Wilhelm Scream er hreyfitónleikur tveggja dansara og hlutasveitar, þar sem dansararnir stýra samtali milli myndar og hljóðs. Svo hófst fréttatilkynning sem Starafugli barst (á ensku 1) um dansverk þeirra Ingu Huldar Hákonardóttur og Rósu Ómarsdóttur sem flutt verður á Reykjavík Dancefestival þann 30. ágúst næstkomandi. Og hélt svo áfram: Verkið er leikur að merkingu sem verður til í samspili gjörða sem ögra sambandinu milli þeirra. Hver er mynd hljóðs og hvert er hljóð myndar? Hvernig stemmir það saman og hvað gerist í núningnum? Er samhljóm að finna í hinu ankannalega ósamræmi?
Verkið dregur nafn sitt af frægum hljóðeffekt, svokölluðu Wilhelm Scream sem er sársauka- eða hræðsluöskur sem notað hefur verið í ótal bíómyndir.
Wilhelm Scream var frumsýnt í Frakklandi síðasta haust og hefur verið sýnt víðs vegar um Evrópu síðan, meðal annars á Malta Festival í Póllandi, í Ístanbul og í Concertgebouw og Bozar í Belgíu. Sýningin á laugardag er frumsýning á Íslandi. Þær Inga Huld og Rósa eru nýútskrifaðar úr samtímadansi frá P.A.R.T.S. í Brussel. Starafugl sendi þeim stöllum nokkra pósta og forvitnaðist um verkið og afstöðu þeirra til danslistarinnar.
Um hvað er Wilhelm Scream? Er frásögn/narratífa í verkinu eða er framvindan abstrakt? Hvernig vinnur maður með framvindu í dansverki?
Verkið er um samband hljóðs og hreyfingar. Við pældum einmitt mikið í frásögn/narratívu í ferlinu, því þegar kemur að dansverkum er bæði leyfilegt, þó tilhneigingin sé yfirleitt að vinna meira abstrakt. Við ýjum hins vegar að narratívu sem birtist ekki í línulegri frásögn heldur tekur nýja stefnu jafn fljótt og hún birtist. Við erum heldur ekki að vinna með afbyggingu á sögu, þar sem sagan er í raun engin. Kannski er best að líta á verkið sem leik að merkingu.
Við vinnum með svo kallað „foley“, svona eins og gert er fyrir bíómyndir. Þar sem hlutir eru notaðir til að framkvæma hljóð fyrir bíósenur. Okkur fannst svo skemmtilegt að sjá að eitthvað jafn saklaust og manneskja sem slær umvöfnu selleríi í borðbrún geti framkallað hljóð sem eru notuð við ofbeldisfullt myndefni. Við veltum því fyrir okkur merkingu hluta, hljóðunum sem þeir geta framkallað og hvort við getum breytt merkingu þeirra með hreyfingu eða dansi. Stundum reynum við að vera hreinar og beinar og framkvæmum hljóð sem passa frekar augljóslega við hreyfingarnar. En á öðrum tímum reynum við að para saman hljóð við hreyfingu sem er kannski ekki hin augljósa túlkun á hljóðinu. Passar það þá samt? Við pældum mikið í þeirri upplifun að finnast eitthvað „passa“. Hvað gerist þegar hljóð og hreyfing passa ekki beint – en samt einhvern veginn – kallar það þá nýja merkingu fram í huga þess sem upplifir? Til dæmis; samblanda af 1) sítrónu, sem er gulur og fallegur ávöxtur, 2) hljóðinu sem heyrist úr henni og 3) einfaldri hreyfingu eins og að klóra á sér, sem allt útaf fyrir sig eru frekar saklaus fyrirbæri, getur framkallað einhvers konar dónalega skírskotun. Við höfum mikinn áhuga á einmitt þessu: Því sem gerist þegar það sem maður sér og það sem maður heyrir passar ekki beint saman en er samt kunnuglegt. Þegar eitthvað er bæði kunnuglegt og ókunnuglegt á sama tíma þá opnast fyrir ímyndunaraflið.
Þá komum við aftur að spurningunni um framvinduna. Hér snýst framvindan ekki um söguþráð, framvindan byggir frekar á upplifun sama atburðar við mismunandi aðstæður, einhver breyting á sér stað í gegnum endurtekningar. Og vonandi breytist merkingin í leiðinni.
Í bæklingnum spyrjið þið sjálfar hvernig mynd sé hljóð, og hvernig hljóð sé mynd – mig langar að spyrja hins sama?
Hvert er hljóð myndar og hver er mynd hljóðs? Þetta spilar kannski meira inn á ímyndunarafl hvers og eins, en öll hljótum við að fá einhvers konar mynd í hausinn þegar við heyrum t.d. vatnshljóð. Hver er fyrsta myndin sem kemur í hausinn? Hvað ef þú sérð svo að vatnshljóðið kemur í raun og veru úr kokinu á einhverjum? Breytir það því sem þú „sást“ (ímyndaðir þér) áður?
