Hæ, Helga


Reykjavík 02. desember

Hæ aftur, Helga.

Eitt sinn var Jesú á gangi meðfram sjónum við Akrafjall. Mávar görguðu í þokubökkum við fjallstoppinn og Jesú var með asna í bandi sem lötraði hægt en undirgefinn á eftir honum. Af því Jesú var töffari þá tuffaði í hann í sjóinn og af því hann var töfrum almættis gæddur breyttist hráki hans í rauðmaga sem synti burt sáttur við tilvistina. Síðan hefur hann verið veiddur og steiktur og borðaður með rúgbrauði og gulrótum út um alla Skandinavíu. Sankti Pétur sá til hans og slóst í för með honum og gerði hann að sjálfsögðu eins. Grásleppan svamlaði burt þar sem hráki Péturs hafði lent og hélt spennt á vit ævintýranna á meðan félagarnir hlógu. En þegar Lúsífer sá þá eiga svo kumpánlega stund saman kom hann aðvífandi og spurði hvað þeir væru að bauka. Þeir vildu ekki svara honum en þegar hann skildi hvað hefði gerst lék hann töfrabragðið eftir. Marglyttan varð til og hefur hún svamlað stefnulaus um höfin síðan, sorgmædd og einskis nýt.

Fyrirgefðu annars hvað bréfið í gær endaði snöggt. Ég komst ekki lengra í gær, pakkaði saman og hljóp heim með útvarpið í eyrunum og horfði á mynd þar sem Meg Ryan endaði í faðmlögum við Tom Hanks í Central Park svo ég gæti grátið. En ég held áfram í dag, útgrátin yfir harmi annarra eins og ég lofaði og hætti ekki fyrr en ég hef sagt alla söguna. Mig hafði langað svo sofa út eins og margir gera á sunnudögum svo ég málaði mig eins og Robert Smith með rauðan varalit útfyrir og svartan ælæner. Ætlaði kannski að dytta að plöntunum í stofunni og gera taka nokkrar myndir af því litla sem lifir í rökkvaðri andlausri íbúðinni. Af tungljurtinni (eða lásagrasinu) sem ég stillti upp við bókahilluna hjá skríninu með skartinu sem við föndruðum. Af monsterunni sem ég hef vafið jólaljósum utan um eins og þú gerðir í herberginu þínu og er úti á miðju gólfi eins og jólatré. Hengilóbelían sem flæðir yfir gula lesstólinn í horninu sem Jóp sefur í. Datt í hug plata Pétur bróður yfir í viskí eða jólabjór í hádeginu og fá hann til að sitja fyrir á mynd eins og þegar við vorum unglingar. Eða taka bara og nota aðdráttarlinsuna sem amma gaf mér til að taka myndir af þvottasnúrum, skýjasæng á Esjunni eða inn um gluggann hjá einmana nágrannanum, af honum að horfa á lélegar sápuóperur og rúnka sér. En ég snerti ekki myndavélina. Njósnaði aðeins um Elísabetu Jökulsdóttur sem er að selja nýja englabók í Melabúðinni og sá einmitt Pál Óskar ganga hnarreistan þaðan út í glitofnum jakka með varalitafar á kinninni, bókina í hendinni. En ég var niðurlút og gat ekki gert neitt skemmtilegt. Hrædd við þennan árstíma sem minnir mig á Jesú frá Nasaret og allar bænirnar sem pabbi minn kenndi mér en fór aldrei sjálfur eftir. Ég er ekki hliðholl þessu eilífa myrkri sem birtist á glugganum hjá mér og blæðir inn í draumana svo ég hætti að glápa út um gluggann og æddi af stað út í snjóinn, myndavélalaus og allslaus en vissi hvert ég yrði að fara. Bréfið kallaði á mig og það er ekkert í stöðunni annað en að skrifa.

