Vakað lengur


Með happaþrennu augun
skildi pabbi mig eftir
í pulsubréfunum og tómu rauðu hulstrunum
engar spennumyndir í hillunum
sem náðu veggina á enda
bara bílbeltalaus í aftursætum
dísæt ístár
og engin leið að spóla til baka
óþurrkaða tauma

heilinn er einsog hringvegur og stoppistöðvarnar brenna
skrópandi þorpin puttanna á milli
og öll blóðböðin
á velmeinandi fósturfjölskyldum

nú eru augnlokin úr kartöflubænum
og milli rimlanna er ekki neitt
ég hélt alltaf dauðahaldi í þá
hélt alltaf ég dæi ef ég svæfi
svo brothætt og stökk

þegar við hrukkum upp af gefnum svefni
inná geðdeildunum sagðirðu alltaf:
„við hefðum getað vakað lengur“

en fyrir sunnan kirkjuna við banabakkann
þarsem við hittustumst fyrst
einsog sjaldgæfur farfuglalýður og bæði eftirlýst
á ég tösku frá túrista
í henni eru allar dúnúlpurnar, myndavélarnar og símarnir
öll ilmvötnin, frosnu lærin okkar
og fölsku inneignarnóturnar

– komdu því öllu í verð og hittu mig hinum megin.