Dísa gekk í fjörunni neðst í bænum og horfði út fjörðinn á sólina. Henni fannst gaman að labba þar þegar henni leiddist eða þegar hún vildi sleppa að heiman, eins og núna. Á meðan hún gekk um tíndi hún sprek í hrúgu sem hún lét fljóta út á sjóinn eða fleytti kerlingum. Síðan óð hún eins djúpt og stígvélin náðu og stundum ef veðrið var gott fór hún úr stígvélunum og sokkunum, bretti buxurnar upp að hnjám og tiplaði á tánum út í vatnið.
Dísu fannst stundum eins og hún ætti dótið sitt ekki sjálf. Dótið í herberginu hennar hafði ýmist verið gefið af mömmu, pabba og hinu fullorðna fólkinu í afmælum og á jólum og mamma var dugleg að minna hana á það þegar hún lék sér, sagði henni að fara varlega með dúkkuhúsið hennar Stínu systur eða að skilja bangsann sem amma og afi gáfu henni ekki eftir á gólfinu. Teiknimyndir voru skemmtilegar en hún mátti bara horfa í klukkutíma fyrir kvöldmat og á morgnana um helgar þegar mamma og pabbi nenntu ekki að eiga barn og vildu fá að sofa. Bækur voru líka skemmtilegar en bara stundum og mamma nennti yfirleitt ekki að lesa með henni. Svo var pabbi alltaf upptekinn. Mamma hafði merkt fötin hennar með nafni, ekki Dísa heldur Hjördís Bára eins og hún var nú búin að læra að lesa sjálf. Mamma tússaði nafn hennar yfir nafn Stínu systur sem var farin suður í skóla og hafði skilið barnafötin sín eftir.
Pabbi hafði eitt sinn sagt Dísu að báturinn hans sigldi í suður þegar hann færi út fjörðinn og því setti hún stundum fallega steina á sprekhrúgurnar og þóttist vera að senda Stínu systur gjafir. Á kvöldin lá Dísa í rúminu og ímyndaði sér steinasafnið sem Stína ætti. Stína hafði ekki komið í heimsókn í marga mánuði og mamma tautaði stundum að Dísa ætti ekki lengur stóra systur en Dísa sá í gegnum það. Hún var viss um að einn daginn myndi hún líka fara suður í skóla. Þá gætu hún og Stína búið saman og skoðað steinana sem Dísa sendi henni og fengið sér ís. Dísu fannst ís vera það besta í heimi, hún fékk sér alltaf smartís út á vanilluísinn og elskaði að finna súkkulaðið brotna á milli ískaldra tannanna.
Dísa tiplaði eftir fjörunni, í strigaskóm af því að hún hafði flýtt sér út um þvottaherbergisdyrnar bak við húsið, hlaupið frá öskrunum í stofunni inn í garð Nonna og Mæju við hliðina. Þar stal hún sér rabarbara. Hún þorði því af því að Nonni og Mæja voru gömul og hún vissi að þau myndu ekki einu sinni reyna að elta hana ef þau sæju til hennar. Svo hljóp hún eins hratt og hún gat út götuna, yfir gangstétt og niður í fjöru. Hún var í grænu strigaskónum sem mamma gaf henni þegar hún byrjaði í grunnskóla. Dísu fannst þeir svo fínir enda var hún sú fyrsta sem átti þá. Skórnir voru með rennilás á hliðinni og hvíta skósóla og þegar hún steig í blautan sandinn og fann sólana sökkva varð hún áhyggjufull því hún mátti ekki koma með leðju á skónum heim. Þá gæti hún fengið refsingu og það vildi hún forðast.
