Heimurinn er fullur af góðu fólki sem fremur ill verk. Í einni skáldsagna sinna leggur Agatha Christie þessi orð í munn prívatspæjaranum Hercule Poirot, þeim einstaka og áhugaverða karakter sem er trúi ég uppspuni frá rótum. Poirot er höfundarverk maddömu Christie og hefur margsinnis verið endurskapaður í meðförum þeirra leikara sem farið hafa í hlutverk hans. Á þeim vettvangi finnst mér David Suchet fremstur meðal jafningja.
Þessu er ekki alveg svona varið í sýningu Þjóðleikhússins á Góðu fólki, leikverki byggðu á samnefndri bók Vals Grettissonar. Bók Vals hef ég ekki lesið. Mér var raunar meira en nægilegt að hlusta á leikara Þjóðleikhússins fara með texta upp úr bókinni í rúma tvo klukkutíma. Það leyndi sér ekki fannst mér að það sem þar var sagt væri sótt í raunveruleikabloggið og ég fékk staðfestingu á því að svo er eftir að ég gúgglaði nafn Hauks Más Helgasonar og sá nokkrar veffærslur hans. Orðin í bloggi hans minntu ógnarmikið á það sem sagt var á sviðinu í Kassanum.
Gott fólk fjallar um ofbeldi og svokallað ábyrgðarferli brotamanna. Blaðamaðurinn Sölvi Kárason hefur ofboðið sambýliskonum sínum og hjásvæfum kynferðislega án þess að gera sér almennilega grein fyrir því að hann hafi beitt þær ofbeldi. Þegar sú síðasta í röðinni sem Sara heitir gengur býsna vasklega fram í því að fá manninn til þess að horfast í augu við gerðir sínar tekur hann þann kost að játa brot sín og hefja ábyrgðarferli, ferli sem reyndar á að fara fram á þeim forsendum sem hún krefst en ekki að hans eigin vali.
Hvenær drepur maður mann?
Ofbeldi af öllu mögulegu tagi er ógnarstór hluti af hversdagsveruleika alls mannkyns og enginn endir er þar á að því er séð verður. Sumir eru dæmdir fyrir ódæði sín en lögin ná ekki til annarra vegna þess að þau einfaldlega taka ekki til sumra ofbeldisverka. Á þetta er margbent í leiksýningu Þjóðleikhússins á Góðu fólki en ég efast satt að segja um að í hópi áhorfenda hafi verið nokkur maður eða kona sem lærði eitthvað nýtt af þeim endurtekningum öllum. Það sem bók Vals Grettissonar og leiksýning á henni byggð hins vegar gerir er að snerta rétt aðeins við því stóra efni sem tengsl ástar og ofbeldis geta verið. Úrvinnslan úr því þema er hins vegar hvorki sérstaklega burðug né minnisstæð.
Þar sem ég sat og horfði á þessa leiksýningu hvarflaði hugur minn til Antonins Artaud og hugleiðinga hans um grimmdina. Grimmd er í meðförum Artaud skapandi kraftur en ekki eyðileggjandi afl og hann segir okkur á býsna sannfærandi hátt að engin sköpun geti átt sér stað án snefils af grimmd. Þetta skrifa ég ekki til þess að réttlæta ofbeldi Sölva Kárasonar gegn konum í leiksýningunni sem hér er drepið á heldur til þess að undirstrika hversu stutt getur verið á milli skapandi iðju og eyðileggingar. Þetta fær Sölvi Kárason að reyna því að hann hefur ekki fyrr gengist við sínum verkum og vill reyna að takast á við gerðir sínar á skapandi hátt en upphefst ógnarlegt andlegt ofbeldi gagnvart honum.
Og hvenær drepur maður ekki mann?
