88: At Folsom Prison með Johnny Cash

Ég syng ekki alltaf opinberlega en þegar ég syng opinberlega þá syng ég Folsom Prison Blues. Það var eiginlega bara einu sinni, með Hallvarði Ásgeirssyni – sem söng að mig minnir San Quentin – á minningartónleikum um Johnny Cash rétt eftir að hann dó 2003. Aðrir sem komu fram voru Megas og Súkkat, Kimono, Rúnar Júl, Trabant, Fræbblarnir, Heiða og Heiðingjarnir og einhverjir fleiri – líklega er Valur sem er nefndur þarna Valur Gunnarsson, ég er ekki viss, og á öðrum kann ég ekki skil. Og þótt ég hafi spilað á tónleikum oft – aðallega sem unglingur, aðallega djass og pönk – þá eru þetta eiginlega einu alvöru tónleikarnir sem ég hef sungið á. Ég spilaði 2-3svar með Varða á pöbbum en þá var aldrei neinn að hlusta, við böskuðum líka saman í Færeyjum og Noregi. Mig minnir að ég hafi líka sungið þetta lag á einhverjum viðburði með Hermanni Stefánssyni á Næsta bar. Líklega var fólk þar að hlusta. Svo það er þá tvisvar.

Þessi plata er einhvers konar sturlun. Hún er náttúrulega mjög óvenjulega góð – pottþétt lög og Johnny Cash allur sá fallegi maður sem hann gat verið. En hún er aðallega sturlaður gjörningur. Johnny Cash fer í fangelsi til þess að stappa stálinu í dæmda morðingja og nauðgara með því að syngja hálfgerða dýrðarsöngva um morðingja og nauðgara. Tekur herlegheitin upp og gefur út plötu sem gengur svo vel að hann endurtekur leikinn í San Quentin ári síðar.

Hann syngur: „I shot a man in Reno / just to watch him die“ og fangarnir húrra.

Hann syngur: „I can’t forget the day / I shot that bad bitch down“ og fangarnir húrra.

Hann syngur: „I spoke not a word, though it meant my life / for I’d been in the arms of my best friend’s wife“ og fangarnir húrra. Og Johnny spyr flissandi og vantrúa: Heyrði ég einhvern klappa? Því eitthvert siðferði hljóta meira að segja hinu mestu illmenni að aðhyllast.

Það er fegurð á þessari plötu sem ég er ekki viss um að þekkist lengur – fegurð sem ég er ekki viss um að viðgangist. Því Johnny sýnir ekki bara lýðnum samúð, hann skilur ekki bara aðstæður misyndismannanna, hann veit ekki bara að líf þeirra hafa verið erfið og það ætlar enginn að vera illmenni og eyða lífinu í fangelsi, hann gerir sér ekki bara grein fyrir lýðfræðilegum, félagsfræðilegum og heimspekilegum forsendum þess að svona er fyrir þeim komið – hann tekur upp hanskann fyrir þá án þess að afsaka þá og sýnir þeim skilyrðislausa samstöðu. Hann segir: Ég veit þið eruð vondir en þið eruð líka fallegir.

Ég man ekki hvenær ég heyrði síðast listamann – eða nokkurn annan – segja það. Að minnsta kosti ekki svona skýrt og greinilega. Kannski hefur það ekki verið gert frá því 1968.

Upphitunaratriðin á tónleikunum voru The Statler Brothers og Carl Perkins – sem er kynntur sérstaklega þannig að hann hafi samið mörg af þeim lögum sem komu Elvis á kortið. Með Johnny spiluðu einsog venjulega The Tennessee Three, sem voru trommuleikarinn W.S. Holland, bassaleikarinn Marshall Grant og gítarleikarinn Luther Perkins (um hvers dásamlega gítarleik Johnny samdi sérstakt lag). Luther, sem var ekkert skyldur Carl, dó hálfu ári eftir að platan var tekin upp – sofnaði út frá sígarettu. Þá tók Carl við keflinu sem fyrsti gítarleikari í The Tennessee Three og spilaði á At San Quentin. Mér vitanlega eru engin myndbönd til af tónleikunum í Folsom en tónleikarnir í San Quentin voru hins vegar kvikmyndaðir í bak og fyrir.

Fyrir Luther fáið þið svo eitt eldra myndband þar sem hann fer á kostum (fylgist með augunum í honum):

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. At Folsom Prison hlustaði hann á á skokki í kringum smábæinn Jonsered skammt austur af Gautaborg.