Um minningasöguna Ekki gleyma mér eftir Kristínu Jóhannsdóttur (1960). 270 blaðsíður. Bjartur gaf út 2017.
Fyrir ekki svo löngu var heimurinn allfrábrugðinn því sem við eigum að venjast í dag. Heiminum var skipt upp í austur og vestur og tók skipting sú mið af ólíkum stjórnmálakerfum. Í einfölduðu máli af markaðskerfi sem dregur taum einkaeignarréttar framleiðslutækja og kerfi sem miðar að því að framleiðslutækin séu í eigu ríkisins.
Talað var um austantjaldsríki þegar kom að þeim ríkjum þar sem framleiðslutækin voru í ríkiseign. Munur þessara ríkja var umtalsverður. Ef notast er við litalíkingu voru austantjaldsríkin grá, þau fyrir vestan litrík. Austanríkjunum var spyrt við einræði og vestanríkjunum við lýðræði.
Eitt austantjaldsríkjanna var Þýska alþýðulýðveldið eða Deutsche Demokratische Republik (DDR) eins og það kallaðist á þýsku. Það var við lýði frá 1949 til 1990. Árið 1990, 3. október, sameinuðust þýsku ríkin og Þýska alþýðulýðveldið heyrði sögunni til. Nú er það að mestu leyti að finna á söfnum, í bókum, svo og í höfðum fólks.
Á þessum tíma „fóru öll samskipti milli fjarlægra staða fram með sendibréfum, í skífusíma á heimilum fólks, í símaklefum eða á sérstökum símstöðvum.“ (bls. 7) Handan járntjaldsins, en svo nefndust skilin milli austurs og vesturs einnig, ríkti ströng ritskoðun.
Í Alþýðulýðveldinu var Stasi (Staatssicherheit) ábyrgt fyrir innra öryggi landsins og hluti þess var öflugt eftirlit með íbúunum þannig að þeir, eins og sagt er á þýsku, „nicht aus der Reihe tanzen“ eða fylgi boðum og bönnum þeim sem ríkið gerði borgurunum að fylgja. Þessu hefir margoft verið gert skil, til dæmis í kvikmyndinni Das Leben der anderen svo og fleiri kvikmyndum og bókum.
En það var ekki nóg með að kerfið hefði auga með þegnunum heldur hafði apparatið þróað með sér kerfi þar sem hver fylgdist með öðrum og ljóstraði því upp ef eitthvað óhreint var að finna í pokahorni náungans. Stasí hafði þéttriðið net uppljóstrara og njósnara og var stór hluti fólksins innvinklaður í Stasí. Umfang eftirlitsins kom vel í ljós eftir að múrinn féll. Skýrslur um borgara Alþýðulýðveldisins mátti finna í tonnavís. Nálgast má skýrslur þær sem skrifaðar voru um viðkomandi á Skjalasöfnum Stasí sem mörgum hverjum hefir einnig verið breytt í safn.
Æðimargir frambærilegir þýskir rithöfundar hafa fjallað beint og óbeint um Þýska alþýðulýðveldið í verkum sínum. Þar má nefna höfunda á borð við Ingo Schulze, Clemens Mayer og Thomas Brussig. Kvikmyndaleikstjórinn Leander Haußmann er einna þekktastur þeirra kvikmyndagerðarmanna sem tekið hafa á landinu sem var. Svo má heldur ekki gleyma hinni ágætu kvikmynd Goodbye Lenin.
Einnig hefir mikið frambærilegt efni, bæði skáldað og sögulegt, komið út sem tekur á eyjunni innan Þýska alþýðulýðveldisins, Vestur-Berlín. Vestur-Berlín var allsérstæð enda staðsett í miðju Alþýðulýðveldinu sem eins konar eyja, kapítalísk eyja í miðju sósíalíska kerfinu, lokuð af með Berlínarmúrnum margfræga sem féll 9. nóvember 1989. Berlínarmúrinn var hugsaður (opinbera skýringin) til að verja borgara Alþýðulýðveldisins fyrir fasisma og auðvaldshyggju.
Nú bregður svo við að Kristín Jóhannsdóttir, forstöðumaður ELDHEIMA í Vestmanneyjum og fararstjóri hjá Bændaferðum, og lengi vel fréttaritari RÚV í Þýskalandi svo og kynningar- og markaðsstjóri Icelandair þarlendis hefir sett saman minningabók sem einkum á sér stað í Austur-Þýskalandi sáluga.
Til Leipzig í Saxlandi sem var innan vébanda Þýska alþýðulýðveldisins, hélt íslenska námsmeyin Kristín Jóhannsdóttir árið 1987. Hún hafði hug á að nema við Karl Marx Universität þar í borg. Þar á undan hafði hún verið við nám í háskólanum í Freiburg í Sambandslýðveldinu Þýskalandi.
Hún tók upp á þessum umskiptum sumpart vegna ævintýragirni en einnig til að flýja grískan ástmann sem tók uppsögn ekki vel.