Ofbeldið er yfir og allt um kring og það er mjög sjaldan sem maður er ekki að drepa einhvern eða er að minnsta kosti óafvitandi virkur þátttakandi í dauða einhvers. Eins og aðrar leiksýningar í Þjóðleikhúsinu hófst sýningin á Góðu fólki á því að gestir í salnum voru áminntir um að slökkva á símunum sínum og þess getið að ljósablikk frá slíkum tækjum gætu truflað aðra gesti. Áhorfendur urðu vel við þessum tilmælum og mátti þá sjá margan snjallsímann hafinn á loft í salnum. Eins og ævinlega við þessar aðstæður reikaði hugur minn til barnanna í kóbaltnámunum í Kenýa (mig minnir að aðalnámugröftur kóbalts sé þar en kannski er það í einhverju öðru Afríkulandi) sem strita daginn langan við þröngan kost og eru blátt áfram lamin áfram við vinnuna til þess að gestir Þjóðleikhússins geti kíkt á snjallsímana sína strax í hléinu og tvittað og instagrammað fjandann ráðalausan strax og sýningu lýkur. Allt þetta fólk með snjallsímana er meðvirkir ofbeldismenn og ætti umsvifalaust að bregða sér í ábyrgðarferli. Ég líka því að þótt ég af pólitískri meðvitund hafi strengt þess heit að kaupa aldrei svona græju þá geri ég mér grein fyrir því að þessi orð eru send úr spjaldtölvu sem inniheldur kóbalt og flestir sem lesa pistilinn brúka til þeirrar lestrariðju svipaða gripi.
Kóbaltið í Kenýa og framferði tölvurisannna er bara eitt dæmi um það ógnvekjandi andlega ofbeldi sem við flest hver verðum fyrir án þess að krefja gerendur um að gangast undir ábyrgðarferli. Við heyrum öðru hverju smáfréttir um svipaðar aðstæður og börnin í kóbaltnámunum búa við en þeim er ekkert sérstaklega mikið haldið á lofti í fjölmiðlum eða netheimum. Aðrir ofbeldismenn fá þar meira rúm og undir þá er hlaðið með síendurteknum frásögnum af ofstæki þeirra og ótrúlegri bíræfni í orða- og athafnavali. Það er engu líkara en fólk og fjölmiðlar hafi gaman af svona skrattagangi. Hið sama virðist hafa átt við um sögu Hauks Más Helgasonar sem er að einhverju leyti endurgerð í Góðu fólki. Fjöldi manns hafði greinilega af því drjúga dægrastyttingu að velta sér upp úr meintum verknaði hans. Og það svo mjög að Þjóðleikhúsið tekur bók Vals Grettissonar upp á sína arma og býður til sýningar á ofbeldismanninum og afleiðingum gjörða hans.
Stolið efni og sviplítill leikur
Nú er rétt að það komi fram að Haukur Már Helgason er einn af pennum og hönnuðum Starafugls og þess vegna spurning hvort það sé við hæfi að annar af pennum vefsins fjalli um sýninguna á Góðu fólki. Um það efni hef ég það eitt að segja að nafn Hauks Más var mér var alls ókunnugt svo og öll forsaga bókar Vals og leiksýningar Þjóðleikhússins þegar ég fór að horfa á frumsýninguna í Kassanum á þrettándakvöld. Ritstjóri vefsins hafði að vísu varað mig við því að leikritsefnið tengdist miðlinum en ég fór ekkert að grafa í þetta fyrr en ég hafði séð sýninguna.
Sem betur fer. Því hefði ég verið búinn að lesa færslur Hauks Más á vefnum áður en ég fór í leikhúsið hefði ég átt enn verra með að sætta mig við hvernig þar var unnið úr efninu. Mér fannst sýningin óskaplega orðmörg og endurtekningasöm og lítið gert til þess að reyna að kafa í persónur og sögu þeirra. Umgjörð sýningarinnar er reyndar ekki slæm. Allt hið efnislega var þarna í svörtu og pínulitlu hvítu. Með þessu ólitavali – mér var kennt að hvítt og svart væru ekki litir – undirstrikar Eva Signý Berger að það ofbeldi og eftirmálar þess sem sagt er frá í Góðu fólki er ekki alveg jafnsvarthvítt og mörg góð manneskjan vildi helst vera láta. Mér fannst það líka koma vel út að klæða alla leikarana í samskonar svarta búninga og afklæða þá þannig miklu af þeirra einstaklingseðli. Með búningahönnun sinni bendir Eva Signý okkur mjög kurteislega á að við séum öll meira og minna sek og samsek í hvers konar ofbeldi.
