Ýmis konar hrollur

um ljóðasafn Jóns úr Vör

Undirritaður er ekki nærri því eins vel lesinn og hann vildi, og þá aldeilis fjarri því að vera eins vel lesinn og hann vildi láta aðra halda! Það kemur því vel á vondan að þurfa að gera þá játningu í upphafi að Jón úr Vör er eitt þeirra skálda sem ég hef þekkt lengi af nafninu en aldrei lesið nema örstutt sýnishorn af hans kveðskap.

Það er þess vegna skemmst frá því að segja að metnaðarfullri útgáfu Dimmu á heildarsafni verka Jóns úr Vör tek ég fagnandi sem tækifæri til að geta kynnt mér verk þessa vel virta skálds, sem mig grunar þó að of fáir hafi lesið að nokkru ráði.

Jón úr Vör átti sér langan skáldaferil og sendi alls frá sér 12 ljóðabækur á tæplega 50 ára tímabili. Þá fyrstu sendi hann frá sér árið 1937, þegar hann var tvítugur að aldri, en þá síðustu árið 1984 orðinn 67 ára. Þar lét hann staðar numið í útgáfu og má alveg velta því fyrir sér hvers vegna, rétt eins og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson gerir raunar í inngangi sínum að safninu. En hver sem ástæðan var þá komu ekki fleiri ljóðabækur út. Gaman er hins vegar að geta lesið í innganginum brot úr pistli sem skáldið skrifaði í Morgunblaðið árið 1986 og sýnir svo ekki verður um villst að hin skáldlega hugsun var sannarlega ekki horfin þó að ekki yrði af frekari útgáfu.

Það er rétt að hrósa þessum inngangi Aðalsteins Ásbergs sérstaklega. Hann er skemmtilegur aflestrar, fræðandi og ekki svo langur eða svo djúpt farið í bókmenntalegar vangaveltur að það eigi að fæla frá þá sem fyrst og fremst vilja lesa til að njóta. Þarna er hæfilegt magn af öllu. Farið yfir æviferil skáldsins, skáldaferilinn, samhengi við samferðamenn í ljóðlist og fleira í mjög aðgengilegum texta sem eykur gildi útgáfunnar heilmikið fyrir hinn almenna lesanda.

Þorpið, ljóðabókin sem kom fyrst út árið 1946, er langþekktasta verk Jóns úr Vör. Hún hefur enda verið gefin út nokkrum sinnum síðan þá, alls í fimm útgáfum eftir því sem ég kemst næst og síðast árið 1999. Þegar ráðist er í að fara í gegnum höfundarverk Jóns úr Vör lítur maður nánast ósjálfrátt svo á að fyrstu tvær bækurnar, þær sem koma á undan Þorpinu, séu bara einhverskonar upptaktur. Skáldið var enda aðeins um tvítugt þegar hann skrifar þær, þær hafa að mestu leyti að geyma háttbundin ljóð og þær standa svo kyrfilega í skugga Þorpsins í huga flestra að ég bjóst ekki við miklu. En strax í fyrstu bókinni, Ég ber að dyrum, er að finna mikla gullmola. Yrkisefnin eru afar raunsæ og Jón hefur strax haft gott lag á að skila yrkisefninu frá sér á látlausan en áhrifamikinn hátt, þótt hann væri að mestu ennþá að vinna innan hins hefðbundna ljóðforms.

Rukkaravísur

Borgin, hún hlær af glaumi, allskyns glysi,
gráta þó hennar börn af svengd og kulda.
– Drukknar mitt ljóð í dagsins ysi og þysi,
dyra ég kveð og rukka þá sem skulda.

Borgin, hún hlær, þó geisi grimmir kuldar,
geta má enginn hennar dýpstu sorga.
Hverjum er færð sú feikna eymd til skuldar?
Fer ekki að koma stundin til að borga?

Eitt er þó afar athyglisvert og það er að titilljóð bókarinnar, það fyrsta sem ber fyrir augu lesandans, er langt, óháttbundið og umfjöllunarefnið einkar hversdagslegt. Einhverskonar forsmekkur, loforð eða hótun skáldsins um að þetta sé það sem koma skal í fyllingu tímans. Rétt eins og í dæminu áðan er yrkisefnið sótt í veruleika skáldsins og starf hans sem rukkari.

Ég ber að dyrum (brot)

Ég er rukkari.
Í morgun hringdi ég dyrabjöllu
eins glæsilegasta hússins í bænum.
Það er húðað utan með hrafntinnu
og tröppurnar eru úr silfurbergsmulningi.

Ung stúlka kemur til dyra,
hún er í ermalausum morgunkjól.
Það er vinnukona.

– Er húsbóndinn við? spyr ég
og hampa reikningnum.
– Nei, hann er nýgenginn út.
Röddin er stoltlaus og þýð.

