Sannar sögur í sjálfstæðum leikhúsum

Sjaldan hef ég orðið vitni að jafn samstilltum viðtökum áhorfenda að lokinni leiksýningu og þegar ljósin slokknuðu á sviðinu í Tjarmarbíói á fimmtudagskvöldið var næstum um leið og Halli, eiginmaður Sóleyjar Rósar, hafði í leikslok varpað fram spurningunni: Eru einhverjar spurningar? Enginn áhorfenda rétti upp hönd til að fá orðið og spyrja enda voru hendur þeirra allra bundnar við að taka þátt í svo taktföstu og þéttu klappi að lófatakið hljómaði eins og það væri þaulæft. Sýningin hafði hitt áhorfendur í hjartastað og hugur þeirra og hendur þökkuðu fyrir eins og í salnum væri einn maður. Þetta voru ekki tryllt fagnaðarlæti með háværum hrópum heldur tjáning á einlægu þakklæti fyrir vandaða og merka leiksýningu.

Sóley Rós ræstitæknir er byggð á frásögn konu á Akureyri af lífi sínu og þó einkum sárri reynslu og missi sem hún verður að lifa með það sem eftir er ævinnar. Mér skilst að texti verksins sé allur – eða að minnsta kosti næstum allur – hafður beint eftir þessari konu. Og textinn virkar vel því að tungumálið verður svo lifandi í munni Sólveigar Guðmundsdóttur, sem leikur Sóleyju Rós, að áhorfandinn þarf stundum næstum að minna sig á að það er leikkona sem er á sviðinu en ekki konan hverrar saga er sögð. Ekki svo að skilja að leikararnir og leikstjórinn séu að reyna að plata okkur og telja okkur trú um að við séum að horfa á söguna gerast fyrir framan augu okkar. Hér er nefnilega engin eftirlíking atburða á ferð heldur ummyndun þeirra í heildstætt listaverk þar sem allir þættir og þræðir eru þétt ofnir.

Sýningin á Sóleyju Rós ræstitækni hefur marga kosti. Hún er þaulunnin, bæði leikgerð viðtalanna við hvunndagssöguhetjuna og sviðsetning hennar. Grunnhugmynd verksins er skýr, uppbygging sýningarinnar, hrynjandi hennar og framvinda úthugsuð. Og þar hjálpast allt að, sagan sem er sögð, túlkun leikaranna, beiting ljósa og stílhreinnar leikmyndar, einfaldir búningarnir og tónheimurinn. Hér er ekkert óþarfa tildur og engin tilgerð og eitt af því sem ræður úrslitum um það hversu vel tekst til er að leikstjóri og listrænir stjórnendur falla hvergi í þá gryfju að velta sér upp úr sársauka og harmi með því að myndskreyta sýninguna með margmiðlunartækni. Eins og í góðum grískum harmleik er sagt frá hörmulegum atburðum án þess að þeir séu sýndir á sviðinu. Blóð, legvatn og myndir af lifandi og dánum börnum kvikna því fyrir innri augum áhorfenda en er ekki kastað framan í þá með skyggnusýningum. Frásagnaraðferðin tekst svo vel hjá þeim Sólveigu og Sveini Ólafi Gunnarssyni, sem leikur Halla mann Sóleyjar Rósar, að meira að segja ófærðin og skaflarnir sem Halli þarf að berjast í gegnum á leiðinni úr Reykjavík til Akureyrar verða ljóslifandi fyrir hugskotssjónum leikhúsgesta.

María Reyndal, leikstjóri, – og handritshöfundur ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur – hefur með Sóleyju Rós ræstitækni sviðsett fallegt verk um mjög vandmeðfarið efni. Leikmynd og lýsing Egils Ingibergssonar eru lifandi hlutar af sýningunni og vinna eins og áður var á minnst sérstaklega vel með öðrum þáttum hennar svo úr verður heild þar sem allt ber að sama brunni: Að segja átakanlega sögu úr raunverulegu lífi og vekja um leið óteljandi spurningar hjá áhorfandanum.

Leikararnir tveir, Sólveig og Sveinn Ólafur, eru sannfærandi og sterk í einlægri túlkun á hjónunum Sóleyju Rós og Haraldi. Mér varð hugsað þetta kvöld í Tjarnarbíói – og raunar ekki í fyrsta sinn sem ég sé þau tvö á sviði – hvort það sé ekki eitthvað einkennilegt við það að þau skuli ekki hafa fengið að takast á við burðarhlutverk í sýningum stofnanaleikhúsanna. Hvað eru leikhússtjórarnir í Borgó og við Hverfisgötuna eiginlega að pæla að fá þessum góðu leikurum ekki verðug verkefni? Eða vilja Sólveig og Sveinn Ólafur bara frekar fá að þróast og þroskast á frjálsu senunni þar sem sjálfstæðið og frelsið felst fyrst og fremst í því að vinna oft meira og minna kauplaust? Raunar ber ekki að vanmeta það frelsi sem fólgið er í því að velja sér sín eigin viðfangsefni sem leikhúslistamaður. Sýningin á Sóleyju Rós ræstitækni er staðfesting á því að sú leið til verkefnavals getur orðið grunnur að afbragðs verki.

Annað gleðiefni í leikhúsvikunni sem leið var frumsýning á Stertabendu í Kúlunni/Þjóðleikhúsinu. Þar var einnig frjáls og fátækur leikhópur á ferð og lék á ný útskriftarverkefni Grétu Kristínar Ómarsdóttur, en hún lauk námi af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands í vor leið með leikstjórn á þessu leikriti Mariusar von Mayenburg í eigin þýðingu og leikgerð. Leikritið er bæði ákaflega hrátt og og hráslagalegt en jafnframt gríðarlega þétt samið og bregður upp margs konar svipmyndum af því hvernig við lifum lífi okkar í samtímanum á Vesturlöndum. Svo óþægilegt sem það er eru sögurnar sem sagðar eru í Stertabendu ekkert síður sannar en saga Sóleyjar Rósar ræstitæknis, þótt þetta þýska leikrit byggi ekki – að því er ég best veit – á svokölluðum raunverulegum atburðum. Auk þess fjallar Stertabenda um leikhúslistina og erindi hennar við okkur manneskjurnar. Ekki endilega allt til skemmtunar einnar sem þar er sagt en var einhver að biðja um að fá bara að sofa í friði þangað til leiknum lýkur?

Það er afrek að fá tækifæri til að sýna útskrifarverk sitt úr skóla í Þjóðleikhúsinu og ber að hrósa þjóðleikhússtjóra, Ara Matthíassyni, fyrir að sýna það áræði að brjóta allar hefðir með því að gera þetta kleift. Ég veit ekki hver díllinn var en geri ekki ráð fyrir því að Gréta Kristín og leikhópurinn flái þar feitan gölt þótt í Þjóðleikhúsinu sé. En ísinn er brotinn svo nú má leggja frá landi og sigla út á listahafið þöndum seglum.