Á bakveggnum blasti við nær alla sýninguna vídeóverk sem var misþétt tengt við það sem var að gerast á sviðinu – eða réttara sagt það sem á sviðinu var sagt því að þar gerðist ekki ýkja margt. Þessi sjónlist virkaði oft vel en þegar á leið fannst mér hún stundum fremur trufla sýninguna en styðja við hana. Textinn var nefnilega ekki settur saman af neinni sérstakri skáldskaparsnilld svo varnarlaus áhorfandi átti fullt í fangi með að missa ekki athyglina við að hlusta á allt þetta tal.
Við þetta bættist að leikur leikaranna var fremur litlaus, stundum beinlínis slappur, mestan part svolítið eins og í snöggsoðinni bandarískri sjónvarpsseríu og nær aldrei áhugaverður. En hvernig á annað reyndar að vera þegar persónurnar eru allar á skrumskælingarplaninu og hafa enga dýpt? Hér og í byggingu verksins hefði mátt taka svolítið til hendinni og vinna meira epískt og stílíserað úr efniviðnum.
Hæfi og vanhæfi
Af einstökum þáttum sýningarinnar fannt mér semsé leikmynd og búningar vera hið eina sem kalla mætti listaverk. En um leið játa ég að ég er kannski ekki vel hæfur til að skrifa um verk Evu Signýjar Berger. Hana hef ég þekkt frá því hún var pínulítil stúlka og var um árabil í vinfengi við foreldra hennar svo nánu að þeir strengir slitna ekki úr þessu vona ég þótt lítið sé hirt um að styrkja þá og endurnýja. Gréta Kristín Ómarsdóttir aðstoðarleikstjóri og einn dramatúrga Góðs fólks er mér líka vel kunnug sem ágætur nemandi bæði í Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Um verk þeirra tveggja, Evu og Grétu, ætti ég þess vegna kannski ekki að segja eitt orð á opinberum vettvangi því að mér er svo hlýtt til þeirra beggja að velþóknun mín á þeim gæti auðveldlega villt mér sýn. En hér er ég raunar ekki sekari en hver sá annar sem um listir og menningu skrifar á Íslandi.
Við erum svo fá og það hefur áhrif á alla umfjöllun um listir, heyrði ég Mörtu Nordal segja í einu áramótauppgjörinu á einhverjum miðli, líkast til Rúv. Þetta er hárrétt hjá Mörtu. Við erum svo fá sem hér á skerinu hímum og þræðirnir milli fólks svo margvíslegir að það litar alla umræðu um menningu og listir. Svo ekki sé minnst á annað sem vort samfélag hrjáir og áhrærir og þörf er á að rætt sé um.
Köfnun í fæðingu
Að þessu sögðu endurtek ég samt að mér fannst verk Evu Signýjar það besta í uppfærslunni á Góðu fólki, leikhúsleg og fúnksjónell hugsun lá að baki bæði leikmynd og búningum. Það er mun erfiðara að átta sig á því hversu mikið Gréta Kristín á í þessari sýningu. En ég vildi óska þess að hún hefði andað meiri artaudískri grimmd inn í vinnsluna á þessum rýra efniviði. Þá hefði kannski orðið til einhvers konar sköpun í Kassanum. Sýningin byrjaði reyndar á afskaplega smart kynningu á persónum og leikendum en brotamaðurinn á sviðinu var varla fyrr byrjaður að tala en Gott fólk kafnaði í fæðingu. Þetta var svo afskaplega flatt allt saman og stundum beinlínis banalt.
Sú var tíð að leikstjórn Unu Þorleifsdóttur á Góðu fólki hefði kostað hana leikstjóraferilinn og hún hefði ekki átt afturkvæmt í leikhúsið í því hlutverki. Sú var tíð, segi ég, því að um slík skipbrot leikstjóra í íslensku leikhúsi mætti rekja mörg dæmi en ég hirði ekki um að vera að rifja þær sögur upp. Gott fólk verður Unu ekki svo dýrkeypt því að hún er þegar byrjuð að æfa Tímaþjófinn, leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur á þeirri óleikhúslegu skáldsögu eftir Steinunni Sigurðardóttur. Sýningin mun ef áætlanir standast verða í Kassa Þjóðleikhússins nú á vormisseri. Við vonum og biðjum að Unu takist að blása lífi í efni bókar Steinunnar með leikurum sínum og listrænum stjórnendum því þótt Gott fólk sé misheppnuð leiksýning er það tæplega næg ástæða til þess að óska þess að hún fái ekki fleiri tækifæri til þess að þroskast sem leikstjóri.
