kettirnir hérna, hótelin og plaststólarnir
spretta upp eins og illgresi
nema illgresinu er gefið að borða
kettirnir liggja út um allt
eins og innfallin hræ
horaðir, skítugir
pírðar glyrnurnar
eins og linar geirvörtur
í gagnsæjum brjóstahöldurum
eins og tveir mínusar
það er óraunverulegt að vera hérna
í hótelborg við sjóinn
ég vakna og fer í sturtu og svo niður í matsalinn
ég mjakast áfram við morgunverðarhlaðborðið
á undan mér er gamalt fáklætt fólk
á eftir mér er gamalt fáklætt fólk
þetta fólk er sólbrennt eins og ég
á öxlunum, andlitinu
á berum, vandræðalegum fótleggjunum
fyrsta daginn finnst mér hlaðborðið ljúffengt
kúgfylli disk af brauði og áleggjum
kúgfylli skál af ávöxtum og granóla og hunangi
fæ mér smoothie glas og djús og kaffi
og frímerki af baklava í eftirrétt
en eftir nokkra morgna af því sama
renna öll brögðin út í eitt
frá báðum hótelsvölunum mínum
horfi ég út á hafið
aðrar svalirnar opnast út frá
svefnherberginu og rúma einn stól
hinar opnast út frá leðurklæddri stofunni
og rúma tvo sólbekki og tvö lítil plastborð
ég sit á svefnherbergissvölunum og horfi
ofan í tugi annarra hótelsvala
á kvöldin lýsast hótelin upp
hvert í sínum neonlit
eins og börn með vasaljós við hökuna
sem segja frá draugasögu
þegar ég var barn
þoldi ég ekki slíkar draugasögur
ég átti nógu auðvelt með að hræða
úr mér líftóruna
án utanaðkomandi hjálpar
til að svala spennufíkninni
stofnaði ég frekar prakkaragengi
valdi þrjár stelpur með mér
af mikilli kostgæfni
fyrsta prakkarastrikið okkar
var að læðast inn í áhaldagámana í kópavogi
og stela málningardollum og penslum
síðan máluðum við nöfnin
okkar utan á græna gámana
það eru fjórar konur á íslandi
sem heita FRÍÐA JÓHANNA
hver og ein hefði getað
verið sökudólgurinn
þó vissulega
ætti sú yngsta
heima
hinum megin
við götuna
hvert prakkarastrik
merkti ég fyrir aftan nafn prakkarans
við héldum uppteknum hætti
út sumarið þangað til ég var svikin
af vinkonu minni
sem sagði pabba mínum
allt
hérna í hótelborginni
líður mér samtímis
eins og prakkaranum
og foreldrinu
dómaranum
og sökudólginum
ég geng um hverfið
þegar ég er ekki á ráðstefnunni
leyfi grískum þjónum
að veiða mig
inn á veitingastaði og bari
ég panta mér
áfenga sykurdrykki
strawberry daquiri, mango passion
sest niður í skugga
við ströndina
og reyni að slaka á
þrátt fyrir stífan sviðann
á bleikri bringunni
þrátt fyrir rykið og skítinn
á þvölum líkamanum
mér líður eins og allt
lykti af sólarvörn og svita
þó svo að ég viti að það er
ég
sem lykta
af sólarvörn
og svita
það er heitt
hrikalega heitt
ég íhuga að biðja einhvern þjóninn
um að taka mynd af mér
leyfa gleymskunni að þrífa
rykið og svitann og sólarvörnina
af með þvottapoka
svo að eftir nokkur ár
jafnvel á næsta ári eða þarnæsta
mun ég horfa á myndina
og hugsa með mér
að þetta hafi
ef til vill
ekki verið
svo slæmt