*** Fyrirvari: Stutta útgáfan af þessum leikdómi er svona: Sjaldan hefur leikverk haft jafnmikil áhrif á mig og Sóley Rós ræstitæknir gerði. Ef þú ætlar þér að sjá það vil ég mæla með því að þú hættir að lesa – það borgar sig nefnilega að vita sem minnst og láta sýninguna þannig koma aftan að þér.
Jæja. Hér er dómur:
Það er áhrifamikið uppleggið hjá Leikhópnum Kvenfélaginu Garpi sem setur upp sýninguna Sóley Rós ræstitæknir í Tjarnarbíói um þessar mundir. Það er alkunna að eigin vitneskja manns og væntingar til listaverka hafa bein og óbein áhrif á upplifunina af verkinu. Sjálfur hef ég komið mér upp mjög afgerandi stikluóþoli og baksíðutextabanni – ég forðast það í lengstu lög að horfa á kvikmyndastiklur eða lesa baksíðutexta eða samantektir um bækur sem ég ætla mér að lesa. Allt þetta byggir á því að vita sem allra minnst, leyfa verkinu að tala, frekar en misgáfulegum fulltrúum þess.
Það er líka inn á þetta sem Garpur spilar með Sóley Rós ræstitækni. Í aðdraganda sýningarinnar var kynning á verkinu fremur almenn; megináhersla var lögð á að þetta væri heimildaleikrit sem byggði á raunverulegum viðtölum við ræstitækni frá Akureyri.
Það var þannig sem ég fór á leikritið. Grunlaus, rétt eins og sessunautur minn. Við vissum ekkert hverju við áttum von á.
Uppleggið er sáraeinfalt: Halli, kærasti Sóleyjar sem Sveinn Ólafur Gunnarsson leikur, hleypir fólki inn í salinn og um leið og allir eru sestir fara þau Sóley upp á mjög einfaldan pall á miðju sviði. Það er ekkert „leikhús“ látið hefjast, ljósin eru áfram kveikt í salnum og þau byrja einfaldlega að segja sína sögu. Þau ávarpa áhorfendur beint, eins og þau séu að tjá sig um ótilgreint „málefni“ sem þau fagna að svo margir sýni áhuga.
Og í þessari blátt áfram nálgun og grandvaraleysi felst áhrifamáttur sýningarinnar. Okkur er einfaldlega boðið að hitta þetta ókunnuga fólk og fyrstu kynnin af þeim (góður hálftími af klukkutíma langri sýningu) eru mjög spaugileg og oft sprenghlægileg. Sóley Rós, í magnaðri túlkun Sólveigar Guðmundsdóttur, birtist smám saman sem akureysk valkyrja sem vílar ekkert fyrir sér, ræstitæknir og margra barna móðir, í sambandi með Halla, sem sjálfur er passívur en vel meinandi drengur. Það er farsakenndur tónn í frásögninni þarna framan af, þetta minnir helst á góðlátlegt en hárbeitt leikrit um brokkgeng samskipti kynjanna og gleðin er við völd undir niðri; þau eru svo krúttleg þarna í göllum sínum og það er sönn ánægja að sjá þá birtast okkur smám saman. Samleikur Sveins Ólafs og Sólveigar gerir að verkum að eftir örfáar mínútur eru þau þarna, af holdi og blóði, fyrir okkur til að kynnast inn að beini.
En svo fer allt af stað. Upp úr þessum hversdagslega, íslenska léttleika byrjar Sóley Rós að segja söguna af því þegar þau Halli urðu ólétt. Og hvernig þurfti að flytja hana suður. Og hvernig læknirinn fyrir norðan bað hana um að fylgjast með því ef legvatnið myndi litast og að hún ætti alltaf að láta vita af því.
Í stigvaxandi geðshræringu og uppnámi lýsir Sóley Rós tíu daga dvöl sinni á Landspítalanum sem endar með því að barnið hennar deyr – inni í henni.
Þetta er nefnilega sýning sem fjallar um óhugsandi sorglegan barnsmissi. Maður bara veit það ekki fyrr en allar varnir hafa verið fjarlægðar – og þá getur sorgin streymt inn í öll hjartans hólf og kima.
Magnþrunginn lokaspretturinn í leikritinu, þar sem Sóley Rós hleypir okkur inn í flóknar tilfinningar sínar, var eins og sprengigos sem stóð skammt yfir en breytti samt öllu. Ég grét, ég faldi höfuðið í höndum mér; ég man ekki eftir viðlíka viðbrögðum. Snöktkór leikhúsgesta var svo hávær í logninu á eftir storminum að augljóslega hafði Sólveig, með stjörnuleik sínum, náð að snerta fleiri hjörtu en mitt. Og eiginlega alveg örugglega hvert einasta.
Sóley Rós ræstitæknir nær því að vera bráðfyndið leikrit sem hittir beint í hjartastað, fullkomlega íslenskt en á sama tíma sammannlegt og líka skerandi sárt. Ástæðurnar eru augljósar: Sterkur efniviður sem unnið er úr af virðingu, hnitmiðaður leiktexti, hárbeitt leikstjórn Maríu Reyndal og stjörnuleikur Sólveigar og Sveins Ólafs.
Leikhús sem styðst að svona miklu leyti við sjálfan textann og beina tengingu leikaranna við áhorfendur hefur ótvírætt aðdráttarafl. Vill maður eitthvað meira út úr leikhúsi en mikla gleði og mikla sorg? Ef maður er á annað borð til í tilfinningar er svarið:
Nei, þetta er allt sem þarf.