Þetta minnir mig svolítið á myndljóð sem hangir á baðherbergishurðinni minni, sem man ekki hver orti 2. Það heitir 4 sound poems og er mynd af fjórum misstórum tannburstum. Þar á sér að vísu ekki stað nein pörun nema í höfðinu á manni sjálfum. Í hljóðaljóðlistinni er líka mikið unnið með líkindin – hvers vegna eru ávalar línur í M-um, hrufóttar í R-um og skarpar beygjur á K-um? Hver er munurinn á íslensku kjaftæði, finnsku kjaftæði (höpöhöpö), þýsku kjaftæði (quatsch) og bandarísku kjaftæði (bullshit)?
Vinnið þið eitthvað með mannsröddina, sem framlengingu líkamans? Eða texta?
Í þessu verki vinnum við ekki mikið með röddina. Og það er enginn texti. En við höfum þó oft unnið með röddina áður. Í öðrum dúett sem við gerðum unnum við bæði með texta og nokkurs konar söng. Þar fluttum við texta í ákveðnum rytma og mismunandi tónlengd, og textinn var þá í sambandi við hreyfingar sem við gerðum á sama tíma.
Við gerðum einnig nýverið smá útvarpspistil fyrir Reykjavík Dancefestival þar sem við unnum með texta. Þar notuðum við skor frá John Cage til þess að flytja textann okkar og gerðum hann að einhvers konar kóreógrafíu orða og hljóða.
Hvert er vinnuferlið á bakvið svona sýningu, bara svona praktískt? Teiknið þið upp hreyfingar eða leggið bara á minnið? Er til handrit eða skor sem aðrir gætu dansað eftir? Ef svo er, má sýna hvernig það lítur út?
Danshöfundar hafa almennt mjög mismunandi nálgun á dans. Sumir líta á dans mjög líkt og tónlist, og setja hann saman líkt og tónlist er sett saman. Aðrir vinna kannski meira út frá hinu sjónræna og enn aðrir kannski meira í tengslum við leikhúslistina. En í dag eru til margar brautir, straumar og stefnur innan dansheimsins. Margir eru kannski ekki svo mikið að dansa dansspor í verkum sínum heldur vilja teygja út hugtakið dans. Kannski líkt og myndlistarmenn eru ekki allir alltaf að mála. Stundum er ekki einu sinni líkami á sviðinu. En dansinn getur farið í svo margar áttir og að er einmitt það sem okkur finnst svo skemmtilegt við hann.
Vinnuferli dansara er því oft mjög ólíkt. Sumir hafa reynt að finna upp kerfi til þess að skrifa dans, líkt og maður skrifar niður tónlist kannski. Það var búið til kerfi sem kallast Labanotations en það er mjög flókið og mjög fáir kunna að lesa það. Enda er það ekki mjög opið og gerir ekki ráð fyrir hvers kyns hreyfingum. Þá hafa verið búin til skor sem aðrir geta fylgt, en þá þarf maður alltaf að fylla inn í eyðurnar með sínum eigin túlkunum á því hvað sá sem skrifað skorið er að meina.
Þegar við semjum þá byrjum við oft á að búa til einhvers konar reglur sem henta hverju sinni. Og notum þær svo til að finna efni. Efniviðinn (sem getur verið hreyfingar, senur, texti, hljóð o.s.frv.) setjum við svo saman. Kannski er það alveg sett saman, skrifað, lagt á minnið og þaulæft. En stundum virkar það meira eins og skor sem er lauslega fylgt eftir og gefur rými fyrir spuna. Við vinnum yfirleitt ekki mikið með algjöran spuna.
Við viljum oft ögra okkur og leita að nýjum leiðum til þess að semja og vinna, en höldum líka í þær aðferðir sem okkur langar til þess að halda í. Í Wilhelm Scream fórum við fyrst um víðan völl, bárum saman hreyfingar og hljóð á margan mismunandi hátt. Það var ekki fyrr en seinna sem við ákváðum að hafa verkið mest í formi „foley“. Þegar það var komið fundum við efninu og hugmyndum okkar um hljóð og dans farveg – og verkið tók að myndast.
Við viljum yfirleitt ekki fara inn í vinnuna með ímynd af lokaútgáfunni, heldur viljum við skrifa okkur að endanum og trúa því að vinnan vinni sig, þó hún geri það auðvitað ekki sjálf. Við skrifum ekki mikið niður en höldum þó alltaf vinnubók með nótum um það sem við erum að gera. Við notumst hins vegar mikið við vídjó upptökur, og tökum upp flest allt sem við gerum.
Íslandsfrumsýning á Wilhelm Scream fer fram í Kassa Þjóðleikhússins næstkomandi laugardag klukkan 17.00. Upplýsingar um verð og innkaup á miðum á Wilhelm Scream, sem og önnur verk á Reykjavík Dancefestival, má finna hér.
1. | ↑ | A movement concert performed by two dancers and an orchestra of objects. The dancers direct a dialogue between image and sound. It is a play of meaning which occurs through aligned actions, challenging the associations between the two. What is the image of a sound and what is the sound of an image? How does it sync, and what happens in the friction. Is there harmony in the uncanny ‘out of sync’? |
2. | ↑ | Það stendur aftan á en ljóðið hangir í ramma heima hjá mér og ég er langt að heiman |