Dísa var enn að hugsa um smartís-ís og refsingar þegar hún kom auga á steininn. Hann var sléttur eins og marmarakúla og álangur eins og linsoðið egg sem er kramið milli handanna þar til það er við það að springa og leka gulu. Þegar Dísa tók hann upp sá hún að hann var í réttri stærð því hann smellpassaði bæði í lófa og buxnavasa. Hún lyfti steininum upp og strauk sandinn af honum með hinni höndinni. Hún grandskoðaði steininn, rannsakaði hverja hlið hans, fjólubláar og hvítar línur í blágráu yfirborðinu eins og æðar á enni fólks þegar það er æst. Dísa kyngdi munnvatni við tilhugsunina, henni fannst ekkert leiðinlegra en að láta öskra á sig. Hún skoðaði næstu hlið steinsins, línur eins og litlir lækir sem sameinaðist í einni stórri á eftir steininum endilöngum. Svo sléttur var hann að Dísu fannst líklegt að hann væri gæddur einhvers konar töfrum. Þetta var töfrasteinn, það fannst henni augljóst og þegar hún var búin að leggja æðarnar á minnið og lauma honum í vasann ákvað hún að flýta sér heim svo hún gæti skoðað hann betur undir björtu ljósi og komist að því hvernig töfra hann geymdi.
Dísa tiplaði yfir blautan sandinn og svo grýtið upp úr fjörunni, yfir gangstéttina og stökk út á götuna en gleymdi að líta til beggja hliða. Hún sá bílinn ekki fyrr en hann skrensaði fyrir framan hana og bílstjórinn flautaði svo hátt að hún greip fyrir munninn til að æpa ekki á móti. Svo sá hún að þetta var bara gamall kall sem spurði hvort það væri allt í lagi með hana. Hún kinkaði kolli og sagði jájá og hljóp svo alla leið heim án þess að stoppa. Gaf sér þó tíma á hlaupunum til að þakka töfrasteininum fyrir björgunina. Hann var strax byrjaður að borga sig, og hún átti hann alein.
Undir sænginni uppí rúmi heyrði enginn í Dísu þótt hún syngi gömlu leikskólalögin eða hermdi eftir útvarpinu. Þar sá heldur enginn þegar hún kveikti á vasaljósinu hans pabba, sótti svo töfrasteininn sinn í vasann og beindi ljósinu að honum. Nú fannst henni steinninn bara kolsvartur og línurnar glóandi hvítar. Það hlaut að vera vasaljósinu að kenna, hún spurði sig hvort litir væru öðruvísi í myrkrinu undir sænginni. Til að vera viss lýsti hún á peysuermina sína sem hún vissi að var fjólublá en undir sæng varð hún svört eins og steinninn. Var vasaljósið kannski líka gætt töfrum, litatöfrum?
Dísa hélt ekki og skoðaði steininn betur. Aðeins hann gat verið gæddur töfrum. Hann var ótrúlegur. Hver lína virtist vita hvert hún ætti að fara og ef hún starði nógu lengi á steininn sá hún línurnar hreyfast fram og til baka. Hún stundi í myrkrinu og brosti. Það leyndi sér ekki að steinninn lifnaði við og glóði svo að hún fann töframáttinn læðast úr steininum yfir í fingur sína og lófana og handleggina og loks allan kroppinn og hausinn líka! Þetta var vissulega töfrasteinn, það hafði hana alltaf grunað og nú fann hún hvers konar töframáttur þetta var því hún var skyndilega orðin ótrúlega sterk og hugrökk eins og hetja. Hún var jafnvel ósigrandi, hún fann það! Þegar Dísa fletti sænginni ofan af sér fannst henni eins og súrefnið sem hún andaði að sér, djúpt alla leið niður í maga, væri léttara og betra en nokkru sinni fyrr. Henni var svo heitt að hárið var farið að blotna af svita og hún stökk á fætur til að brenna ekki gat á dýnuna enda engin leið að vita hvaða töfra hún hefði sem hún vissi kannski ekki af.
Næstu daga á eftir óttaðist Dísa ekkert. Hún gekk með steininn á sér hvert sem hún fór og alltaf þegar eitthvað bjátaði á laumaði hún hendi niður í buxnavasann. Um leið og hún snerti sléttan steininn fann hún hversu hugrökk hún varð á svipstundu. Þá hætti hún að gretta sig eða óttast og gekk upprétt í gegnum allar hættur heimsins því ekkert gat meitt hana, ekki einu sinni eitt kvöldið þegar hún var að reyna að sofna og öskrin byrjuðu eina ferðina enn frammi í stofu. Þá hélt hún fast í steininn og bað hann um að skrúfa niður í hávaðanum en þegar það gekk ekki ákvað hún að það yrði þá að nægja að vera sterk og hugrökk.