Elsku Ari, hvar eru leikskáldin ungu?
Mér þykir óumræðilega vænt um Þjóðleikhúsið því að þar hef ég átt svo margar góðar stundir sem áhorfandi á undanförnum áratugum. Sumar þeirra leiksýninga sem mér eru ógleymanlegar á sviði hússins voru byggðar á skáldsögum. En þær eru miklu fleiri glæsisýningar Þjóðleikhússins sem voru sviðsetningar á leiktextum eftir leikritaskáld. Ég fór – að vísu í nokkrum flýti – yfir verkefnaskrá Þjóðleikhússins á þessu leikári og fann þar bara tvö íslensk leikrit. Annað nýtt og heitir Fjarskaland, er ætlað börnum og höfundur þess er Guðjón Davíð Karlsson, sem mjög mörg börn á Íslandi elska af því að hann getur verið svo skemmtilegur og snjall í því að höfða til þeirra. Hitt íslenska leikritið sem ég fann kynnt til sögunnar á yfirstandandi leikári á vef leikhússins heitir Húsið og er eftir Guðmund Steinsson.
Það ánægjulega við þá ráðstöfun er að Húsið mun ekki hafa verið sviðsett áður og það er vert að hrósa Þjóðleikhúsinu fyrir dirfsku af þessu tagi. Það fennir nefnilega fljótt yfir söguna og ef Marta Nordal hefði ekki endurvakið athyglina á leikskáldinu Guðmundi Steinssyni með sýningunni á Lúkasi fyrir ekki svo löngu síðan er hætt við að mjög margir hefðu ekki hugmynd um hvaða höfund væri verið að tala um.
Guðmundur Steinsson var eitt af þeim skáldum sem skrifaði samfellt fyrir leikhús í mörg ár og fékk tækifæri til þess að þroskast sem leikritahöfundur vegna þess að leikhúsið, bæði Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið, sinnti þá því hlutverki sínu að hlúa að íslenskum leikritaskáldskap. Ég sé hvergi örla á slíkum metnaði í verkefnavali Þjóðleikhússins okkar leikárið 2016-2017. Hvernig má þetta vera þegar fjöldi ungs fólks er að spreyta sig á þeirri list að skrifa fyrir leiksvið? Mér er kunnugt um að margt af því sem geymt er á harða diskinum í kóbalttölvum þessara höfunda er miklu betra stöff en textinn í Góðu fólki Vals Grettissonar. Mörgum hinum ungu höfundum liggur þar á ofan ýmislegt á hjarta en Val Grettissyni virðist ekki hafa gengið annað til með því að stela bloggfærslum og gera úr þeim „skáldsögu“ en að setja sjálfan sig á display. Ég spyr þess vegna Ari minn Matthíasson – af hverju leggur ekki Þjóðleikhúsið rækt við einhvern þessara ungu og óþekktu höfunda í stað þess að láta dramatúrg hússins sníða leikbúning á áratuga gamla skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur? Bók sem er svo ósköp lítið dramatísk og full af einræðum konu sem er pínulítið dekruð og býsna sjálfhverf. Svo ekki sé nú aftur minnst á Gott fólk.