Úti er napurt eins og þú veist líklega, þó þú sofir svefni hinna réttlátu er áreiðanlega kalt en fallegt hjá álfunum í hrauninu þín megin líka. Ég gekk í gegnum miðbæinn á leiðinni hingað og mætti kóklestinni sem spilaði Snæfinn snjókall með grófan róm og í gömlum skóm og tilhugsunin um það skrímsli var óbærileg. Svo fór að snjóa og ég keypti mér malt í Vínberinu fyrir gönguna, faldi frostbitnar freknóttar kinnar undir stórri hettu í hvítum gervipels og hlustaði á útvarpið í vasadiskóinu sem þú gafst mér í tvítugsafmælisgjöf. Ótrúlegt en satt virkar það ennþá þrátt fyrir að vera í daglegri notkun. Ég hlusta auðvitað aldrei á spólur í því heldur bara útvarpið og þá hlusta alltaf á rásina sem spilar ekki jólalög heldur Nancy Sinatra, Patsy Cline og Dolly Parton í ástarsorg. Ég fann stundarfrið og ró með því að leyfa huganum að svífa til þín. Snjóflyksurnar sem féllu til jarðar sindruðu í bjarma frá ljósastaurum eins og þræðirnir sem sameinuðu okkur en ég sleit í sundur. Hér á þessum stað. Ég fann allt í einu fyrir þeim sterkar en nokkru sinni fyrr. Sumt hefur ekki breyst. En þú mátt vita, og það er best að ég segi það strax svo þú viljir kannski lesa áfram, að ég hef breyst.

Mér líður aldrei eins vel og þegar ég fer í ferðalag aftur í tímann, þó ég hafi líka þá verið hrædd. En þegar ég hlusta á Eartha Kitt og Doris Day og sé þig dansa í herbeginu mínu og líður eins og ég hafi aldri farið neitt, finnst við vera hérna ennþá. Þetta var bara ímyndun er það ekki? Bíddu, ég ætla að prófa það.

Þegar ég opna aftur augun hérna á fyrstu hæð í Kringlunni finnst mér þau vera draugar en ekki ég. Draugar sitja með mér við borðin á kaffihúsinu, glansblöð flettast án þess að vera snert, ljósin flökta. Draugar kaupa jólagjafir og taka sér far með malandi rúllustiganum. Draugar fara inn og út úr lyftunni upp á þriðju hæð. Hitta bláhærða stúlku úr fortíðinni, glanskinna með spékoppa og mislit augu, þangilmandi háls og með fíngerða keðju um hálsinn sem kitlar útstæð viðbein þegar hún hlær. En svo hverfur sýnin og ég verð meira einmana en nokkru sinni fyrr. Langaði að hringja í Guð, því Guð er sólgos, en það er of langt síðan síðast.

Reykjavík 03. Desember

Hæ Helga.

Góði fjárhirðirinn átti hundrað sauði en týndi einum þeirra og þá varð hann alveg miður sín. Hann yfirgaf hina 99 til að leita að þessum eina. Svo þegar hann fann þennan eina sauð þá sá hann ekkert nema hann, svo glaður var hann. Hann setti sauðinn á herðarnar og kallaði alla vini sína saman og tilkynnti hróðugur að sauðurinn væri fundinn án þess að skeyta nokkuð um hina sem aldrei höfðu vikið frá honum.

Veistu hvað Jesú sagði að þessi saga þýddi? Spurði ég þig þegar ég sagði þér söguna í herberginu þínu undir sveittri sænginni einn daginn þegar þú fórst ekki fram úr þrátt fyrir síðdegissólina sem lak inn í loftlaust herbegið.

Að maður elskar þá mest sem fara frá manni og týnast, sagðir þú. Bjarminn frá grænum lavalampa lýsti upp bakið þitt.

Nei, sagði ég eins móðurlega og ég gat. Þessi sauður er eins og mannfólkið sem hættir að trúa á hann og fer. Fjárhirðirinn er Jesú, svo glaður að finna týnda sauðinn eins og Jesú er glaður þegar hinn trúlausi snýr aftur.

Þú getur sagt Jesú að fokka sér en svo bætirðu við fyrirgefðu ég elska þig og þá elskar hann þig aftur?

Einhvernveginn þannig.

Úr óútgefinni skáldsögu, Guð leitar að Salóme.