Sagan sem hér er tekin til umfjöllunar telst vera önnur skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur. Sú fyrri, Hvítfeld-fjölskyldusaga, kom út árið 2012 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Það verk sem hér er til umfjöllunar gerði gott betur.
Kristín hefir einkum getið sér orðs fyrir ljóð. Einna helst prósaljóð. Komið hafa út fjórar ljóðabækur eftir hana: Kjötbærinn (2004), Húðlit auðnin (2006), Annarskonar sæla (2008) og Kok (2014). Sú síðastnefnda er einnig myndverka- og ljóðabók. Fyrir Kok hlaut skáldkonan tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þetta verk gerði gott betur. Þess má og geta að Kristín er með B.A. frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Þess sést staður í verkum hennar. Augljósasta dæmið í þá veru er Kok. Elín, ýmislegt ber keim af því. Ekki er þó myndskreytingum fyrir að fara.
Árið 2013 stóð hún að tveim leikverkum: Karma fyrir fugla sem hún skrifaði með Karí Ósk Grétudóttur og Skríddu. Fyrrnefnda leikritið var sett upp í Þjóðleikhúsinu og hið síðarnefnda í Borgarleikhúsinu. Í Borgarleikhúsinu var sömuleiðis sett upp verkið Hystory árið 2015. Þá þýddi hún úr dönsku skáldsöguna Hundshaus eftir Morten Ramsland sem út kom árið 2007.
Frá því verk Kristínar taka að birtast á prenti, upphafið má rekja til Ljóða ungra skálda sem koma út árið 2001, hefir Kristín allajafna verið lofuð fyrir verk sín. Vakið athygli. Verið talin öðruvísi. Elín, ýmislegt er þar engin undantekning. Hún hefir fengið lof fyrir nýstárleg sjónarhorn og öðruvísi nálgun á tilveruna. Sjálf hefir hún sagst hafa þörf fyrir að jagast í raunveruleikanum. Því má sjá stað í verkum hennar. Nærtækt er að spyrða verkin við súrrealisma. Sum við grótesku.
Elín, ýmislegt er ekki löng bók. Ekki mikill texti á síðum bókarinnar. Stórar spássíur og stórar eyður við kaflaskil, eða það sem sjá mætti sem kaflaskil. Hvorki er númerum né kaflaheitum fyrir að fara. Séu eyðurnar taldar má skipta verkinu upp í þrjátíu og níu kafla sem gerir hvern kafla að meðaltali 4,6 síður. Textinn er að mestu hliðskipaður, hnökralítill, orðfæri á köflum hvunndagslegt, á köflum alls ekki hvunndagslegt. Textinn er fremur blátt áfram en er iðulega brotinn upp með orðanotkun sem fellur ekki að raunsæislegu yfirbragði. Stundum með einstaka orðum eða setningum, stundum með styttri og lengri málsgreinum. Innihaldslega er einnig brotið upp.
Í raunsæislegu köflunum dúkka upp orð sem passa ekki beinlínis inn, í raunsæislegri atburðarrás eiga sér óraunsæislegir atburðir stað. „Raunveruleikinn hefur á sér svo marga fleti að hann er í besta falli kúbískur. Í versta falli fyrirsjáanlegur. Aldrei flatur.“ (bls. 9)
Á tíðum mætti nota þessi orð (fært í stílinn) aðalpersónunnar Elínar Jónsdóttir til að lýsa verkinu: „ég rýndi í hana [hér söguna] eftir einhverju sem gæti verið upphaf eða miðja en ég fann ekki neitt.” (bls. 9) Orð þessi koma í kjölfar þess að Elín finnur óforvarendis tillandsiu, rótlausa plöntu „sem lifir á lofti” (bls. 9), bakvið sjónvarp sitt. Hún veit ekki hvernig plantan lenti þar. Hún útilokar að það hafi verið vinur eða kunningi, enda segir Hún: „Ég á ekki vin. Ekki einn einasta.” (bls. 9)
