Dagbók New York City Fringe, dagur 4 (16a ágúst)
Ég legg af stað út í sólina. “Hey miss, you dropped something?” – “What?” – “You dropped me! So how about you let me take you out some time?” – “Sorry, I’m taken!” Pick up línurnar eru enn til, svei mér þá!
Fyrst á dagskrá er að ná í passann minn. Ég fæ að heyra hvað ég er heppin að hann fannst þarna og að ég ætti að hugsa minn gang og passa mig betur. Já. Takk. Takk. Ok. Bæ.
Ég legg af stað frá 2nd Ave niður á Broadway eftir tvær pizzu sneiðar og dós fyrir þrjá dali (jibbíkóla eitthvað á eðlilegu verði). Hitinn er ekki svo yfirþyrmandi í dag og ég kæli mig niður með því að stökkva inn í búðir af og til. Fer og fæ mér límonaði og súkkulaði bita. Emily er búin í upptöku á útvarpsleikriti sem hún var að leika í og bíður niður við Bowling Green. Ég arka Broadway að Twin Towers minnismerkinu og horfi í djúpið um stund.
Finn að lokum Bowling Green og við kaupum okkur NY derhúfur eins og aular og eftir nokkra leit finnum við bát sem mun sýna okkur Statue of Liberty og þó hún kosti handlegg brosum við út að eyrum að geta séð borgina frá þessu sjónarhorni, Manhattan fyrst, svo Brooklyn Bridge, Williamsburg Bridge, Brooklyn og svo Staten Island og konuna sjálfa þar sem hún stendur. Ég hélt ekki að það yrði áhrifaríkt en það var það þarna í glampandi sólinni. Fallegt.
New Jersey er ljót en svo komum við aftur að Midtown og stökkvum í strætó niður á Times Square og kíkjum inn á vaxmyndasafnið augnablik og þá erum við búnar með túristakvótann. Í bælið bara. Himnarnir rifna með þrumu og blikka okkur.
Dagbók New York City Fringe, Dagur 5 (17i ágúst)
Vakna klukkan 5.30. Ókei. Vinn að kynningarmálum og öðru sem þarf að sinna yfir Cheerios í rúminu til um tvö. Fer þá í sturtu og fæ mér samloku á Diner rétt hjá. Við vorum vongóðar í byrjun dags að yrði aftur uppselt þar sem við fengum einn yfirgengilega góðan dóm og annan mjög jákvæðan en við erum enn bara með hálfan sal og þurfum því að dreifa flyerum. Við hugsum að best sé að gera það með því að fara í hitt Fringe Lounge-ið og sjá sýningu og spjalla við fólk.
En hitt lounge-ið er erfitt viðureignar og sýningin er of löng til að við getum spjallað lengi og gestir eru beinlínis hissa að við ætlumst til þess að þeir labbi korter í hitanum til að sjá sýninguna.
Sýningin Houseless in Paradise fjallar um heimilisleysingja og þá sem vinna við að hjálpa þeim af götunni á Hawai og er heimildaleikhús. Hún er tvíþætt. Fyrri hlutinn fjallar um fólk sem býður í geymslur fólks þegar það er hætt að geta borgað og reynir að finna dýrmætasta góssið. En hér finna þau bara gamlan mann með HIV sem hefur búið í geymslunni um tíð. Áhugaverð pæling og skemmtilega skrifað en endirinn skilur allt eftir í lausu lofti og gerir verkið snubbótt.
Seinni hlutinn er byggður upp á viðtölum við allmarga og eru þau ofboðslega vel leikin og áhugaverð en líður fyrir lengd sína og endurtekningar á sömu vandamálunum. Engu að síður tekst sýningunni að varpa ljósi á hve fjölþættar aðstæður heimilisleysingja eru og hve mörg úrræði eru til staðar ef við hættum að afskrifa fólk án heimilis sem einn einsleitan hóp.
Við förum inn á bar haldandi að þar verði pöbbafæði en það er hrikalega dýrt. Við Emily deilum hamborgara og frönskum áður en við förum upp á Alpha Omega að gera klárt fyrir sýninguna.
Um 5 manns bætast í áhorfendahópinn rétt fyrir sýningu og Emily stendur sig vel þó sýningartíminn, 21.15, hafi áhrif á orkustigið. Ég spenni mig upp eins og til að senda til hennar orku, leikstjórinn hjálparlaus að bæta nokkuð nú. Áhorfendur eru hinsvegar yfir sig hrifnir og allir standa upp í lok sýningar sem er gaman að sjá 🙂
Þegar út er komið er öll mín orka horfin. Ég horfi stjörfum augum af lestrarpallinum og hlusta á borgina iða.