Það verður að segjast eins og er: Pier Paolo Pasolini er alveg með áhugaverðari listamönnum.
Við erum að tala um rithöfund, ljóðskáld, leikstjóra, marxista og pólitískan aktívista sem endaði lífið með morð mysteríu sem enn er hitamál þar sem alls konar samsæriskenningar og ásakanir er verið að setja á borð og skeggræða. Marxisti sem fordæmdi Maí ’68 (tók stöðu með lögreglumönnunum þar sem þeir, frekar en stúdentar, voru „synir öreiganna“). Samkynhneigður trúleysingi sem var rekinn úr Kommúnistaflokknum og hafði ítrekað ögrað og verið fordæmdur af kirkjunni, en gerði mynd um líf Jesús Krists sem var ekki einungis sýnd í hinni nýglötuðu Notre Dame kirkju, henni var veitt verðlaun kvikmyndasamtaka kaþólsku kirkjunnar (e. International Catholic Film Office) á sínum tíma. Við það má bæta að L’Osservatore Romano – dagblað Vatíkansins – útnefndi myndina „besta verk um líf Jesú í sögu kvikmyndalistarinnar“ árið 2014. Byltingarsinnaður leikstjóri og ljóðskáld sem er þó hvað frægastur fyrir kvikmyndaaðlaganir á klassískum heimsbókmenntaverkum: Mattíusarguðspjall, grískar goðsögur og leikrit, Kantaraborgarsögur Chaucer og Decameron Boccacios.
Ég ætla einnig að fullyrða að enginn annar rithöfundur sem finna má í frægu bókmenntakanónu Harold Blooms, hafi einnig unnið til verðlauna á kvikmyndahátíðum eins og Cannes og Feneyjum, fyrir myndir sem hafa verið gefnar út í Criterion Collection útgáfum (ekki þó sú sem hér er til umræðu ennþá, því miður). Ein af þeim er almennt talin vera sjúkasti viðbjóður sem nokkurn tímann hefur verið festur á filmu. Er því einnig velþekktur og vinsæll (þrátt fyrir að vera oftar en ekki mikið misskilin) meðal költ kvikmyndaáhugamanna. Þar erum við að sjálfsögðu að tala um fyrir hina alveg hreint brilliant gagnrýni á neysluhyggju: Salo: 120 Days of Sodom (1975).
The Gospel According to St. Matthew kom hinsvegar til þegar Pasolini var staddur í Assisi 1963 – heimabæ heilags Fransis – vegna atburðs sem Jóhannes 23. páfi hafði efnt til. Tilgangurinn var semsagt að auka samræðuna milli kirkjunnar og listamanna utan hennar. En Pasolini hafði einmitt ný verið búinn að dólgast í henni með innleggi sínu í myndinni Ro.Go.Pa.G. sem var samstarfsverkefni með m.a. Godard (samstarf Pasolini með öðrum leikstjórum er einnig ekki af verri endanum – skrifaði t.d. sum handrit með Fellini, m.a. að La Dolce Vita). En sagan segir að hann hafi ekkert komist neitt vegna traffík. Páfinn var jú í bænum. Því hékk hann bara á hótelinu og las öll fjögur Guðspjöllin í einni setu. Af þeim taldi hann Matteusarguðspjall best og tilhugsunin um kvikmyndaaðlögun fyllti hann slíkra ástríðu að hann sópaði burt öllum öðrum verkefnum og dembdi sér rakleiðis í þetta.
Útkoman var þessi mynd sem kom út árið á eftir. Sem er einfaldlega stórkostleg, í allri mótsagnarkennd sinni. Pasolini reiðir sig sumsé að miklu leyti á meðölin sem Rosselini, Visconti, de Sica, o.fl. höfðu gert heimsfræg með ítalska nýraunsæinu: myndin er skotin í fátæklegu og nöturlegu umhverfi, fjallar ekki einungis um hversdags fólk á förnum vegi, leikararnir eru beinlínis lágstéttarfólk sem búa þar í raun og veru og leikstjórinn hittir á förnum vegi og smalar saman í myndina. Sá sem leikur Jesú var hagfræðinemi sem vildi aðeins hitta og ræða við leikstjórann um verk sín af einhverjum ástæðum. Pasolini leyfði honum víst ekki einu sinni að klára að útskýra erindi sitt. Áður en hann vissi af var orðinn Jesús frá Nasaret að fara með fjallræðuna. Þar með búinn að skrá sig á spjöld kvikmyndasögunnar.
