Hann mætir augnaráði mínu, alvörugefinn og mér finnst á einhvern hátt eins og hann viti af hverju ég sitji í salnum. Það er eins og hann taki mig út, geri upp við sig hvaða dóm ég muni gefa sýningunni og lítur undan.
Sýningin ber hið skrautlega heiti: „Framhjá rauða húsinu og niður stigann“. Samkvæmt undirtitli er þetta skemmtileg sýning um leiðinlegt fólk en ég er ekki viss um að ég sé sammála mati höfundanna á persónum sínum. Vissulega er þetta ekki dyggðugt fólk, þau eru brotin — eins og við öll — en ekki leiðinleg. Mér er nær að halda því fram að einmitt hinir eðlilegu væru leiðinlegir en þessar manneskjur með sín áhugaverðu vandamál og hætti væru skemmtilegri í umgengni en einhver „heilsteyptur“ lögfræðingur, kvæntur hálflífrænni konu, þar sem hið lífræna vegur upp á móti öllu bótoxinu og sílíkoninu; með viðhald sem er rétt að skríða í tvítugt og getur látið bjóða sér kynferðislega smán sem fínni frúr og þriggja barna mæður taka sér ekki einu sinni til munns.
Sviðsmyndin er látlaus í þeim mæli að það er eftirtektarvert. Aðstaðan er gömul hlaða, sviðið er, að maður ímyndar sér, samsuða gamals rekaviðar og ryðgaðra nagla. Engu að síður er ekki að sjá að sýninguna skorti fagmannleika, þvert á móti er lýsing, hljóð og sviðsmyndin — þó kalla mætti hrörlega útlits — fagleg og stingur hvergi í stúf.
Hið einvala lið leikara sem bæði skrifar og leikur verkið valda öll hlutverkum sínum vel. Þau eru hver á sinn hátt eftirminnileg, allt frá ofurhefðbundnu innslagi verksins til ófyrirsjáanlegs endisins er ekki að sjá að nokkur slái feilnótu. Vilhjálmur Bragason er áberandi, þó ekki umfram samleikkonur sínar — þær Birnu Pétursdóttur og Sesselíu Ólafsdóttur — sem eru engir eftirbátar hans. Ég gríp mig að því að hugsa að vegna þess að hann er karlmaður og fékk færi á að beita röddu sinni, svo mér brá og hló taugaveiklunarhlátri, sitji vera hans á sviðinu þannig í mér að ég setji hann í sviðsljósið, svo að segja. Í raun var leikur hans ekki á sama hátt áhugaverður og kvennanna í sýningunni; þær sýndu afar vel hvað í þeim bjó með ögn hóflegri hætti, án oflátungslegra hrópana og litskrúðugs málfars. Ætlunin er þó engan veginn að gagnrýna Vilhjálm fyrir orðaforða sinn eða á hvaða hátt persóna hans tjáir sig. Þvert á móti mætti segja að vegna þess að “skjólstæðingar” dr. Halldórs, með allan sinn litskrúðuga orðaforða og öfundsvert vald á röddu sinni, eru ofurvenjulegar konur í tali og tjáningu — með temmilegan orðaforða og ekki jafn öfgakenndar æskusögur — sé dr. Halldór enn áhugaverðari og áhrifameiri karakter en ella. Verkið finnur jafnvægi sitt í því að vega upp öfgakenndan, heilbrigðan messías hans Vilhjálms upp á móti taugaveikluðum konunum; öll leika þau síðan loftfimleika á þessu vegasalti verksins með listrænum hlaupum milli taugaveiklunar og heilbrigðis.
Í verkinu takast á gríðarleg hreinskilni í flutningi á því hvernig líf í samlyndi við geðsjúkdóm er og sú satíra sem liggur að baki umtali um meðferðarúrræði, orðræðu samfélagsins í garð geðsjúkdóma og viðhorf heilbrigðiskerfisins gagnvart “geðsjúklingum”. Áhorfandinn er sefaður og gerður móttækilegur fyrir þessum upplýsingum: Heilbrigðiskerfinu er ábótavant, geðlæknar voru og eru of gjarnir á að laga andleg vandamál með uppáskrifuðum töflum. Sorglegar staðreyndir eru matreiddar snilldarlega í bland við hláturrokur og undarlegan húmor byggðum á afbökuðum sannleik sem snúið er upp í skrípaleik af sjálfum sér. Fyrri setning hljómar afar illa, eins og eitthvað sem hollywood reynir að gera í hverri viku og mistekst svo hrapalega að satíra er orðið eins konar bannorð. Umskiptingum tekst þó að gera þetta á trúverðugan — eða það sem meira er skemmtilegan — hátt. Þeim hefur tekist að gera verk sem tekur á málefnum sem rík þörf er á að ræða og gera það verk að afþreyingu sem svíkur engan. Eins heilalaus rússíbanareið og sjónvarpið, en jafn merkingarþrungið og góð bók.
Hugsunin í lok sýningar var sú að hér væri á ferðinni ein áhrifamesta sýning leikvetrarins, frumleg og áleitin. Undirritaður á erfitt með að ímynda sér að nokkur sé verr settur fyrir að hafa séð þessa sýningu og meðtaka það sem fram fer á henni. Umskiptingum spáir hann frama og farsæld og bíður spenntur næstu uppsetningu þessa efnilega leikhóps.