Blíðviðri í ágúst – aldrei þessu vant

um Hestvík Gerðar Kristnýjar

Hér var næstum freistast til að skella yfirskrift eins og „Dulúð í Hestvík“, „Hversdagsleg spenna og ógn“, „Uggandi andrúmsloft“ „Öðruvísi sumarbústaðarferð“ eða eitthvað viðlíka. Það hefði bara verið svo leiðinlegt. 


Ritkvinnan Gerður Kristný (1970) er gömul í hettunni. Samt er hún aldurslega ekki svo átakanlega nærri grafarbakkanum. Árið 1994 gaf hún út ljóðabókina Ísfrétt. Var það jafnframt hennar fyrsta útgefna verk. Nú, tuttugu og tveimur árum seinna, er hún enn að. Liggja eftir hana allslags bækur og efni.

Vert er að geta þess að hún skrifar jafnt skáldverk fyrir börn og fullorðna svo og ljóð. Hún hefir og getið sér orð fyrir gagnorða texta þar sem orðræpu og málæði er ekki fyrir að fara. Raunar. Viti einhver eigi deili á Gerði Kristnýju þarf sú hin sama að vera eitilharður and-lista-unnandi eða ein af þeim sem telja sanna listsköpun þá sem stuðlar að hagvexti og sé alltaf fjárhagslega sjálfbær. Í þeim heimi er holdgervingur hins eina sanna íslenska rithöfundar Yrsa Sigurðardóttir eða Arnaldur Indriðason. Það er líka gömul saga og ný að morð og glæpir geta stuðlað að fjárhagslegri hagkvæmni.

Síðustu tvær málsgreinar koma efni þessara skrifa lítið við nema hvað ekki er öldungis ómögulegt að tengja nýjustu afurð Gerðar við spennu- og glæpasögur.

En alltént skal, með öðrum orðum, eigi splæst of mörgum orðum í útmálun fyrri verka höfundar. Áhugasamar geta barasta farið á bókmenntir.is. Hér skal skoðuð skáldsaga Gerðar, Hestvík, sem kom út hjá Máli og menningu í kringum vetrarbyrjun. Telur hún hundrað sextíu og þrjár síður.

Hestvík er þriðja skáldsagan fyrir fullorðna. Áður hafa komið út hjá Máli og menningu Regnbogi í póstinum (1996) og Bátur með segli og allt (2004). Fyrir þá síðarnefndu uppskar Gerður Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness.

Uggvænlegir tónar og fyrirboðar

Í gegnum tíðina hafa umfjöllunarefni verka Gerðar oft litast af kvenfrelsishugsjónum. Hafa þau, til dæmis, haft þann tilgang að rétta hlut kvenna. Ljóðabókin Blóðhófnir (2010) er kannski nærtækasta dæmið um slíkt. Þar er unnið með „Skírnismál“ Eddukvæða og sjónarhornið er hjá jötunmærinni Gerði. Er slíku fyrir að fara í fleiri verkum hennar. Annað sem talið hefir verið til einkenna skáldskapar Gerðar er að klassísk minni eru notuð. Litið er til norrænnar goðafræði svo og grískrar. Einnig má minnast á að sá tónn sem oft er sleginn í fullorðinsverkunum á til að vera kaldur (hér hefir þó ekki verið lagst yfir hitastig lýsingarorða eða nafnorða), ógnvekjandi og tregafullur. Óhugnaðartónn var meira að segja sleginn í unglingabókinni Garðinum (2008). Sennilega væri miður gott fyrir kulvísar eða þunglyndar persónur að vakna upp í sumum verkum Gerðar þar sem

[k]uldinn býr mér

híði úr kvíða

færir svæfil úr

dúnmjúkri drífu

undir höfuð mér

snjóbreiðan

voð að vefja um sig

[og]

Landið mitt

útbreidd banasæng

(Gerður Kristný „Ættjarðarljóð“ 2007: 5)

Í Hestvík fer ekkert fyrir ís og hitastigið fer ekki niður fyrir frostmark. Tónn sögunnar er þó ekki laus við hroll í vá- og drungalegum skilningi þess orðs. Sögutíminn er ágúst árið 2009. Sögusviðið er sumarbústaðaland við Hestvík í Þingvallavatni. Samkvæmt Veðurstofu Íslands var  ágústmánuður það árið „fremur hlýr um allt land, sólríkur á Suður- og Vesturlandi“.