Sagan Ekki gleyma mér geymir lýsingar af reynslu hennar þar í landi en ekki síður spilar ástarævintýri sem hún átti með austur-þýskum manni stóra rullu.
Á þennan máta er verki skipt upp:
-Formáli (bls. 7-8)
-
- 1. kafli: Haustið 2005 – Það var ekki allt slæmt í DDR (bls. 9 til 20)
-
- 2. kafli: Veturinn 1986-87. Umsóknir og ákvarðanir (bls. 20 til 215)
-
- 3. kafli: Lífið heldur áfram. Vestur-Berlín 1988-89 (bls. 215-218)
-
- 4. kafli: 9. Nóvember 1989 (bls 218- 231)
-
- 5. kafli: Dirk í Berlín, haustið 2005 (bls. 231-270)
Í hverjum kafla er að finna einkennandi millifyrirsagnir.
Kaflaheitin eru all lýsandi fyrir innihald hvers hluta. Auk þess sem sjá má af lengd kaflanna hvar megináherslan liggur.
Ef stuttlega er farið í hvern hluta fyrir sig þá er Kristín, í 1. kafla, komin til Leipzig árið 2005 þar sem hún ætlar sér að sækja um, í Skjalasafni Stasí, að fá vitneskju um hvort hún hafi verið „á skrá hjá austur-þýsku leyniþjónustunni.“ (bls. 17) Hvort njósnað hafi verið um hana. Í kaflanum gerir hún og lesanda þetta ljóst:
Ég elska þessa borg, hér var ég námsmaður árið 1987, þegar borgin var enn hluti af Þýska alþýðulýðveldinu. Þó þetta sé ekki langur hluti af heilli mannsævi, þá var þetta minnisstæðasta skeið lífs míns og tímabil sem mótaði mig meira en ég vildi lengi almennilega viðurkenna fyrir sjálfri mér. (bls.9)
Hún hefir grunsemdir um að vinir hennar þar í landi hafi verið handbendi Stasí en það sem verra er grunar hana að kærasti hennar hafi verið þar á mála.
Það sem plagaði mig þó mest […] voru grunsemdir um að kærastinn minn á þessum árum hefði jafnvel verið ósvífinn Stasí-njósnari. Hann hafði verið maðurinn í lífi mínu, með honum átti ég fallegustu og æðisgengnustu daga og nætur ævinnar í skugga ógnar- og einræðisstjórnar Þýska alþýðulýðveldisins. (bls. 11)
Annar kafli lýsir undanfara þeirrar ákvörðunar að hún ákveður að nema í Leipzig svo og tímanum þar.
Eins og gefur að skilja kom Kristínu ársins 1987 margt framandi fyrir sjónir. Hún lýsir samfélagi með sífelldum biðröðum, skrifræði, minimalísku vöruúrvali, bönnuðum tímaritum og bókum, gráum byggingum og lítilli götulýsingu.
Í þessu samfélagi var ekki hægt að stóla á að það sem stendur á matseðli veitingastaða sé að fá þegar panta á. Bið eftir símtæki gat varað ár og daga svo og bið eftir bifreið. Hún lýsir samfélagi þar sem ekkert atvinnuleysi er að finna og ástæða þess er ofmönnun á öllum sviðum, hún lýsir agaleysi, almennum drykkjuskap, hvernig fólk keppist við að ná sjónvarpi Sambandslýðveldisins eða að fá vestrænar fréttir (ekki er leyft), hún lýsir samfélagi þar sem ríkið á 90% húsnæðis og flest allt er miðstýrt og svo því hvernig Austur-Þjóðverjum finnst mannréttindabrot að Íslendingum sé meinað að versla sér bjór.
Í háskólanum ber henni að hitta trúnaðarkonu sína reglulega. Trúnaðarkonu sem veit grunsamlega mikið um hana og hennar einkalíf. Þar er til vansa að hún sé ekki vel að sér í Marxískum fræðum enda ber stúdentum að hafa stúderað fræðin þau í minnsta lagi tvö ár. Margt fólk leitar leiða úr landinu sem er einangrað. Fólk hefir ekki fullt ferðafrelsi og getur ekki yfirgefið landið svo glatt.
Mætti hér lengi telja upp atriði sem annkanaleg kunna að virka fyrir íslenskt allsnægtarfólk dagsins í dag. Samanburðurinn við lífið vestanmegin eykur svo enn á framandleikann þar sem „[ö]ll ljósadýrðin og vöruúrvalið var nánast yfirþyrmandi, alltof mikið af öllu.“ (bls. 65)
Vesturmærin kemst í vinfengi við ófáa Austur-Þjóðverja og kynnist landi, þjóð og öldurhúsum. Nýtur hún allnokkurar karlhylli og gerir margur karlpeningurinn hosur sínar grænar fyrir henni með það augnamið að kvænast henni og komast þannig úr landinu. En sá sem vinnur hjarta hennar, Sebastian, hefir ekki hug á að yfirgefa landið. Þvert á móti virðist hann hafa trú á landinu og kerfinu þótt hann viti að víða sé pottur brotinn.
