Tveir textar úr prósa-skáldsögunni: Pabbi minn, spámaðurinn

Draumarnir raungerast sem tölur í heimabankanum. Gufa upp í sjálfsefanum.
Og óhjákvæmilega kemur kannski sá tími þegar sjálfsvíg er eina ólæsta hurðin út úr brennandi húsi.
Úr þvottavél fullri af rakvélarblöðum og salti
í lungnamjúkan faðm myrkursins.
Teningunum kastað aftur.
Kannski ertu heppinn
og fæðist í betra póstnúmeri næst.
Ef ekki þá má náttúrulega alltaf drepa sig aftur.
Og aftur.
Dag eftir dag.

°°°

Ef uppáhalds maturinn er ekki til þá bara það næstbesta og í kvöld ætla ég sko að fara fyrr að sofa. Held ég hafi aldrei verið svona þreyttur.

Dag eftir dag
brjóta prinsippin
fullkomnlega
lofa að standa við þau næst.

Hafnaðar umsóknir. Slitnar skóreimar. Pýramídi af tómum klósettpappírrúllum. Hafnanir frá forlögum. Óyfirstíganlegur hlandfnykurinn. Fljúgandi fjarstýringar.

Dag eftir dag eftir dag
sakna ég kreppunnar.
Segi bara fínt hvað ég er að gera þessa dagana jú fínt að frétta bara en af ykkur.

Man ekki hvað þú heitir. Man ekki. Búinn að týna nokkrum árum. Púff. Nokkurþúsundagar. Horfnir. Púff. Engar einfaldar lausnir. Kostar tíuþúsundkall að losna við lungnabólgu.

Beinin mín þrá að fá sverðin þín inn í sig. Mínus fimmtán í int og þrátt fyrir allar lausnirnar er ég enn mjög lasinn.

Verður að pönkast í einhverjum öðrum, því miður, ég er ekki til.

Dag eftir dag aftur
á geðlyfjum og bótum að berjast við að borga niður óyfirstíganlega veraldlega og andlega skuldir. Hver fær greitt þegar leigumorðinginn fremur sjálfsvíg?

Fyrirgefðu, þetta er nefnilega kaffibollinn minn, stæðið mitt, sætið mitt og hallóhalló?!? Hvað gerðist hérna? Það er allt í smjöri og hori og gíróseðlum!

Dag eftir dag eftir allt:

Engin innblástur bara myrkur. Engir sigrar bara dag eftir dag engin prinsipp eftir engar hugsanir eftir enginn sannleikur.

Og þvottavélin snýst,
hægt og rólega.
Full af salti,
terpentínu
og rakvélarblöðum.

°°°