Dísa sparkaði sænginni af sér og sveiflaði sér fram úr rúminu með hægri lúkuna kreppta utan um töfrasteininn. Hún opnaði dyrnar fram á gang og strunsaði fram í stofu þar sem hún sá mömmu sína öskra hástöfum á pabba. Hann var greinilega ekki eðlilegur því hann studdi sig við sjónvarpshilluna eins og hann væri að detta. Það var lykt af honum, sterk og súr lykt eins og klórlyktin í sundlauginni gat stundum orðið sterk. Dísa fékk lyktina strax í nasirnar en hún mátti ekki vera að því að nudda nefið. Þess í stað hlustaði hún á pabba sinn sem var að vara mömmu við.
„Ef þú kastar þessum vasa Halldóra skal ég sko …“
„Hvað ætlarðu að gera? Hvað meira geturðu gert mér, ógeðið þitt?“ svaraði mamma á móti. Svo litu þau bæði á Dísu í dyrunum, snöggt þannig að henni brá svo mikið að hún missti næstum allt hugrekkið.
„Dísa, af hverju ertu ekki sofandi?“ spurði mamma.
Dísa herti gripið á steininum og svaraði, „af því að ég get ekki sofið fyrir hávaðanum í ykkur og ég varð að koma fram til að segja ykkur að hætta þessum látum!“ Hún öskraði síðustu orðin og þegar hún lokaði munninum fann hún tárin streyma niður kinnarnar. Hugrakkir geta þá líka grátið, hugsaði hún.
„Æi þegiðu þarna,“ hreytti pabbi í Dísu. Hún sá mömmu láta glervasann síga niður með hliðinni, svo sleppti hún honum á stofuborðið svo að það heyrðist þungur dynkur og hún gekk í áttina að Dísu. Dísa leit á pabba sinn sem var eldrauður í framan og horfði reiður til hennar. Svo brosti hann eins og hún væri fyndin eða asnaleg og þá fékk Dísa nóg. Hún sveiflaði hægri hendinni og henti töfrasteininum í áttina að pabba sínum, hún henti svo fast að steinninn flaug framhjá pabba og lenti í sjónvarpinu svo að stór sprunga myndaðist á skjánum. Svo féll töfrasteinninn á gólfið með minni dynk en glervasinn hennar mömmu.
Dísa og mamma horfðu á steininn sem lá í tveimur hlutum á gólfinu, svo litu þær báðar á sprunguna á sjónvarpinu og loks á pabba sem byrjaði að bretta upp ermarnar. Þá sneri Dísa sér við og hljóp öskrandi út úr stofunni og inn í herbergið sitt. Hún heyrði pabba kalla á eftir sér en skildi ekki hvað hann sagði. Hún reyndi að skella herbergishurðinni á eftir sér en pabbi var of nálægt og þegar hún sleppti hurðinni fann hún pabba sinn grípa um sig aftan frá og fleygja sér á rúmið. Þar leit hún upp og sá hvernig hann skutlaði sér ofan á hana og sló með flötum lófa á kinnina og síðan á rassinn. Svo týndi hún sér í gráti og öskrum.
Dísa trúði ekki á töfra eftir þetta kvöld en eyddi eins miklum tíma og hún gat undir sæng. Hún þorði ekki lengur að fá vasaljósið hans pabba lánað.
Unga konan situr á leikteppinu og stýrir leik barnanna, telur niður með hverju foreldrinu sem kemur að sækja afkvæmi sitt þar til ekkert er eftir nema leikföngin, dreifð um dýnuna eins og fórnarlömb krúttlegustu orrustu allra tíma. Hún dæsir og beygir sig niður eftir þeim. Eitt af öðru takast þau á loft í fingrum hennar og smella ofan í kassa sem hún heldur undir vinstri hendi. Hún er þreytt en líður betur þegar sér fyrir endann á verkinu, skammar sjálfa sig í hljóði fyrir að finna til léttis þegar barnaraddirnar eru loksins þagnaðar. Börnin eru framtíðin, ávítar hún sig, það ber að hlúa að þeim minnir hún sig á, enda eru það hennar mottó í lífi og starfi og hún gefur sig jafnan alla í verkefnið. Þegar herbergið er orðið snyrtilegt gengur hún frá kassanum og skolar svo vatnsliti í vaskinum áður en hún fer fram í klefa og skiptir um föt.
