Ég fer sjaldan í leikhús af þeirri ástæðu einni að ég hef lítið búið í Reykjavík um ævina og flestar leiksýningar fara ekkert út fyrir borgarmörkin. Við erum bara ekki nógu oft í sama lífhvolfinu, ég og allar leiksýningarnar, og þetta kúltúrland er stundum dálítið allt á sama blettinum. Þar sem ég hef búið erlendis hefur síðan mishár tungumálamúrinn varnað mér sýn – ég hef haft takmarkaða þolinmæði fyrir sýningum á til dæmis finnsku og víetnömsku (og já, ég hef heyrt ræðuna um að maður geti alveg haft gaman af leiksýningum án þess að skilja tungumálið) og varla nennt heldur í Svíþjóð eða Þýskalandi.
Tungumálamúrinn ætti hins vegar ekki að hafa neitt um danssýningar að segja. Tungumál líkamans er sennilega ekki alþjóðlegt, ég geri a.m.k. ráð fyrir að það sé að miklu leyti menningarlega staðbundið, en kunnátta í því er engu að síður áreiðanlega að miklu leyti instinktíf. Maður lærir það fljótt ef maður starir nógu stíft og maður skilur alltaf eitthvað í því, þótt maður skilji ekki allt. Á þetta treysti ég. Enda talar það fólk sem ekki á neina sameiginlega tungu saman með útlimunum.
Það sem ég vildi sagt hafa: Ég hef enga sérstaka afsökun fyrir því að ég skuli ekki hafa farið á danssýningu um ævina, sem ég hef ekki gert ef frá eru taldar tvær sýningar þar sem ég hef farið að sjá börnin mín dansa – 3 og 7 ára – það bara æxlaðist þannig. Ef gengið er út frá því sem vísu að gagnrýnandi eigi að hafa til að bera eitthvert sérfræðivald í þeirri listgrein sem hann fjallar um – eigi helst að hafa stúderað hana árum saman og séð allt það helsta sem formið hefur upp á að bjóða – er ég sem sagt algerlega úti að aka.
Þá er það sagt. Nú látum við einsog það skipti engu máli og höldum áfram ótrufluð í fögnuði andverðleikasamfélagsins. Ég er ritstjórinn, Trump þessa menningarblaðs, og ég geri bara það sem mér sýnist.
Kreditkortanúmer og kynlífsveislur
Ég man ekki kennitöluna hennar Sigríðar Soffíu Níelsdóttur, dansara og danshöfundar FUBAR, nema mig minnir að hún sé fædd 1985. Ég man ekki heldur kennitölu dóttur hennar, en hún var áreiðanlega fædd 2014. Ég man ekki kreditkortanúmerið hennar eða pinnúmerin, nema í öðru þeirra var sama talan endurtekin í þrígang. Það var ekki 666 samt, það hefði ég sennilega munað.
Sigríður hóf sýninguna í menningarhúsinu Edinborg á Ísafirði – af öllum stöðum, óralangt frá höfuðborginni! – síðastliðið laugardagskvöld, á því að þylja upp þessar tölur, sem hún man aldrei sjálf, og lauk henni svo á að endurtaka þær áður en hún sendi okkur heim. Sennilega eigum við öll nóg með að muna okkar eigin tölur, að við förum ekki að bæta á okkur tölum annarra. Það gæti áreiðanlega komið sér vel einhvern daginn að muna kreditkortanúmer dansarans – fyrir árið 2020 samt, því þá rennur það út, þetta man ég – en ég bý bara ekki svo vel, annars gætum við bara deilt því. Ég hugsa að Starafugl gæti snapað marga smelli út á að birta kreditkortanúmer (við erum alltaf að reyna að snapa smelli, þið megið endilega deila þessari grein, og öllum hinum líka, þótt hér séu ekki nema brotabrot úr kreditkortanúmerum misríkisstyrktra listamanna).
Ef þetta var þá rétt númer. Sigríður Soffía virkar björt og ærleg og kannski nógu flippuð til þess að hún myndi í alvöru segja manni kreditkortanúmerið sitt á sviði. Maður fær það á tilfinninguna að þetta gæti allt verið satt. En það væri líka misheppnaður skáldskapur og klúðursleg lygi ef svo væri ekki. Við verðum að trúa því að hún komi í raun fram nakin, að við séum þarna á trúnó. Og sennilega gerum við það flest, að minnsta kosti á meðan að á sýningunni stendur.
Nema hvað.