Sannleikur og fegurð
Hið fagra er satt heitir bók eftir Kristján Árnason. Þetta er ágæt bók en ég hef alltaf átt svolítið erfitt með titilinn því hvernig getur maður skilgreint sannleika og fegurð án þess að lenda í ógnarlegum erfiðleikum. Iris Murdoch fór fimum hugsunum og þjálfuðum höndum um hugtökin gæsku og góðsemi og leiddi undurfagurlega í ljós að það er býsna afstætt hvað er gott. En í því er flestur vandi manneskjunnar reyndar fólginn að allt er afstætt. Og flest meira og minna lygi sem maður segir nema kannski: Viltu rétta mér sósuna? Svo vitnað sé í kvikmynd Richards Eyre um Írisi Murdoch. Að mínu mati er gríðarlega erfitt að skilgreina sannleika og fegurð – vegna þess að bæði hugtökin eru afstæð par excellence – en eftir að ég sá sýninguna Hún pabbi á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu hallast ég að því að hið fagra verði satt og hið sanna fagurt þegar þetta tvennt fellur saman í eina heild svo afstæði hugtakanna vefst saman í einn sterkan þráð.
Þannig er sýning Hannesar Óla. Hún er bæði fögur og sönn.
Sagan sem Hannes Óli rekur af föður sínum sem kominn í kringum sextugt umbreytti sjálfum sér í konu með aðstoð læknavísindanna er í rauninni ekki mjög flókin. En fyrir þann sem gengur í gegnum ferli af þessu tagi er umbreytingin auðvitað sannkölluð rússíbanareið eins og reyndar er bent svo snyrtilega á í sýningunni. Fegurð frásagnarinnar í Henni pabba felst í mörgu en í mínum huga stendur einfaldleikinn þar hæst. Höfundar sýningarinnar gæta í hvívetna þeirrar gullnu reglu að minna er meira. Engar ýkjur, engir stælar, ekkert vesen og óþarfa smartheit. Hvað styður annað; umbúnaðurinn, lýsingin, notkun sviðsrýmis, upplestur úr bók Hennar pabba, bíóklipp, myndasýningar úr fjölskyldualbúmi, viðtalsbrot sonar við föður, tónlist og texti, sem er mjög vel saminn heyrðist mér. Og þess er vandlega gætt að hrynjandin sé breytileg og tenging milli allra þátta sýningarinnar þétt og nákvæmlega ofin og tímasett.
Hún pabbi er ekki eiginleg leiksýning. Hannes Óli kemur fram sem hann sjálfur og þótt hann máti sjálfan sig aðeins við kyngervi konu þá er það svo fínlega gert að hann er eftir sem áður Hannes Óli Ágústsson leikari að segja söguna af pabba sínum og sjálfum sér – þó miklu meira pabba sínum. Hún pabbi er þess vegna sönn frásögn í leikhúsgjörningsformi. Ekki að þetta skipti höfuðmáli – og þó. Með því að persóna í sögunni taki til máls verður sagan sem sögð er enn sannari og fegurri en ella. Og bara til þess að koma því á framfæri – af því hugsanleg kvikmyndaaðlögun er nefnd í sýningunni – þá finnst mér að. þegar saga þeirra Önnu Margrétar og Hannesar Óla verður kvikmynduð eigi Meryl Streep að leika Önnu Margréti og hann sjálfur Hannes Óla.
Hún pabbi er ekki bara falleg og sannfærandi frásögn. Sýningin er líka listaverk af því að þrátt fyrir mjög sértækt efni vísar hún aftur og aftur langt út fyrir sjálfa sig. Við karlarnir erum allir með eitthvað af kvenkynsgenum og allar konur með einhverjar karllegar kenndir. Það er ekki fyrr en jafnvægið brestur á milli þess hvernig skaparinn gekk frá líkama okkar og sál að vandinn rís og fólk hættir að falla að normum og forritum samfélagsins hvað kyngervi snertir. Þá verða margir harmi slegnir og ýmsir láta beinlínis lífið. En það er á svo mörgum öðrum sviðum samfélagsins en hvað kynferði varðar sem fólki gengur illa að fella sig að þeim fyrirfram ákveðnum forritum sem þeim er ætlað að laga sig að og temja sér. Án þess nokkuð sé verið að benda sérstaklega á þetta í Henni pabba þá kemur slík hugsun oft eins og sjálfkrafa upp hjá áhorfanda að sýningunni. Og það hygg ég sé vegna þess hve yfirlætislaus hún er og algerlega óspillt af þeim besserwisserkeimi sem kenna mátti af Góðu fólki.