Þræðir milli sögupersóna og atburða eru ekki alltaf á hreinu. Sumt virkar ófyrirsjáanlegt og rennur saman. Til að mynda eru þrjár persónur í verkinu sem, því að gera, bera sama nafn. Elín, Ellen og Helen. Elín og Ellen eru norrænar ummyndanir nafnsins Helen. Þegar á líður söguna verða öll skil ógreinilegri, skil veruleika og firringar. Fyrirboðar sem vísa í þá áttina eru ófáir og súrrealískir drættir eru einkenni. Talsverð notkun á orðinu draumur styður þá fullyrðingu. Litanotkun einnig. Litur þessa verks er tvímælalaust gulur. Mörg dæmi um það. Hér er móður Ellenar, annarrar aðalpersónu bókarinnar, lýst:
gular sígarettur sem mamma hennar geymdi í gulum öskubakka á meðan hún notaði á sér gulu fingurna til þess að fletta gulnuðum blöðum með gulum gátum og gulnuðum kenndum sem runnu saman við gulu neglurnar og gulu sígaretturnar sem brunnu viðstöðulaust milli fingranna eða í öskubakkanum og gulu lokkana sem lögðust niður með vöngunum, breiddu úr sér yfir axlirnar, gula greiðslusloppinn. (bls. 34)
Sögusviðið er líkast til Reykjavík. Það er ekki tekið fram. Staðarheiti koma allajafna ekki fram. Vogahverfi, Grandi og Garðabær eru undantekningar. Þótt sögusviðslýsingar séu ekki nákvæmar virkar margt kunnuglegt. Kunnuglegt sögusviðið er gert framandi með atvikum sem lúta ekki röklegri framvindu.
Sé litið til fyrri verka höfundar eru einkenni verka hennar á þeim slóðum: öðruvísi tengingar og draumkenndar sem gera skilgreiningaglöðum óhægt um vik með að aðgreina og flokka. Verk þetta virðist allajafna flokkað sem skáldsaga, samt kemur ekki fram á titilsíðu að svo sé. Hugsanlega fer betur á að segja textann skáldsögu sem minnir á ljóð eða ljóð sem minnir á skáldsögu. Í verkinu er að finna hrein ljóð, texta sem minnir á prósaljóð og fremur raunsæjan texta.
Sögutíma má miða við árið 1946, þegar Elín aðalpersóna sögunnar fæðist, til ársins 2017. Að vísu er farið aftar í tíma þegar fjallað er um móður, ömmu og afa Elínar auk þess sem hluti textans er óræður tímalega. Sérstaklega lokin. Ramminn er 1946-2017. Má ráða það af ártölum og aldri persóna. Til að mynda má leiða líkur að því að Ellen sé fædd 1998 þar sem sagt er að hún sé tveggja ára þegar faðir hennar og mikilvæg persóna í verki, Álfur Finnsson rithöfundur, fellur frá árið 2000. Fram kemur að hún sé nítján ára þegar sviðsetja á leikrit hennar, Fiður og sinar.
Á blaðsíðu fjórtán kemur fram að Álfur Finnsson sé tíu árum eldri en Elín. Líkast til fæddur 1936. Innan sögu gætir þó misræmis hvað aldur og ártöl áhrærir. Á blaðsíðum fimmtíu og fimmtíu og eitt er sagt að Álfur sé fimmtíu og sjö ára þegar hann deyr. Þar sem hann andast árið 2000 gerir það Elínu fimmtíu og fjögurra.
Á blaðsíðu sextíu og sjö segir Elín „Haustið 1987 tók ég mér hálfs árs frí frá störfum […] Ég flaug til Búrma.” Er hún því fjörutíu og eins árs. Á blaðsíðu áttatíu og þrjú er sömu ferð lýst en þá er hún orðin fjörutíu og sex ára. Spurning er hvort höfundur og prófarkarlesari séu slælegir í reikningi eða hvort þetta sé gert af ásettu ráði til höfuðs röklegri framvindu. Fleiri slík dæmi um hugsanlegt misræmi má finna í verki.
Auðvitað má afgreiða þetta misræmi með því að sögumaður sé óáreiðanlegur. Raunar er rökrétt að álykta að svo sé.
