The Disaster Artist fjallar um fæðingu og örlög einhverrar hræðilegustu leiknu bíómyndar í Bandaríkjunum undanfarna áratugi; The Room. The Room er svo fullkomlega léleg að maður spyr sig á ákveðnum tímapunkti hvort hér sé hreinlega listamaður á ferð, eins konar Mr Brainwash kvikmyndaheimsins (Exit through the Gift Shop), The Room fer eiginlega í hring og verður að nokkurs konar költ listaverki. En Tommy Wiseau var þó líklegast alvara með The Room þrátt fyrir ýmiss konar vísbendingar sem gætu gefið til kynna alteregó listamanns eins og til dæmis austur-evrópskur hreimur hans (þótt hann segðist vera fæddur og uppalinn Bandaríkjamaður) og sú staðreynd að hann virðist hafa óheftan aðgang að peningum til hörmulegrar listsköpunar sinnar. Tommy Wiseau er einnig óvanalega aldraður í útliti miðað við uppgefinn aldur. Við skulum gefa okkur, (eins og allir aðrir hingað til) að the Room sé misheppnuð en einlæg tilraun til þess að búa til metnaðarfulla „mainstream“ kvikmynd fyrir bandarískan kvikmyndamarkað. –
Um það fjallar the Disaster Artist.
Plottið
Árið 1998 hittast Greg Sestero (Dave Franco) og Tommy Wiseau (James Franco) á leiklistarnámskeiði í San Fransisco. Leiðbeinandinn skammar Tommy fyrir furðulega túlkun á atriði úr Sporvagninum Girnd en Greg verður yfir sig hrifinn af óheftri og óttalausri tjáningu Tommys og þeir verða vinir. Þeir ákveða að flytja saman til Los Angeles til að verða atvinnuleikarar.
Greg er ráðinn af umboðsmanninum Iris Burton (Sharon Stone) en Tommy er hafnað alls staðar sem hann reynir að komast að í Hollywood. Greg kynnist stúlku sem heitir Amber (Alison Brie) og hann hittir úti á lífinu og þau fella hugi saman en Tommy verður afbrýðisamur út í vinkonuna á sama tíma og ekkert gengur upp hjá honum í leikarastarfinu. Á þeim tímapunkti fer Greg einnig að verða óþreyjufullur eftir frægð og frama og þeir félagar taka þá ákvörðun að Tommy muni framleiða og leikstýra bíómynd með þeim tveimur í aðalhlutverkum.
Tommy tekur til við að skrifa handritið að The Room, tilfinningadrama um ástarþríhyrning á milli bankastarfsmannsins Johnny (leiknum af Tommy), kærustu hans Lisu og besta vinar hans Marks. Greg fellst á, með semingi, að leika Mark og bera titil aðstoðarframleiðanda. Tommy sem er stórtækur leigir heilt kvikmyndatækjaleigufyrirtæki ásamt mannskap og ákveður að skjóta myndina á tvöfalt format, það er, bæði 35 mm filmu og HD video, sem var bæði óþarft og fáránlega dýrt(!). Tækjaleigan útvegar Tommy bæði kvikmyndatökustjóra og handritsráðgjafa og verkefnið hefst.
Allt fer nokkuð vel af stað en fljótlega fer að bera á samstarfsörðugleikum milli Tommys og starfsfólks. Hann er erfiður að vinna með, gleymir eigin texta og fer illa með starfsfólkið, það fær t.d. ekki vatn á settinu. Tommy niðurlægir leikkonuna í aðalhlutverki Juliette Danielle (sem leikin er af Ari Graynor) fyrir tökur á kynlífssenu. Allan tímann er Tommy með heimildarmyndagerð í gangi á bak við tjöldin og hann trúir áhorfandanum fyrir því að allir hati hann og meira að segja Greg líka.
Greg og Amber, kærasta hans, hitta Malcolm in the Middle stjörnuna Bryan Cranston (pabbinn) sem býður Greg að koma á sett til að leika aukahlutverk sem skógarhöggsmaður. Þarna er mikið tækifæri fyrir Greg en Tommy eyðileggur það fyrir honum með því að banna honum að halda alskeggi sem er nauðsynlegt fyrir hlutverkið. Þetta bætir ekki samskiptin og andrúmsloftið og á síðasta tökudegi the Room sakar Greg Tommy um sjálfsdýrkun og eigingirni og upplýsir hann um að hann efist um að hann segi rétt til um aldur sinn og þjóðerni.
Átta mánuðum síðar er Greg hættur með kærustu sinni Amber og Tommy býður honum á frumsýningu The Room. Öllum að óvörum mæta flestir leikarar og starfsfólk. Á frumsýningunni verður öllum ljóst að þetta er algjört flopp og um miðbik myndarinnar liggur salurinn í hlátri sem endist til loka hennar. Tommy brotnar niður og gengur út af sýningunni en Greg fær hann til þess að snúa aftur og hann fer á sviðið í lok myndarinnar og þakkar fyrir góðar viðtökur „á grínmyndinni sinni“ við mikið lófaklapp.
Költmyndin
Myndin the Room floppaði algjörlega og þessi 6 milljón dollara mynd tók inn 18 hundruð dollara í kvikmyndasýningum (myndin var sýnd fyrir nánast tómum sal í tvær vikur til að hún væri gjaldgeng til Óskarsverðlauna(!)). Það sem gerðist síðar er nokkuð ótrúlegt – því sem költmynd uppskar myndin að lokum einhvern fjárhagslegan ábata, þ.e. myndin fór í plús fjárhagslega.
Hér mætti ræða skopmenningu líkt og Mikhaíl Bakhtín fjallaði um á sínum tíma en langt fram yfir miðaldir ríkti hláturmenning eða andmenning, þar sem öll þýðingarmikil verk eignuðust skopstælingu eða andstæðu sína. Þess vegna er það athyglisvert að The Room hafi öðlast költ status, hún er fullkomin andstæða hinnar fáguðu og tæknilega fullkomnu kvikmyndar og eftir algjörlega misheppnaða frumsýningu og fjárhagslegt tap fékk myndin að vissu leyti uppreisn æru vegna vinsælda hennar sem miðnætursýningamyndar. Við Íslendingar mættum kannski taka þetta til okkar, við virðumst ekki vera nægilega menningarlega rík til að við hefjum „slæma list“ á stall.
Niðurstaða
The Disaster Artist er kostuleg mynd og nokkurs konar sjálfsævisöguleg leikin heimild byggð á endurminningum Gregs Sestero úr bók hans My life Inside The Room, The Greatest Bad Film Ever Made. James Franco, leikstjóri The Disaster Artist tekur fyrir nokkrar senur úr The Room og setur þær afar nákvæmlega upp, það má sjá í lok myndarinnar þar sem split screen birtist með upphaflegu senunum á móti þeim nýju, (þetta fannst mér reyndar algjör óþarfi og eiginlega myndinni til minnkunar). Í það heila er The Disaster Artist vel heppnuð mynd um illa heppnaða mynd. Það má þakka góðri persónusköpun og sérstæðu sambandi Wiseaus og Sesteros og svo samskiptum þeirra og samvinnu við illa áttað kvikmyndatökulið og leikara sem skilja hvorki upp né niður í verkefninu.
Heimildir