Söguþráðurinn er eitthvað á þessa leið: hin fráskilda, skuldum vafna og hjartveika Elín vill verja fjórum dögum með tólf ára gömlum syni sínum, Halldóri, í sumarbústaðnum Draumahöllinni. Sagan er sögð í fyrstu persónu. Elín greinir frá.

Elínu dreymir um að gera hitt og þetta með syni sínum eins og að byggja snjóhús, ferðast til fjarlægra landa og læra að þekkja stjörnurnar. (bls.35) Hann hefir meiri áhuga á tölvuleikjum, boltasparki og efnislegum gæðum. Hann er auðvitað barn síns tíma. Kemur hann þannig fyrir sjónir að hann sé ekki sjálfum sér nægur. Hann þarf sýknt og heilagt áreiti sjónvarps eða annara tækja og þegar hann röltir einn um svæðið þá  „varð allt svo hljótt og skrítið.“ (bls. 59) Aukinheldur virðist hann ekki vera allur þar sem hann er séður. Var hann enda sakaður um að hafa pyntað kött og kveikt í honum. (bls. 56)

Draumahöllin er lítill sumarbústaður (örsmár í 2007-skilningi) látinna foreldra Elínar og staður sem hún hefir í miklum mætum. Varði hún miklum tíma þar sem barn og átti góðar stundir. Þráir hún fátt meir en að Halldóri hugnist staðurinn líka. Reyndar á það einnig við um margt annað sem tengist æsku hennar.

„Sjáðu vatnið, Dóri!“ sagði ég og óskaði þess að sonur minn kæmi auga á sömu dýrð og ég. (bls. 8)

Halldór sér ekki rómantíkina í bústað án rafmagns, nettengingar, sjónvarps, heits potts (bls.9) og grills. Hann tekur „andköf […] [og segir] „[h]vað gerum við þá“ þegar í ljós kemur að bústaðurinn státar ekki af staðalþægindum nútímamannsins. Þar að auki virðist hann lítt hugfanginn af náttúrunni í kring.

Í bústaðinn komin flakkar hugur Elínar í tíma. Einkum leiðir hún hugann að horfnum tíma og svífur fortíðarþrá yfir vötnum. Elín hefir fullan hug á því að leiða son sinn á allan sannleikann um ágæti þess tíma og vonar að hann taki sér sitthvað til eftirbreytni. Hæpið verður að teljast að nútímabarnið Halldór sé ginnkeyptur fyrir því. Lái honum hver sem vill.

Nú gæti einhver spurt sig hvað hefir fortíðardýrkun og óhrifnæmt nútímabarn (barn steypunnar) með óhugnað að gera. Fullkomlega lögmæt spurning það. Hér liggur nefnilega meira undir. Í frásögninni er vel greinanlegur uggandi undirtónn og fyrirboðar sem stigmagnast eftir því sem sögunni framvindur. Verkið fer hægt af stað en spennan magnast smátt og smátt. Og leikar taka svo að æsast þegar Halldór og Bergdís, barn Hauks, fyrrum bekkjarfélaga Elínar, sem á nálægan risabústað og jeppa hverfa eftir að rökkva tekur.

Strax í byrjun, er mæðginin eru á leiðinni í bústaðinn, er uggvænlegur tónn sleginn þegar „[t]ilhlökkunin yfir að sjá vatnið blasa við fram undan fuðraði upp því við Grafningsveginn hafði rúta farið út af. Krakkar sátu í keng út í móa og héldu um höfuð, herðar, hné og tær. Kona hljóp á milli með rauðdoppótta tusku á lofti.“ (bls. 7) Farþegarnir eru augljóslega slasaðir.

Á viðlíka streng er slegið á ófáum stöðum. Til að mynda þegar horft er „yfir Þingvallavatn, vatnið sem úr lofti leit út eins og púki með tvö horn.“ (bls. 8) Þegar Elínu finnst eins og húsið hafi „haldið niðri í sér andanum frá því […] [hún] kom […] [þangað] síðast og blési nú loks frá sér.“ (bls. 19) og þegar ánægjulegum minningum Elínar er blandað saman við hrollvekjandi atburð eins og þegar hundurinn Garmur ræðst á kjölturakka við sjoppuna í Valhöll „og börnin öskruðu þegar hundurinn læsti í hann tönnunum. Ýlfur og urr blandaðist saman við öskur og grát.“ (bls. 16-17)

Hápunkti er svo náð þegar Valhöll á Þingvöllum brennur. Þeim raunverulega bruna er blandað saman við frásögnina þótt hann hafi að vísu átt sér stað í júlí en ekki ágúst það árið.