Víkjum að sögupersónum. Í verkinu greinir Elín Jónsdóttir okkur frá sjálfri sér:
Ég heiti Elín Jónsdóttir. Dóttir Guðrúnar og Jóns. Fæðingarárið er 1946. Afmælisdagurinn 9. janúar. Þau eru heitin, Guðrún og Jón. Fyrir löngu. Ég er ekki móðir neins.
(bls. 6)
Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa þetta verk er sú að annars gerir það engin, sem eru fyrirsjáanleg málalok.
(bls. 6)
Og það er góð ástæða fyrir því að enginn myndi skrifa þessa sögu vegna þess að þetta er engin saga. Bara tilraun til að tengja tákn sem bárust í vöku og draumi. Engar áhyggjur, ég ætla ekki að svæfa ykkur með draumum, en táknin gerðu mér ljóst að heilinn er ekki hlutur, það það er ekki hægt að snerta hann. Að sama gildir um alla hluti og um það er sagan.
En ekki um stelpu
Sem heitir Ellen.
(bls.7)
Elín er leikmunasmiður og hefir „síðastliðin þrjátíu ár […] eiginlega bara starfað við kvikmyndir og sjónvarp.” (bls. 12) Hún vann fyrir leikhús, er menntuð í myndlist frá Kaupmannahöfn. Kom þaðan aftur heim árið 1980 (bls. 17) og endurbygggði húsið sem hún býr í. Oft kemur fram að hún sé boldangskvendi. Ekki kom til mála að búa í húsi ömmu hennar sem henni virðist hafa staðið til boða. „Það var alltaf hörmulegur andi í þessari íbúð.” (bls. 17) „Amma dó fyrir rúmum fjörutíu árum síðan. Ég henti öllu án þess að muna eftir að hafa gert það […] Allt þurfti að fara á haugana. Allt sem minnti mig á veikindi og vonleysi. ” (bls. 16)
Ellen Álfsdóttir er nítján ára félagsfælin stelpa og droppát (bls. 32). Hún er dóttir hins fræga, nafntogaða og drykkfellda rithöfundar Álfs Finnssonar og Lilju sem var „[n]æstum fjörutíu árum yngri en hann”. (bls. 51) Lilja er líkast til fædd 1976. Ellen er afrakstur hliðarspors Álfs sem „neitaði að skammast sín og æddi með hana [Lilju] í eftirdragi um bæinn, kasólétta, eiginkonu sinni til hrellingar.” (bls. 61) Saga Ellenar er sögð í þriðju persónu. Svona sér Elín hana:
Hún horfði í gaupnir sér, svart hárið huldi hálft andlitið og gljáði fitugt við gulhvíta húðina”.
(bls. 21)
…húðin var nákvæmlega jafn ljós-hvít-límónugræn alstaðar. Einsog óvönduð dúkka. Ef ég ætti að gera vaxmynd af Ellen Álfsdóttur yrði hún gervileg.
(bls. 21)
Hún var klædd í hvítan stuttermabol sem virkaði óhreinn en var að öllum líkindum bara margþveginn og farinn að hnökra. Við bolinn klæddist hún glansandi joggingbuxum sem hægt var að smella á hliðunum, hvítum íþróttaskóm með blárri og rauðri rönd og svörtum lakkskóm.eins og fátæklingur.
(bls. 21-22)
Ef ég klæddi mig einsog Ellen Álfsdóttir yrði ég afskrifuð sem útigangskona á augabragði.
(bls. 22)
Elín og Ellen eru aðalpersónur sögunnar. Þær persónur sem tengjast Elínu og Ellen birtast í harmrænu ljósi. Móðir Elínar varð bráðkvödd. Í því samhengi er töflur og vodka nefnt. (bls.110) Stöðugt er ýjað að þunglyndi, geðveiki, sorg og „[a]ð missa vitið, brotna saman fá taugaáfall [sem] eru forréttindi þeirra sem eiga ástvini.“(bls 125) Móðuramman, sem elur Elínu upp, er undarleg í háttum og ágerast undarlegheitin með árunum (bls. 118). Afi hennar „var skemmtilegasti maður í heimi, fyndnasti, besti maður sem hugsast getur […] Hann hélt framhjá og drakk allar sínar vökustundir“ (bls.106) Faðir hennar var líkast til amerískur hermaður (bls.108)
Svipað er upp á teningnum þegar kemur að Ellen. Móðir hennar gengur ekki heil til skógar. Svona lýsir Elín föður hennar:
Ég fann lykt, heita ágenga, uppsafnaða, gamla lykt af löngum þvældum nóttum, brennivínslegna tóbakslykt. Lykt af járni. Sæta lykt af óreiðu, svefnherbergi og ryki og klofi og höggum, dempuðum, sveittum endurteknum.
