusty Springfield

Dusty er fyrsta konan á topp 100 listanum. Fyrstu línurnar í fyrsta laginu eru því eðli málsins samkvæmt daðrandi: „Just a little lovin’ / early in the mornin’ / beats a cup of coffee / for startin’ off the day“ (raunar voru það vel að merkja hjón sem sömdu lagið og líklega ósanngjörn einföldun að popp kvenna snúist bara um daður). Mér sýnist svona fljótt á litið annars að konur eigi um 10% af listanum – og sýnir hvernig kúgun þeirra er önnur en t.d. svartra eða verkalýðs (mikið af hvítu tónlistarmönnunum eru óttalegur rumpulýður, þótt það sé misjafnt). Hvítar milli- og efristéttarstelpur áttu að vera postulínspuntudúkkur – viljalaust skraut – og því í sjálfu sér umtalsverð transgressjón í því fólgin að Dusty hefji fyrsta lagið á því svo til bókstaflega að segja að sér finnist gott að ríða áður en hún fer á fætur. Það er alveg svona Princeísk gredda.

„Son of a Preacher Man“ er fáránlega flott lag og textinn áhugaverður samruni hins trúarlega og hins erótíska – ekki vegna þess að það renni ekki iðulega saman, alveg frá því í ljóðaljóðunum og líklega um alla tíð, heldur vegna þess hvað það er hversdagslegt og óupphafið. Þessi hversdagslega trúarerótík á sér síðan samsvörun í prúðu, hömdu og afslöppuðu fönk/köntrígrúvinu. Og kannski er það samspil gegnumgangandi á plötunni. Dusty ku hafa viljað gera gamaldags soulplötu og hafa sýnt fádæma metnað og fullkomnunaráráttu við upptökur – og það fyrsta sem vill tapast þegar maður er að vanda sig of mikið er sálin, allar nibburnar og ólöguleikarnir sem gera okkur hvert og eitt „einstakt einsog snjókornin“, eitt verður öðru líkt og generískt, almennt, óáhugavert. En Dusty bjargar sér á persónuleikanum, einstakri röddinni, úr hít ofpródúksjónar.

Upptakan hér að ofan er vel að merkja úr sjónvarpi en ekki af plötunni – bara eilítið hrárri, ennþá frekar passasöm (undarlegt að heyra þetta kunnuglega likk í byrjuninni spilað svona hægt, einsog plötuspilarinn manns sé bilaður – sýra, nostalgía). En dansmúvin og hárgreiðslan bæta margfalt upp alla prúðmennsku.

Hér er sama lag tíu árum síðar og Dusty orðin dálítið agressífari:

Röddin hennar – á Dusty in Memphis, og raunar fyrr og síðar – er samt geðveik. Og gítarsándið á plötunni æðislegt. Bestu lögin – „Just a little lovin’“, „Son of a Preacher Man“ og „Breakfast in Bed“ – eru fullkomlega dásamleg, þótt það hefði mín vegna mátt skrúfa aðeins niður í Bacharachinu.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Dusty in Memphis hlustaði hann á gangi frá Maritim hótelinu í Kiel niður í grasagarð borgarinnar.