Gamli kærastinn minn var ekki endilega svona mikill kommúnisti. Hann var einn þeirra fjölmörgu Austur-Þjóðverja sem þótti vænt um landið sitt og langaði að sjá breytingar. Það er útbreiddur misskilningur að alla Austur-Þjóðverja hafi dreymt um að búa í Vestur-Þýskalandi. (bls. 256)
Með þeim tekst funheitt ástarsamband með eldheitum ástríðum og tilheyrandi lýsingum á kynferðislegu aðdráttarafli.
Hann tók sér tíma til að æsa mig, láta mig langa sífellt meira í sig. Ég hjálpaði honum að klæða mig úr kjólnum, og reif mig sjálf úr restinni af fötunum. Blautir kossar um allan líkamann, þetta var svo æðislegt, þegar hann þrýsti sér inn í mig oh, vá! Mér fannst ég á tímabili vera að tapa vitinu. (bls. 95)
Ástarsambandið er þó ávallt í skugga tortryggninnar sem svífur yfir vötnum. Kristínu grunar oft að Sebastian sé ekki allur sem hann er séður. Á það við fleiri aðila sem hún kynnist. Engu að síður getur „DDR getur verið paradís á jörðu, ef maður er í réttum félagsskap.“ (bls. 100)
Undir lok kaflans kemur að því að yfirgefa Alþýðulýðveldið. Kristín flytur sig til Vestur-Berlínar þar sem hún heldur áfram námi við Freie Universität, í og með, til að geta verið nær ástmanni sínum. Samt sem áður slitnar upp úr sambandinu og þau missa sjónar af hvort öðru.
Þriðji kafli er örstuttur. Hún kynnist Vestur-Þjóðverjanum Horst sem flytur inn til hennar þótt ekki sé hann stóra ástin í lífi hennar.
Fjórði kafli: Kristín býr áfram í Þýskalandi að loknu námi, sameinuðu Þýskalandi, á með Horst tvö börn, skilur við Horst, ákveður að flytja aftur til Íslands. Árið er 2005.
Fimmti kafli: Árið er 2005, skömmu áður en hún flytur til Íslands. Gamall vinur frá Alþýðulýðveldinu, Dirk, kemur í heimsókn og felur það í sér uppgjör á tímanum fyrir austan og ástarsambandinu. Hún hefir aldrei gleymt Sebastian og vill komast að því hví slitnaði upp úr sambandinu. Var það af því hann var innvinklaður inn í Stasí? Var hann eingöngu að njósna um hana? Hvert uppgjörið leiðir verður ekki uppljóstrað.
Texti verksins er blátt áfram og skrifaður og út frá sjónarhóli þeirrar persónu sem Kristína Jóhannsdóttir er þegar verkið er skrifað. Verkið er byggt á minningabrotum og dagbókarfærslum. Að mestu leyti er unnið úr dagbók, en af og til (ekki oft) er vitnað beint til dagbókar. Dæmi um það má finna hér fyrir ofan þegar Sebastian þrýstir sér inn í Kristínu.
Ekki er leitast við að velta fyrir sér svikulu eðli minninga og hvernig samsetning minninga er alltaf viss skáldskapur sem tekur mið af þeirri persónu sem heldur á penna og á hvaða æviskeiði fengist er við minningarnar.
Dæmi um slíkt má víða finna stað í öðrum verkum. Gott dæmi um það eru minnisbækur Sigurðar Pálssonar. Ekkert slíkt er fyrir að fara á síðum Ekki gleyma mér. Textinn sem slíkur er því nokkuð auðgleymanlegur og ófrumlegur þótt ekki sé hann óhaganlega samansettur.
Ástarævintýrið og lýsingar á samskiptum Kristínar og Sebastians er á köflum melódramatískar og sumt virkar banalt.
Nú hafa komið út allslags verk þar sem Alþýðulýðveldið spilar rullu. Á Íslandi hafa meira að segja komið út slík verk. Má þar til dæmis minnast á sjálfsævisögu Svavars Gestssonar, Hreint út sagt.
Eins og gefur að skilja er þar þó ekki um nein lifandis býsn að ræða. Er því áhugaverði vinkill sögunnar sá að sagt er út frá íslenskum sjónarhóli. Bókin ætti og að veita ágæta innsýn, fyrir byrjendur, inn í lífið handan tjalds auk þess að geta svalað gægjuþörf og forvitni Íslendinga.
Ef áhuginn beinist fyrst og fremst að Alþýðulýðveldinu má örugglega finna betri verk. Ef áhugi er á því að lesa kreatíva nálgun á minningar og úrvinnslu þeirra þá er þetta verk ekkert sérlega áhugavert. Má þar örugglega finna betri verk. Ef áhugi er á því að lesa um ástarævintýri íslenskrar konu í Alþýðulýðveldinu má örugglega finna sitthvað sem áhuga vekur.