Þegar búið var að þylja upp þessar tölur, sem voru annað hvort sannar eða lognar, eftir því hversu mikið hún treystir okkur í raun, sagði Sigríður Soffía okkur nokkrar aðskildar sögur úr lífi sínu, sem voru annað hvort sannar eða lognar, eftir því hversu mikið við treystum henni í raun. Sögurnar sem fjölluðu um reynslu hennar af kynlífsklúbbum í Berlín, verndargripum og velunnurum, kýlum og kláða, barneignum og hryðjuverkum, spönnuðu kannski ekki gervallt litróf tilfinninganna, frá gleði til sorgar til ótta til losta til aðdáunar og aftur til baka, en ansi mikið samt, og sennilega eins mikið og maður ræður við á rétt rúmri klukkustund.
Saga af laskaðri konu?
Verkið – bæði sögurnar í upphafi og svo dansinn sem tekur við – mætti sennilega skilja sem verklega tilraun í áðurnefndu litrófi tilfinninganna. Líkt og í sögunum taka ólíkir dansstílar fyrirvaralítið hver við af öðrum. Þegar sagnamennskuhluta sýningarinnar lýkur stígur tónlistarstjóri, tónskáld og píanóleikari, Jónas Sen, inn á mitt sviðið til Sigríðar og þau hreyfa sig varlega í hálfgerðum qi gong / jógahreyfingum. Jónas lætur sig hverfa þegar hreyfingarnar verða æstari, breiðast út í eitthvað sem er sennilega erkitýpískur nútímadans, morfast út í það sem ég ímynda mér að séu crossfit æfingar og sýningin vendir svo kvæði sínu í kross og gerist hefðbundinn ballett í eitt augnablik, sem brotnar svo niður í eitthvað brotakenndara.
Titill sýningunnar – FUBAR – er gripla (e. acronym) sem á uppruna sinn í bandaríska hernum og merkti upprunalega (árið 1944) „fouled up beyond all recognition“ – síðar varð þetta fouled að fucked – eða „svo laskað/fokkað að það er óþekkjanlegt“.
Það væru ýkjur að segja að sýningin eða aðalsöguhetjan – Sigríður Soffía sjálf – væru FUBAR, svo löskuð að maður treysti sér ekki til að bera kennsl á þau. Nú felur hugmyndin um að bera kennsl á eitthvað auðvitað í sér samt að maður viti hvernig þau voru áður en sýningin hófst, en niðurbrotið eða afbyggingin í sjálfri sýningunni er í það minnsta hvergi nærri nóg til að réttlæta svo stór orð. Þvert á móti virkar sýningin á mann sem aristótelísk heild með uppbyggingu, risi og jafnvel einhvers konar uppgjöri – Sigríður Soffía hreinlega lifir af til að dansa annan dag – eða jafnvel enn fremur sem nokkrar samþræddar aristótelískar heildir, sem saman segja sögu af lífsþrá og óttanum við afskræmingu, þjáningu og dauða. Hún er ekki verri fyrir vikið, nema að svo miklu leyti sem mér fannst titillinn ýmist óþarfur eða truflandi.
Og kannski er það bara heilinn í manni sjálfum sem les aristótelískar heildir í allt. Maður er náttúrulega ekkert lítið skilyrtur. Kannski er þessi kona alveg handónýt og verkið óþekkjanleg afskræming af því sem það ætti að vera.
Ljóðið í dansinum
Dansverk byggja alltaf á trausti, jafnvel þegar þau fylgja ekki sagnaþráðum og reyna að fá okkur á trúnó, vegna þess að þau eru – einsog ljóðlistin, sem ég þekki betur en dansinn – alltaf að miklu leyti abstrakt. Að yrkja ljóð er að beita tungumálinu einsog það væri ekki verkfæri til þess að miðla upplýsingum – að nota orðin í einhverjum öðrum og annarlegri tilgangi. Maður skilur ekki ljóð vegna þess að ljóð hafa ekkert með skilning að gera. En það er eitt verkfæri sem er yfirskipað sjálfu tungumálinu, verkfærið sem bjó til tungumálið og er öll hin verkfærin – fingurnir og fótleggirnir og augun o.s.frv. – þ.e.a.s. líkaminn.
Við erum vön því að líkaminn geri gagn einsog við erum vön því að tungumálið segi eitthvað tiltekið. Í dansinum er þetta lögmál svikið og líkaminn reynir að komast undan túlkun og skilningi og verða hrein upplifun (og kannski þarf hann ekkert að reyna, kannski er honum eðlislægt að vera illtúlkanlegur og abstrakt, þegar hann er ekki að verkfærast).