– En frúin? spyr ég
með hægð eftir hikandi þögn.
– Ekki heldur,
og brosir.
Ég þakka, tek ofan hattinn
og hneigi mig
– Sælar, hvísla ég.
– Sælir.

Um leið og ég loka hliðinu
lít ég snöggvast til baka,
hún stendur þá ennþá í dyrunum,
brosir til mín bláum augum
og rauðum vörunum.

Vel má taka undir það sem Aðalsteinn Ásberg segir um aðra ljóðabókina. „Stund milli stríða lætur ekki mikið yfir sér, er að felstu leyti rökrétt framhald af fyrstu bók skáldsins, og alls ekkert átakaverk.“ Við lesturinn er maður sannast sagna farinn að bíða eftir að komast í Þorpið, sem er vitaskuld almennt viðurkennt að sé höfuðverk höfundarins.

Spurningin er síðan, hvernig stendur sú bók undir því orðspori?

Svarið er, fullkomlega og rúmlega það. Þorpið er frábær ljóðabók sem afvopnar mann gjörsamlega. Lágstemmdar lýsingarnar á lífinu og fátæktinni á uppvaxtarárum skáldsins ná ennþá til manns. Kannski eru þær meira sláandi nú en þegar bókin kom út, í ljósi þess að þessi veruleiki er okkur fjarlægari í dag. Þorpið er tímamótaverk, að sögn fyrsta ljóðabókin sem út kom hér á landi sem aðeins hafði að geyma óháttbundin ljóð, en er líka verk sem eldist vel og það sama má reyndar segja um drýgstan hluta af höfundarverki Jóns upp frá henni.

Útmánuðir

Og manstu hin löngu,
mjólkurlaus miðsvetrardægur
útmánaðatrosið
bútung, sem afvatnast í skjólu,
brunnhús
og bununnar einfalda söng
báta í nausti
og breitt yfir striga,
kindur í fjöru,
og kalda fætur,
og kvöldin löng eins og eilífðin sjálf,
oft var þá með óþreyju beðið
eftir gæftum
og nýju í soðið.

Og manstu
eitt kvöld undir rökkur.
Þú stóðst í fjöru með fóstru þinni.
Þið horfðuð með ugg á frosna hlunna,
út á fjörðinn,
til himins, –
þið áttuð von á litlum báti fyrir eyrarodda,
en hann kom ekki.

Og rökkrið varð að þungu myrkri með veðurhljóði,
þögn
og tárum í kodda,
og þú sofnaðir einsamall í of stóru rúmi.

Og manstu
gleði þína á miðri nóttu,
er þú vaknaðir við, að á koll þinn
var lagður vinnuharður lófi
og um vanga þinn
strokið mjúku og hlýju handarbaki.
Fóstri þinn var kominn
– og kyssti þig, er þú lagðir hendur um háls hans.
Og það var enn kul í sjóvotu yfirskegginu.

Og næsta morgun var blár steinbítur
á héluðum hlaðvarpasteini,
og sól sindraði í silfri ýsuhreisturs, –
og hamingja í húsi fátæks manns.

Ég veit ekki um ykkur, en það hríslast um mig ýmiskonar hrollur við að lesa og skrifa þetta ljóð niður. Það hefur áhrif á mig og það sama má segja um mörg ljóðanna í Þorpinu. Betri meðmæli er held ég ekki hægt að gefa.

Þegar þarna er komið við sögu er Jón úr Vör ekki orðinn þrítugur, búinn að senda frá sér fjórðung af höfundarverki sínu og dómur bókmenntasögunnar, í það minnsta eins og hann birtist almennum lesanda, er sá að þarna sé toppnum náð. Það er sumpart heldur napurlegt og eiginlega alls ekki sanngjarn dómur. Það verður eiginlega alveg ljóst þegar maður skoðar þær bækur sem á eftir koma. Jón úr Vör heldur nefnilega áfram að þróast sem skáld og senda frá sér frábærar bækur. Sérstaklega langar mig að nefna þar til sögunnar bækurnar sem koma á sjöunda áratugnum. Vetrarmávar, sem kom út 1960, Maurildaskógur frá 1965 og Mjallhvítarkistan sem kom út 1968. Í þeim er bæði að finna enn knappari óháttbundin ljóð en áður höfðu komið frá skáldinu, en líka lengri prósar. Mörg af þessum knöppu ljóðum eru mjög eftirminnileg.

Íslendingur

Markaskrá
úr Langadal
Húnaþingi
1888.

Stækkunargler:
Gimli
Vesturheimi.
Titrandi hendur.

Og svo maður haldi sig á svipuðum slóðum fyrir norðan:

Vatnsdalshólar

Sakamannshöfuð
hefur sofið í þessum mosa
í tvær aldir.

