Þýðing: Jón Bjarni Atlason

Táraverksmiðjan

Enn á ný sýna ársskýrslur
að framleiðsluafköstin eru mest
í táraverksmiðjunni.

Á meðan samgönguráðuneytið hopaði á hæl
og ráðuneyti hjartans mála
barðist um í geðshræringu
starfaði táraverksmiðjan dag og nótt
og á helgidögum voru meira að segja slegin ný met.

Á meðan fæðumeltingarstöðin japlaði
á hörmungum dagsins
tók táraverksmiðjan upp nýja og hagkvæma framleiðslutækni
við að endurvinna sorp fortíðarinnar –
aðallega minningar.

Ljósmyndir af starfsmönnum ársins
voru hengdar upp á grátvegginn.

Ég er móttakandi örorkubóta hinnar frækilegu táraverksmiðju.
Ég hef bólgur í hvörmum
og opin beinbrot á vöngum.
Greiðslur til mín stýrast af framleiðslugetu minni.
Ég er sátt við mitt.

Birtist fyrst í Jóni á Bægisá, tímariti um þýðingar (15/2016)