ugla sat á kvisti
átti börn og missti
eitt, tvö, þrjú
og það varst þú
Hver á að byrja í leik, hver verður hann, og hver aldrei? Uglan ræður, ugla sem situr á kvisti. Og missir börn. Þessi þula eða úrtalningavísa sem krakkar nota til þess að velja þann sem fær að byrja leik hefur yfir að geyma óendanlegan harm sem enginn tekur eftir. Ekki fyrr en lítil ljóðabók að nafni Flygildi setur þuluna í nýtt samhengi og nefnir: „Dulið fósturlát“. Skyndilega rennur það upp fyrir manni hve tilviljanakennt það er að vera til. Og ekki aðeins það, heldur einnig hve lífið og dauðinn rennur um æðar okkar; okkar kvenlíkama sem njótum ásta, reynum að verða óléttar – eða ekki. Okkar kvenlíkama sem líður eitthvað skringilega og komumst að því eftir á að lítið líf hefur rofnað í sköpum okkar. Eða komumst aldrei að því.
Hversdagslegar og staðsettar lýsingar á Íslandi 2016 blandast saman í Flygildi við vangaveltur um eilífðina og stóru spurningarnar sem láta mann standa á öndinni. Bókin er lítil og falleg og ég hef notið hennar þegar ég kem heim þreytt og næðislaus með einhver sjónvarps-, síma- eða tölvuhljóð í bakgrunni og lítinn snáða að reyna að borða allan pappír sem ég legg frá mér. Á þeim stundum sem maður hefur ekki næði til að njóta fegurðar nema einmitt í ljóði. Ég kann virkilega að meta hönnunina, blátt letrið kemur fallega út á gulleitum pappírnum.
Móheiður fléttar listilega vel saman náttúrulýsingum og lýsingum á samfélagsafurðum okkar tíma. Eins og eftirfarandi línur í „Snjónótt í Norðurmýri“ sanna:
nóttin sem snjórinn hætti aldrei að falla
pappírstætarinn á yfirkeyslu
hægt og örugglega falla snjókornin.
Hún lýsir ennfremur þessu litla, „sóðalega“ sem fylgir því að vera líkami, sem blasir við manni á hverjum degi en enginn talar nokkurn tímann um. Þetta kemur glögglega í ljós þegar hún lýsir blettatígnum sem myndast hægt og hljótt á Ikea-dýnunni þegar nýir rauðir blettar blandast eldri brúnum í „Hjónarúminu“.
Það er tilvistarangist í ljóðunum en angist sem nístir mann ekki inn að beini, heldur er hlý og elskandi. Smæðin í sköpunarverinu kallar fram spurningar en heimurinn er fallegur. Tjáningarþörf í formi ljóðlistarinnar er líka gegnumgangandi þema þar sem Móheiður bæði afhjúpar þrána eftir einhvers konar viðurkenningu í formi útgáfna eða rithöfundarsambands-sumarbústaða en líka bara ástríðuna fyrir því að hella út úr sér orðum, tilfinningum og lýsingum og pússa til innan ljóðaformsins. Ég skildi ekki öll ljóðin en það er ekki alltaf þannig að ljóð nær að miðla stemningunni sinni til allra lesanda. Ég er enn ekki viss um hvað flygildi er en ég fékk það á tilfinninguna að það væri einhvers konar gervihnattar- eða internet-straumar sem flögra yfir okkur svo þú, lesandi góður, geti lesið þessa grein eftir að hafa smellt á linkinn af facebook, eins og Móheiður vísar til í ljóðinu „Flygildi“.
Að lokum vil ég gleðjast yfir ljóðinu „Þynnka“ með öllum þeim sem tengja strax við þessar lýsingar Móheiðar ☺ :
smátt og smátt minnkaði ég og varð að sandkorni
sem flaut um alheiminn í hjónarúmi
innyflin segulkrafturinn
sem ríghélt mér með krömpum
hausinn stjörnulaga
bólan á rassinum
farin að snúast um mig eins og tunglið mitt í fyllingu
geimferðaáætlun ríkisins mistókst lendingin