(bls. 50)
Elín ýmislegt er fjarri því að vera gleðisaga. Þetta er harmsaga, sorgarsaga.
Víkjum að söguþræði:
Örðugt er að greina eiginlegan söguþráð eða sögufléttu. Ekki er um glæpasögu að ræða. Ýmislegt á síðum verksins mætti túlka sem ráðgátu. Til að mynda fær Elín þær fréttir
„að í gamla húsinu hennar ömmu hefði fundist köld kompa sem hvergi sæist á neinni teikningu og að þar væru þrír kassar”. (bls. 10) Kassar þessir eru kallaðir „óræð tímahylki”. (bls. 23) Í kössunum er að finna ýmislegt sem tengist lífi Elínar.
Í verkinu er stöðugt minnst á fölleitan mann án þess að fram komi hver hann sé. Sá hinn sami sækir kassana á einum tímapunkti (bls. 47) og birtist óvænt í íbúð Elínar. Aukinheldur er margt sem ekki er útlistað. Elín er með ör. Ekki kemur fram hvernig það kom til. Amma Elínar var veik án þess að það sé skýrt nánar. Ekki er heldur tekið fram hvað kom fyrir móður Elínar. Mörgu er haldið leyndu og ekki uppljóstrað smátt og smátt í hverju liggur. Að mörgu er ýjað.
Það er fremur hægt að tala frásagnir og fyrirboða sem mynda á tíðum eins konar púsl. Púsl sem býður upp á mismunandi samsettningarmöguleika og fylgir sumpart einkunnarorðum margra nútímamyndlistarmanna um að upplifun áhorfandans sé uppspretta merkingu verksins. Það á þó ekki fullkomlega við. Verkið tekur, í sem fæstum orðum, á því að missa vitið, geðveiki, því að vera utangarðs og einsemd. Kallast það því máski á við vestrænan tíðarandann sem leitast við að fækka þeim umræðuefnum sem bannhelgi er yfir. Inn í dæmið fléttast einnig karlar sem nýta sér þjónustu vændiskvenna, kynferðisleg misnotkun og hvernig heimurinn er stöðugt á höttunum eftir æsku og ferskleika, ekki snilligáfu. Enginn er þó predikunartónninn. Ekki fæst séð að textinn sé gildishlaðinn.
Línulega séð gæti þetta verið upphaf, miðja og endir:
Í byrjun sögunnar hefir leikstjórinn Hreiðar sem er „orðinn miðaldra og hafði verið þekktur sem vonarstjarna í tuttugu ár” samband við Elínu og biður hana um að vinna með sér að uppsetningu leikrits „unga snillingsins” (bls. 12) Elínar Álfsdóttur. „[H]ann var sennilega orðinn örvæntingarfullur. Vildi gera smell, bleikan hver, eitthvað sem losaði hann við væntingar fólks og tryggði honum öruggan stað. (bls. 12) Í kjölfar þess kynnist hún unga leikskáldinu Ellen, sem þykir forvitnilega fyrir að vera dóttir föður síns, og verður upptekin af henni. Þetta er saga um samband þeirra, hvernig þær tengjast, hvaða speglanir eru á milli þeirra en einnig um konu sem smám saman missir tengslin við veruleikann. Eðli málsins samkvæmt segir Elín frá sjálfri sér í fyrstu persónu. Þegar kemur að Ellen er skipt yfir í þriðju persónu frásögn.
Samantekt:
Verk þetta býður upp á túlkunarmöguleika og tengingar við fyrri verk höfundar. Verk þetta býður upp á súrrealisma, einsemd, sorg, hverfulleika, ósamræmi, ráðgátur og feigð. Verkið má lesa sem eins konar ljóð eða eins konar skáldsögu.