Einn af stóru kontröstunum í FUBAR er milli fyrri hluta – hins áþreifanlega – og seinni hluta, sem er eins konar tilfinningaleg upplausn.
Sagnamennska og þorparar
Sagnamennskan lýtur hins vegar öðrum (þveröfugum?) lögmálum en dansinn. Þar er tungumálið fyrst og fremst verkfæri til þess að flytja upplýsingar og listfengi sögunnar er ekki fólgið í abstraksjónum tungumálsins heldur þeim hugrenningatengslum og tilfinningum sem upplýsingarnar kveikja. Kannski fannst einhverjum nóg um – að þetta „blaður“ væri „dans“ sýning (það var ekkert „dansað“ fyrstu 20-30 mínúturnar), og kannski fannst einhverjum miður að ekki hefði verið varað við blautlegum lýsingum úr þýskum kynlífsklúbbum eða af hryllilegum fjöldamorðum í París (það voru börn niður í 6-7 ára í salnum) – en sennilega er formið nú þegar svo þanið að maður býst varla við öðru.
Að minnsta kosti einn gekk út – ég sá það ekki gerast en ég sá tónskáldið tala um það á Facebook strax að lokinni sýningu, sem er auðvitað merkilegt; að hlaupa heim til að leggja börnin (sem voru ekki á danssýningunni heldur heima hjá bróður mínum að horfa á Steypustöðina), kveikja síðan á tölvunni og átta sig á því að sýningunni er ekki lokið, fólk er enn að ganga út. Ég veit meira að segja hver það var sem gekk út, þótt það hafi farið framhjá mér þegar það gerðist. Það sem fer framhjá manni í raunveruleikanum blasir við á Facebook, þar er það undirstrikað og lækað í sex ólíkum tilfinningabrigðum.
En þá ber líka að hafa í huga, svo við missum okkur ekki í smábæjarfordómum, að allir hinir sátu kyrrir, það best ég gat séð, þar með taldir foreldrar með börn sín, og þau Sigríður og Jónas voru klöppuð upp í þrígang, verðskuldað. Svona getum við þorpararnir verið nú kúltíveruð, þegar við viljum vera það.
Þetta var nú gaman
FUBAR á það skilið að um hana verði eitthvað sagt hérna sem hægt er að vitna í. Einhver útlistun sem reynir ekki að vera vitsmunaleg heldur tilfinningaleg, og þar af leiðandi ekki bull úr vanhæfum gagnrýnanda, heldur heiðarlegt viðbragð (það þarf ekki sérfræðigáfu til að hrífast eða fælast, til þess þarf bara lágmarkshjarta).
„Þetta var nú gaman“, sagði vinkona mín, sem hafði verið skeptísk, þegar við komum út úr salnum. En það er nú varla neitt sem maður getur vitnað í í auglýsingum og sennilega hefði hún tjáð sig í meiri upphrópunarstíl ef hún ætlaði að tjá sig opinberlega. Hún brosti líka út að eyrum þegar hún sagði þetta. Brosið var áreiðanlega upp á fjórar ef ekki fjóra og hálfa stjörnu. Einhvern tíma var sagt að það að skrifa um myndlist væri einsog að spila á saxófón um skáldsögu – og kannski er einmitt eðlilegasti dómurinn um danssýningu bros (eða fýlukall). Bros er þess utan stálheiðarlegt dansmúv.
Nema hvað. Til að segja eitthvað frá eigin brjósti.
Sigríður er ofsafenginn dansari sem hefur ekki bara impónerandi ægivald yfir líkama sínum heldur ekki síður magnaða tilfinningu fyrir uppbyggingu, skáldskap, ljóðrænu, tónlist og drama. Hún er dágóð leikkona, frábær sagnamaður og með fallega söngrödd, hefur til að bera kynþokka rokkstjörnu og tímasetningar góðs uppistandara. Tónsmíðar Jónasar eru til mikillar fyrirmyndar, þjóna sínu hlutverki vel, þótt þær myndu kannski ekki njóta sín jafn vel án umgjarðarinnar – grunar mig – en umgjörðin ekki heldur án þeirra, þetta eru allt púsl í sömu heildinni og allt passar fallega saman. Þá er fallegt að sjá hann dansa með Sigríði, það undirstrikar þema sýningarinnar, þennan berskjaldaða en tígulega vandræðaleik.
Mér finnst ósennilegt að öll dansverk séu svona góð, og skilst á fólki sem hefur séð önnur, jafnvel ótalmörg, að svo sé bara alls ekki. Og „já, þetta var nú bara mjög hressandi“, einsog ég held að ég hafi svarað áðurnefndri vinkonu minni.