Lófatakið í lok sýningarinnar á Henni pabba var kraftmikið og samtaka og minnti á viðtökur áhorfenda á Sóleyju Rós ræstitækni í Tjarnarbíói í haust sem leið. Það er greinilegt að sönnu sögurnar sagðar á einfaldan og fagran hátt höfða sterkt til fólks – og það er vel – og ég bendi á að sýningar á Sóleyju Rós verða teknar upp á ný í Tjarnarbíói á næstunni.
Að þessu sögðu fullyrði ég að ekkert af því sem ég hef að ofan sagt um Hannes Óla Ágústsson hefur nokkurn skapaðan hlut að gera með það að hann var einu sinni fyrir meira en áratug meðal nemenda minna í kúrsi í Háskóla Íslands og ég man samt enn vel hvað var gaman að hafa hann í tímum. Dómur minn um sýningu Hannesar Óla á Henni pabba er eftir sem áður mjög hlutlægur eins og allir lesendur orða minna geta sannfærst um með því að fara og sjá þessa heillandi og mikilvægu frásögn í Borgarleikhúsinu.
Mér fannst að Hannes Óli nálgaðist oft göfgi klassíska harmleiksins í sýningunni á Henni pabba – en það hafði samt mest áhrif á mig þegar hann hvarf stundum augnablik úr hinu beina sambandi við áhorfendur og inn í sjálfan sig. Á þeim andartökum fann maður næstum líkamlega fyrir sársaukanum að baki sögu Önnu Margrétar Grétarsdóttur. Auk þess sem mér hlýnaði þá mjög um hjartarætur og langaði til að gráta.
Siðgæði og leikhús
Leikhús eins og það er iðkað í okkar vestræna heimi nú um stundir er í eðli sínu ofbeldisfullt. Þar gilda sömu lögmál og í kirkjum landsins og þegar forsetinn talar. Það er ekki ætlast til þess að áhorfendur í leikhúsi grípi fram í fyrir leikurunum eða grýti þá á sviðinu fremur en að söfnuðurinn segi prestinum að halda kjafti eða þjóðin kefli forsetann. Hið eina sem leikhúsgesti leyfist er að ganga út af sýningu. Það er einhvers konar viðurkennd aðferð til þess að mótmæla því sem fram fer á leiksviðinu.
Vegna þessa þegjandi samkomulags milli leikhússins og leikhúsgesta ber leikhúsið enn meiri siðferðilega ábyrgð en það ella gerði. Það er gríðarlegur eðlismunur á því hvernig aðstandendur Hennar pabba og Góðs fólks nálgast sinn efnivið. Hannes Óli og hans kompaní, Kara, Halla Þórlaug, Pétur og Högni, virða einkalíf Önnu Margrétar Grétarsdóttur vegna þess að þau fá hjá henni leyfi til þess að segja sögu hennar á opinberum vettvangi. Valur Grettisson notfærir sér bloggfærslur raunverulega atburði í lífi fólks en lætur í veðri vaka að persónur hans séu skáldskapur einn. Sú fullyrðing stenst bara ekki neina skoðun og það hefði Þjóðleikhúsfólk átt að sjá í einu vetfangi.
Að horfa framhjá þessu og taka Gott fólk til sýninga kemur líka í bakið á Þjóðleikhúsinu og skýrt fram í viðtökum áhorfenda. Í Borgarleikhúsinu var leikur einn fyrir mig að fylgjast með áhorfendum á Henni pabba af því að sætaskipan er með þeim hætti að þaðan sem ég sat sá ég mjög vel viðbrögð margra viðstaddra. Ég varð ekki var við að neinn iðaði í sætinu eða dottaði og enginn gerði tilraun til þess að standa upp og ganga út. Þetta gerðist hins vegar allt á frumsýningunni á Góðu fólki – sumir dormuðu, aðrir óku sér á hörðum stólunum og einn og einn hálfreis úr sæti sínu án þess ég þó sæi nokkurn ganga úr salnum. Lófatakið í sýningarlok var líka ósköp veiklulegt sem vonlegt var. Það er ekki skynsamlegt að leggja af stað í ferðalag með slæmt farteski og sýning Þjóðleikhússins á Góðu fólki er enn ein staðfesting á því að svo er.