Aðeins um aðrar persónur sögunnar

Áður var minnst á Hauk, gamlan bekkjarfélaga Elínar. Haukur var hrekkjusvín þess tíma en sá sem leggur í einelti okkar tíma. Hann var þar að auki foringi bekkjarins og sátu og stóðu börnin eftir því sem honum hentaði. Leiða má líkur að því að hann hafi komist í álnir þar sem hann á, ásamt konu sinni, Kötu norsku bankakonu, risabústað og jeppa. Saman eiga þau dótturina Bergdísi sem er með Aspergerheilkennið.

Bóndinn Helgi á Brú, vinur foreldra Elínar, kemur einnig við sögu ásamt tvíburunum Denna og Matthildi. Tvíburarnir eru börn fyrrum sambýliskonu hans. Sambýliskonan skildi þau eftir í hans umsjón. Helgi er hjálpseminn uppmáluð og reynist sannlega vel þegar á reynir. Tvíburarnir eru fimmtán ára og eru, líkt og margur Megasar-karakterinn, undarlegir í háttum eða sérlundaðir furðufuglar. Svo undarlegir raunar að þeir vekja upp þá tilfinningu að þeim sé trúandi til alls. Ekki er heldur laust við að stuggur standi af þeim, þótt Helgi segi þá meinleysisgrey.

Faðir og móðir Elínar og móðir Elínar koma talsvert við sögu þótt hvorugt þeirra dragi lífsandann lengur. Þau tengjast, eins og máske liggur í augum úti, bæði minningarrápi Elínar. Minningarrápi sem er hvort tveggja ánægjulegt (gleðistundir við Hestvíkina) svo og sveipað feigð. Skapst við það viss dauðastemming. Að nokkru leyti meira að segja falleg dauðastemming sem lesanda verður látið eftir að skynja.

Dæmið dregið saman

Gerður Kristný er þekkt fyrir meitlaða texta þar sem engu orði virðist ofaukið. Á slíkt við hér? Já, það er ekki laust við það. Ekki er hægt að kvarta yfir orðavaðli. Stíll Gerðar Kristnýjar er oft talinn kuldalegur. Á slíkt við hér? Já og nei. Hér er ekki fyrir verðurfarslegum kaldrana að fara en sannlega tekst textanum að vekja upp hroll. Gerður Kristný er oft og tíðum vísanaglöð. Á það við hér? Já, en vel að merkja ekki svo mikið þegar kemur að hinu sígilda (skal tekið fram að textinn var ekki lúslesinn), grískum og norrænum minnum. Á einum stað eru þó blessaðir túrhestarnir bornir saman við jötnana „úr goðafræðinni. Þeir eru [sem] komnir yfir brúna til að skemma allt og eyðileggja. (bls. 77)

Hestvík er sumsé nær okkur í tíma hvað vísanir varðar. Tekur og verkið sumpart á kynslóðamun. Góðu heilli er það gert án vísifingurs á lofti með þá fullvissu að allt hafi verið betra í þá tíð. Engu að síður er vel greinanlega nostalgía sem fremur má skeyta við þrá eftir einfaldari tíð þegar Elín velti fyrir sér

Hvort ég myndi einhvern tímann tala eins og þær [vinkonur móður hennar] um kjarabætur, gardínur, málverk og ketti og nágranna. Hvort ég myndi tala á innsoginu eins og þær, þekkja alla sem aðrir töluðu um eða hvort ég yrði alltaf út á þekju. (bls. 37)

En mest um vert er að hér tekst að skapa frásögn sveipaða dulúð og spennu (hugsanlega er eiga sér lögbrot stað) og það þrátt fyrir að við fyrstu sýn sé ef til vill óhægt um vik með að spyrða efniviðinn við þesslega stemmingu, uggs, feigðar og jafnvel forgengileika. Allt leggst saman á eitt til að framkalla hana, persónur, andrúmsloft og stíll. Þetta er helvíti vel af sér vikið.