Ég er auðmjúkur starfsmaður á plani lista, menningar og menntunar. Ég hef til margra ára verið partur af sérstöku vinnuumhverfi sem margt listafólk þekkir vel, harkhagkerfinu. Í tilefni af fyrsta maí ætla ég að skrifa um verkafólkið í þessu hagkerfi , harkverkafólkið.
Þetta umhverfi verkafólks er samsett úr allskonar giggum og er um margt afar ólíkt því hefðbundna starfsumhverfi sem við flest þekkjum. Harkverkafólkið rekur sig harkalega á þegar það sækir um í opinbera sjóði. T.d. er fæðingarorlofssjóður langt í frá sniðinn að sveigjanlegu starfsumhverfi listafólks og annarra sem eru sjálfstætt starfandi. Flest erum við með breytilegt vinnuálag yfir árið og tekjur langt í frá að vera reglubundnar milli mánaða. Stundum keyrir allt í kaf í 200% vinnu og stundum er man á útopnu að leita að verkefnum og stundum er allt í bland, fast starf og sjálfstætt starf. Útkoman er sú að oft ber harkverkafólk skarðan hlut frá borði þegar kemur að ákvörðun réttinda úr sjóðum eins og fæðingarorlofssjóði og nýtur ekki réttinda sem fólk með föst störf og 8 tíma vinnudag á sama vinnustað allt árið nýtur. Biddu fyrir þér að vera giggari og fara í greiðslumat því samkvæmt útreikningum og kröfum í því kerfi ættir þú ekki að vera á lífi.
Oft eru giggin tímabundin verkefni hjá liststofnunum, menntastofnunum og ýmsum aðilum. Hjá menntastofnunum er harkverkafólk oft stundakennarar og kenna tímabundið á námskeiðum. Margar menntastofnanir á háskólastigi treysta á þessa starfskrafta enda um að ræða sérfræðinga og eftirsótta starfskrafta þó starfsumgjörðin endurspegli það ekki. Óöryggið er talsvert því námskeið og önnur gigg falla niður með stuttum fyrirvara og allskyns óvissuþættir eins og heimsfaraldrar valda verkefna- og tekjumissi með engum eða stuttum fyrirvara. Veruleikinn sem blasir við mörgu harkverkafólki núna þar sem mörg gigg hafa horfið er ansi napur.
Þá nýtur harkverkafólk ekki þeirra réttinda sem margar stéttir hafa barist fyrir og öðlast. Það fær ekki launað sumar-, jóla-, páska- eða vetrarfrí eða annan slíkan lúxus sem er auðvitað ekki lúxus heldur beisikk réttindi. Þetta er auðvitað hagkvæmara fyrir fjársveltar stofnanir sem fá með þessum hætti rjúkandi hæft starfsfólk með minni tilkostnaði en ef um fastráðningu væri að ræða. Harkverkafólkið ræður sig til annarra starfa í fríum eða býr við tímabundið tekjuleysi. (Halló ríkisstjórn auka stuðning við fjársveltar list- og listmenntastofnanir!!! )
Stytting vinnuvikunnar er mikilvægt framfaraskref en hefur lítið að segja fyrir fólkið í harkinu. Lífeyrisréttindi listafólks í lausamennsku eru svo ekki beysin og hjá mörgum erfið staða þegar fólk eldist eða eitthvað kemur uppá. Allt þetta skiptir man ekki svo miklu máli fyrr en það fer að skipta man máli. Stundum tengist það hækkandi lífaldri og auknum skuldbindingum eins og afkvæmum og húsnæði eða álíka hversdagslegum atriðum sem eru nú samt svo fjári mikilvæg.
Ég hef kynnst því að fá vel borgað fyrir vinnuna mína og ég hef kynnst því að fá verr borgað fyrir vinnuna mína. Ég hef líka unnið allskonar án þess að fá borgað. Í seinni tíð er ég mjög meðvituð um að velja vel þau verkefni sem ég vinn í sjálfboðavinnu. Þegar ég fékk í fyrsta sinn vel borgað fyrir vinnuna mína þá fékk ég samviskubit en áttaði mig svo á skekkjunni í hausnum á mér, ég bara þekkti ekkert annað.
Þannig að um hvað er ég eiginlega að skrifa. Ég er að skrifa um að við þurfum að borga listafólki laun fyrir vinnuna sína alls staðar þar sem hún er unnin og tryggja réttindi listafólks og annars samverkafólks þess í harkinu. Listin skapar sig ekki sjálf og listafólk er lykilfólk í ýmsum hlutverkum í samfélaginu. Listamannalaun eru laun fyrir störf sem skapa menningu okkar og samfélag. Þau þurfa að vera mannsæmandi og sanngjörn. Störf listafólks í listum og öðrum tengdum störfum þurfa að sama skapi að vera metin, vel borguð og skapa fólki réttindi.
Það er ekki bara eitt norm þegar kemur að vinnufyrirkomulagi. Í nútímanum þá er giggheimurinn veruleiki margra og verður veruleiki sífellt fleira fólks sem er með ólíkan bakgrunn, ólíka menntun og reynslu
„Starf“ getur verið samsett úr verkefnum og giggum. Eitt starf = mörg gigg á ólíkum stöðum. Það ætti að tryggja sömu réttindi og starf á sama vinnustað í sama gigginu. Harkverkafólk passar ekki almennilega inn í kerfin núna, hvort sem það eru sjóðir eða stéttarfélög. Við þurfum því að breyta kerfunum og kössunum. Harkið er nefnilega skapandi og sveigjanlegt það gefur færi á flæði á milli starfa, geira, stofnana og í nútímanum þá er það déskoti mikilvægur eiginleiki.
Stöndum saman, hvort sem við erum í hvort sem við erum í föstu starfi, harki, í atvinnuleit eða öryrkjar. Lifi sköpun og sveigjanleiki. Höfnum því að fátækt og misskipting líðist í samfélaginu og krefjumst jöfnuðar.
Ein/einn/eitt fyrir allar/alla/öll og allar/allir/öll fyrir eina/einn/eitt.