Átta puntstrá
standa öll sumur;
eins og hljóðir líkmenn
við ósýnilega kistu.

Eins og eðlilegt hlýtur að teljast þá höfðar efni bóka Jóns úr Vör ekki allt til mín. Enda væri það einkar óeðlilegt ef svo væri. En heilt yfir þá eru bækur hans sannarlega þess virði að lesa fyrir ljóðaunnendur og gildir þá einu hvort um er að ræða þær elstu, yngstu, eða eitthvað þar á milli. Gæði skáldskaparins eru mikil í gegnum allan ferilinn. Það var heldur ekki að ástæðulausu sem að síðasta bókin, Gott er að lifa, sem út kom árið 1984 var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Dulargervi

Allt er það
á eina bókina lært,
sagði öldungurinn.
Nú er ekki einu sinni
gaman að pissa
í sólskini.

En ég veit
að þessi ellibelgur
er aðeins dulargervi.
Einhvern morguninn
mun ég á ný
stökkva úr þessum
ónáttúrulegu tötrum
og hampa æsku minni.

Ég læt hér alveg vera að velta fyrir mér stöðu Jóns með hliðsjón af öðrum skáldum honum samtíða, eða pólitískum skoðunum hans og boðskap í ljóðunum. Það er ágætlega farið yfir þetta í inngangskafla ljóðasafnsins og ég get engu bætt við það. Eins hef ég ekki sérstaklega minnst á ljóðaþýðingar Jóns sem eru snar þáttur í höfundarverki hans og ekki síður auðvitað akkur í því að hafa þessar þýðingar nú aðgengilegri en áður og geta í gegnum þær kynnst skáldum frá ýmsum heimshornum. En ég læt duga að leggja áherslu á upplifun mína af frumortu efni hans. Sú upplifun er sannarlega góð. Ég er raunar alveg heillaður.

Annað sem ég ætla ekki að velta mér upp úr hér er hvaða áhrif Jón úr Vör hefur haft á íslensk ljóðskáld sem á eftir honum hafa komið. Ég get einfaldlega ekki sagt of mikið um það. En þó rennir mann í grun að þessi áhrif geti talist býsna mikil. Þó ekki væri nema fyrir það hversu nútímalegt manni finnst margt í hans kveðskap. Mörg ljóðanna gætu sem best verið að koma út í dag úr penna skálda sem sum voru ekki fædd þegar síðasta ljóðabók Jóns leit dagsins ljós. Það hlýtur að benda til þess að eftir Jón úr Vör standi einhver arfleifð sem er nú orðin einkar aðgengileg og skáld almennt gerðu vel í að kynna sér.

Það er greinilegt að vandað hefur verið til verks við útgáfuna. Ekki verður annað séð en að um sannkallað heildarsafn sé að ræða. Eitthvað var þó um að bækur Jóns tæku breytingum við endurútgáfu, einhverju væri sleppt en öðru aukið við. Það var hlutverk útgefenda hér að ákveða í hvaða formi bækurnar birtust og er gerð ágæt grein fyrir því í inngangi. Hér virðast þó ekki fylgja fjögur ljóð sem samkvæmt athugasemd í Gegni birtust með rithönd höfundar aftast bókinni Vetrarmávar. Ekki lagði ég í að kanna það mál nánar en læt það öðrum eftir. Það getur verið ágætur ratleikur fyrir áhugasama að kanna hvort þessi ljóð birtast í öllum eintökum af þeirri góðu bók eða aðeins sumum. Þau virðist að minnsta kosti ekki að finna í ljóðasafninu.

Vel hefur tekist til við uppsetningu og frágang. Bækurnar eru fallegar og gaman að handleika þær. Fara vel í hillu en maður er að sama skapi ekkert feiminn við að lesa þær og handfjatla. Það eina sem má segja þeim til lasts er að manni sýnist að eitthvað hafi einkennilega tekist til með gyllingu á kili bókanna sem kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir. En þetta er orðinn sparðatíningur!

Jóni úr Vör hefur verið ýmiss sómi sýndur í gegnum tíðina. Kópavogsbær hefur gert einstaklega vel í að halda nafni hans á lofti í gegnum árlega ljóðasamkeppni, Ljóðstaf Jóns úr Vör, sem allir ljóðaunnendur og ljóðskáld ættu að kannast við. Það er fallegur minnisvarði um mann sem átti svo langan og farsælan feril. Nú má segja að annar minnisvarði hafi verið reistur og ekki síður mikilvægur til þess að tryggja það að verk skáldsins séu aðgengileg á einum stað. Þannig varðveitist ekki aðeins nafn hans heldur líka sú sýn og fagurfræði sem hann bar á borð Íslendinga í hálfa öld og á sannarlega fullt erindi til þeirra í dag.