85: Born in the USA með Bruce Springsteen

Ég var svolítið hikandi gagnvart þessari plötu. Annars vegar fíla ég ímynd Bruce Springsteens – fíla verkalýðsfílinginn. Sérstaklega á glamúrtímum. Við megum alveg við meiri rifnum gallabuxum, smurolíuputtum og heimaklippingum. Bruce Springsteen er einfaldlega legit, representing, keeping it real einsog það hét hjá tónlistarmönnum í geira þar sem slíkt skipti einu sinni máli. Hins vegar hef ég bara ekki alveg verið nógu hrifinn af tónlistinni. Hún er rosalega amerísk. Og þótt þetta sé rock’n’roll þá eru kannski einhver köntríelement þarna sem ég kann ekki alveg að melta – þótt ég geti alveg torgað 2-3 Garth Brooks slögurum á góðum degi og haft gaman af, þá er það kannski ekki eitthvað sem ég ræð við heila plötu af.

Nú er frá því að segja (skemmtilegt frá því að segja!) að þetta prójekt mitt, að hlusta á 100 bestu plötur allra tíma skv. lista Rolling Stone tímaritsins frá 2003, er komið út í dálítið rugl. Ég næ ekki að skrifa jafn hratt og ég næ að hlusta. Hef ekki alltaf tíma þegar ég kem heim eftir hlaupin til að setjast niður og skrifa neitt. Þannig er ég í raun búinn að hlusta á plötur alveg upp í 71. sæti – en er hér og nú að skrifa um 85. sæti. Þessu hef ég mætt með því að spóla aðeins til baka stundum, hlusta aftur á plöturnar sem mér finnst ég þekkja minna (ég hef þó aðeins hikað á rólegri plötunum, þar sem ég er oftast að skokka meðan ég hlusta og þá er betra að hafa smá tempó).

Ég fór tvisvar út að skokka með Born in the USA í eyrunum. Í fyrra skiptið var ég, að mig minnir, annað hvort á eyjunni Biskops-Arnö eða í Västerås. Þá fannst mér þetta allt frekar miklum vandkvæðum bundið. Þannig eru textarnir mjög tragískir, þeir eru skrifaðir í samstöðu með smælingjum heimsins, en bundnir í fullkomlega ópróblematísk stuðlög. Það er ekkert í tónlistinni – með fáum undantekningum (aðallega Downbound train og I’m on Fire, sem eru líka súblím fyrir vikið) – sem tjáir þessa angist. Þannig finnst mér eiginlega að Springsteen geti sjálfum sér um kennt að repúblikanar – frægastur þeirra var Reagan – taki titillag plötunnar og spili það sem hollustuóð til Bandaríkja hinna kjörkuðu og frjálsu. Því þótt textinn – það er að segja erindin, ekki viðlagið – sé beinskeytt árás á pólitík þeirra þá er lagið (og viðlagið) stuðóður til Bandaríkja hinna kjörkuðu og frjálsu, og engum blöðum um það að fletta. Reagan heyrði ekki textann en hann heyrði tilfinningaregistrið – horfði framhjá bókstafnum beint inn í fegurðina.

Og mér fannst þetta einhvern veginn misheppnað fyrir vikið. Einhvers konar tákn um það hvernig listinni getur mistekist – hvernig stýrikerfið, sem í rock’n’roll er krafan um stemningu, getur afvopnað alla krítík. Svona einsog kapítalisminn gerir allt að sínu sem nokkur sér ástæðu til að fagna – og eignast þannig allan fögnuð og skilur ekkert eftir fyrir sovétkommúnistana nema göngumarsa.

Í seinna skiptið var ég jákvæðari. Þá var ég í rithöfundabýlinu í Jonsered. Kannski fannst mér einsog sjá mætti stuðið sem aðferð til þess að koma mikilvægum skilaboðum áleiðis – svona einsog The Daily Show 1 eða Last Week Tonight. En það sem skipti meira máli var að ég varð einfaldlega smám saman miklu hrifnari af þessari tónlist en ég hef verið áður. Alveg óvart. Og það skiptir auðvitað lykilmáli. Þetta var langur hlauparúntur upp brattar skógi vaxnar brekkur, það var sól og endorfínin alveg að sprengja mig – og þetta er rosalega mikil hetjutónlist til að hlaupa við. Og einhvers staðar þarna í rúsinu fékk ég einfaldlega Springsteen-bóluna og get ekki beðið eftir að hlusta á allar hinar plöturnar hans. Ég fyrirgef honum allt. Nema kannski Reagan.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Born in the USA hlustaði hann á á skokki sínu um Bokedalen skammt austur af Gautaborg, þegar það gekk ekkert að hlusta á Let it Be með Bítlunum (og líka á Biskops-Arnö eða í Västerås).

   [ + ]

1. Hýsill The Daily Show, Jon Stewart, er vel að merkja sturlaður Springsteen aðdáandi