Hún skvettir vatni á andlit sitt og virðir það fyrir sér í speglinum, fylgist með æðunum iða á enni sér eins og þær séu töfrum gæddar áður en hún snýr sér hratt undan, grípur úlpuna sína og klæðir sig í hana á gangi út í bíl. Hún kemur við í kjörbúð á leiðinni heim og brosir svo þegar hún stígur inn um dyrnar heima og það fyrsta sem móðir hennar spyr er hvort hún hafi munað eftir gémjólk í kaffið og kex með því.
„Já, mamma,“ segir unga konan og brosir. Fer svo fram í eldhús og raðar í skápana, laumar smartís með kexinu upp í skáp. Svo gengur hún aftur inn í sjónvarpsherbergi og kyssir móður sína á ennið þar sem hún situr í leðurstól og prjónar, finnur væntumþykjuna í garð gömlu konunnar blása sér í brjóst og enn á ný fyrirgefur hún allt, nú sem alla daga. Hvernig getur hún verið reið við móður sína jafnvel þótt hún beri myrkrið með sér á hverjum degi?
Eftir kvöldmatinn sitja mæðgurnar í stofunni, unga konan í rauðum, snjáðum tausófa fyrir aftan leðurstól móður sinnar. Þær horfa saman á bandarískt löggudrama þar sem glæpasögur fá snyrtilega lausn á tæpum klukkutíma. Það þykir þeim góð afþreying og þær prjóna saman í takt við hasarinn. Sú eldri prjónar teppi í vögguna sem bíður þolinmóð niðri í geymslu á meðan unga konan prjónar vettlinga og sokka fyrir samstarfskonu sína sem á von á sér eftir tæpa þrjá mánuði. Þegar hún þreytist á sjónvarpinu og er farið að verkja í fingur og axlir gengur hún frá prjónunum og hálfkláruðum sokki í poka við hlið sófans, kyssir móður sína aftur góða nótt og gengur svo þreytulega inn í herbergið sitt.
Hún lokar á eftir sér, klæðir sig úr hverri flík og skilur þær eina af annarri eftir í hrúgu á gólfinu við dyrnar. Svo teygir hún sig í náttkjólinn, fjólubláan með mjóum, hvítum línum og rennir honum yfir höfuðið. Síðan slekkur hún ljósin og kveikir á litlu vasaljósi, lýsir sér leið að hillu við fjærvegg þar sem hún velur sér stein úr veglegu safni. Þeir eru fleiri hundruð talsins og hún kann betur við litbrigði þeirra í myrkrinu. Í þetta skiptið velur hún litla völu sem er grá og slétt en þó með hrjúfri áferð en um hana miðja er sprunga sem virðist hóta að rjúfa völuna í tvennt á hverri stundu. Unga konan tekur völuna í lófann og kemur sér fyrir uppi í rúmi með sængina dregna upp fyrir haus.
Hún virðir völuna fyrir sér þar til minning kvöldsins birtist henni. Í þetta skiptið man hún eftir grænu skónum með rennilásunum á hliðinni sem hún var í daginn sem hún fann töfrastein í fjörunni. Í það skiptið hafði hún verið svo áköf í steinaleitinni að hún kom heim með leðju á skónum eftir allt saman og fékk refsingu fyrir. Hún vissi það þá og hún skynjar það enn nú að hún átti refsinguna skilið enda eru það bara heimsk börn sem fara í einhverju öðru en stígvélum niður í fjöru.
Kristján Atli er að vestan en býr í Hafnarfirði. Fyrsta skáldsaga hans, Nýja Breiðholt, kemur út hjá Draumsýn bókaforlagi í september. Sjá hér.