Góðar fréttir, mín kæra, ég hef náð mér
sýttu ekki, huggaðu mig ekki
deildu heldur gleðinni með mér
því hvernig ég gladdist að vera lasinn
gladdist að vera heill heilsu
Ég verð að deila þessari gleði með þér
veistu ekki
hvernig ég lét þig deila með mér
svo mikilli þjáningu og óréttlæti
Nú er ég glaður nú er ég sáttur
með hverri máltíð
ét ég þrjár heilar hrísgrjónaskálar af góðri lyst
á hverjum morgni fer ég í sturtu af góðri lyst
Borði ég of mikið
fari ég of oft í sturtu
ekki skamma mig, ástin mín
mundu góðu tíðindin sem ég flyt
ég var að ná mér af veikindum
Þú getur ekki glaðst með mér enn, ástin mín
hvers vegna ertu svona heimsk
Ég skal segja þér óteljandi furðusögur
Hvernig ég hitti engil dauðans í glaðlegu veikindakasti mínu
Engill dauðans, mín kæra, sat við fótagaflinn
Engill dauðans, mín kæra, stóð á moskítónetinu
Engill dauðans, mín kæra, var engu minna fagur en þú
engu saklausari en ég
Ég var svo glaður að orð mín fá því ekki lýst
Horfðu djúpt í augu mér
Engill dauðans í augum mér í víðum fötum mínum
var fullur róandi mennsku
Manst þú enn, ástin mín
allar skuldirnar sem þú kallaðir yfir mig
og þær sem við kölluðum hvort yfir annað
þegar við fengum eina lánaða til að endurgreiða hana tíu sinnum
Fengum eina hönd lánaða til að endurgreiða fjölda líkama
Fengum lánaða rák eftir tár til að endurgreiða heilu úthöfin
Fengum lánað gleðibros
til að kalla yfir okkur svo mikla sorg
Og ég meina, ástin mín, hvernig ættum við að geta gleymt
öllum lánardrottnunum sem við höfum þurft að díla við
sem neyddu okkur til að skæla okkur með lánum
að skæla okkur þegar við vorum óþekk
að skæla okkur þegar við endurgreiddum
Ekki æpa á mig, ástin mín, fyrir útúrdúrinn
vertu ekki óþolinmóð
ég veit að ég er að segja þér frá engli dauðans
ég veit að ég þarf að vera skýr svo þú vitir
að engill dauðans er í raun lánardrottinn
Ekki láta þér bregða, ekki skæla þig
engill dauðans lánaði okkur fyrstu barnaskrefin
síðan árafjöld
svo mörg kátínuþrungin, litrík kerti á afmælistertum
Manstu hvernig ég fékk fánaða frá engli dauðans
alla dagana og næturnar í strögglinu og ást þína
Manstu, ástin mín
þegar við vorum óþekk hvort við annað
þegar við vorum óþekk við aðra
reyndu að muna, ég skal segja þér
hvernig ég var óþekkur við engil dauðans
hvernig ég var glaðlega óþekkur ekki kindarlegur eða skældur
Engill dauðans þekkti mig og var alúðlegur:
– Ah, hefurðu þegar lokið við að greiða skuld þína?
– Nii, ég er enn ekki búinn, bróðir.
Hann spurði alúðlega, ég svaraði alúðlega
Og ég talaði um það lágri röddu við engil dauðans
hvernig þú biðir þess að kærleiksþel mitt hæfist á ný
hvernig vinir biðu þess að fylleríið á mér og svallið hæfist á ný
hvernig þjóð okkar og mennska biðu þess að þjónusta mín hæfist á ný
Og ég vildi gjarna spjalla við hann enn lengur
en veistu hvað gerðist
engill dauðans opnaði peningakassann með bros á vör
framlengdi skuldina með bros á vör
án þess að gera neitt mál úr vöxtunum
Sérðu, ástin mín,
hvernig ég elska þig enn, elska mannkyn
vill enn svalla og þjóna
hvernig engill dauðans, mannúðlegur lánardrottinn
elskar okkur enn
lánar okkur enn björt kerti
sem blómstra geislandi á afmælistertunni þinni
á afmælistertu litla barnsins okkar
á afmælistertum vina okkar og mannkyns
Finnurðu ekki enn fyrir gleði minni, ástin mín
verum sæt einsog þessi terta
þessi ilmandi og vel rúnnaða terta
sem bíður þess að við deilum henni
hoppum um einsog logi
hlýr logi lífsins sem brennur enn
hvort sem það er þessi staður eða hinn
brennur enn, hvort sem það er þessi manneskja eða hin
brennur enn, jafnvel þótt við tvö
hættum að vera til
Hefurðu heyrt mín góðu tíðindi enn, ástin mín
færðu koss þinn að loganum
svo ég sjái hann skýrt
færðu andardrátt þinn að tertunni
svo ég geti gleypt hann í mig af ánægju
gleðstu með mér, sem var að ná sér af veikindum
einsog ég gleðst af að elska þig, elska mannkyn
gleðst að elska lífið, elska dauðann
og gleðst að yrkja þrotlaust.