Þetta er þreytt líking sem margir hafa oft notað um myndina. En hún er þreytt vegna þess að hún er sönn: mynd Pasolini er einfaldlega eins og low-budget heimildarmynd um líf og störf Jesús Krists. Og þegar við erum að tala um low-budget, þá meina ég að myndin er meitluð úr harðasta og grófasta steini. Að segja að hún sé hrá er að ofmeta hversu flókin fagurfræðin hérna er – lætur hana hljóma eins og mynd eftir Baz Luhrmann.
Eitthvað sem hentar viðfangsefninu auðvitað fullkomlega.
Ein klisjan sem oftar en ekki er fleytt um aðlaganir á klassískum bókmennaverkum eða sögum er auðvitað að hér sé gefin „ný sýn“ á verkið. Hér er einmitt ekki gefin nein ný sýn – öllu heldur færir Pasolini Guðspjallið aftur í aðstæðurnar sem atburðirnir gerðust raunverulega í og leyfir okkur því að sjá þá atburði aftur með sjónarhóli fólksins sem tók þátt í þeim – sauðsvartasta og bláfátækasta almúgans. Pasolini minnir okkur því á og hjálpar okkur að skilja Guðspjöllin og kristni sem fyrirbæri sem spratt uppúr – og fjallar fyrst og fremst um þrátt fyrir að það gleymist auðvitað sorglega oft – um „the stench and funk of life“ eins og Cornel West útskýrir það. Hér er um venjulegt fólk að ræða, hið fátækasta af því fátæka, sem gerir uppreisn gegn venjulegum vandamálum í venjulegum aðstæðum. Með því að gera Jesú svo látlausan og ómerkilegan í raun, gerir Pasolini hann því á einhvern brilljantly mótsagnarkenndan hátt einmitt svo miklu stórkostlegri.
Mel Gibson er þetta svo sannarlega ekki. Þó Gibson skaut myndina sína reyndar á sama stað fjörtíu árum seinna.
Ekki voru þó allir eins sáttir við myndina á sínum tíma. Hægri trúarhópar og stjórnmálamenn fordæmdu hana auðvitað, en vinstrið einnig og jafnvel ekkert síður. Enginn annar en Jean-Paul Sartre skammaði Pasolini, með þeim orðum víst að „Stalín gaf Ívani grimma uppreista æru; marxistar hafa ekki enn gert hið sama fyrir Jesús.“
Ég vil þó meina að Pasolini, listamaðurinn sem passaði hvergi inn og bókstaflega allir gagnrýndu þegar hann var á lífi, og þessi mynd hans um líf Jesús þá sérstaklega, á semsagt mikið erindi í dag.
Ég tók annars saman lista yfir bestu kvikmyndirnar um Kristni og trú í tilefni Páska, sem ég set bara hérna í lokin.
The Passion of Joan of Arc (Dreyer, 1928)
The Flowers of St. Francis (Rossellini, 1950)
Diary of a Country Priest (Bresson, 1951)
Viridiana (Bunuel, 1961)
Winter Light (Bergman, 1963)
The Gospel According to St.Matthew (Pasolini, 1964)
The Sacrifice (Tarkovsky, 1986)
Bad Lieutenant (Ferrara, 1992)
Breaking the Waves (Lars von Trier, 1996)
Silence (Scorsese, 2016)
Það má einnig benda á að annar leikstjóri á þessum lista – Abel Ferrara – gerði mynd um Pasolini sem kom út 2014. Og er hann leikinn af engum öðrum en Willem Dafoe. Sem ég er auðvitað ástfanginn upp fyrir haus að. Hinsvegar gerði umtalið og gagnrýnin á sínum tíma það að verkum að mig langaði ekkert að sjá hana og get því ekkert sagt um hversu góð eða slæm hún er. Þarf að drífa mig að sjá hana.
Sem og fleiri myndir Pasolini. Af þeim 25 myndum sem hann gerði hef ég raunar séð skammarlega fáar. Ásamt því að ljóðlist hans og rithöfundarferill er svo gott sem ókannað landsvæði fyrir mér.
Þetta gengur auðvitað ekki.