Listrænir stjórnendur: Margrét Vilhjálmsdóttir, Tinna Ottesen, Marianna Mørkøre, Janus Bragi Jakobsson, Haukur Þórðarson, Inuk Silis Høegh, Jens L. Hansen, Ada Bligaard Søby, Lárus Björnsson, Ólafur Björn Ólafsson, Jessie Kleeman, Gunnvá Zachariasen, Þórunn Elísabet Sveinsdóttir, Tue Biering, Julie Edel Hardenberg, Nicolaj Falck, Klæmint H. Isaksen, Frosti Friðriksson, Katla Kjartansdóttir & Halla Margrét Jóhannesdóttir
Lygin er ekki andstæða sannleikans heldur hluti af honum.
(Gösta Ågren)
– Yfirskrift kynningartexta Fantastar
Þegar sama kvöld eru sýnd tvö verk, myndlistarsýning í leikhúsi og leikhúsverk sem er myndlistarsýning, í sömu borginni á sama tíma, þá veistu að þú ert í heimsborg, sagði borgarstjóraefni Bjartrar framtíðar við mig þegar við gengum af stað inn í undraveröld Fantastanna á höfninni í gærkvöldi. Ég vann einusinni í fiski.
Það er alltaf verið að ljúga að manni og manni finnst það misalvarlegt, stundum sækist maður jafnvel eftir því að veruleikanum sé hliðrað aðeins ef það er þannig sem maður sjálfur getur litið soldið betur út. Þetta er rosalega djúp sýning, það er rosalega mikil rannsóknarvinna að baki, þetta er samstarfsverkefni þriggja landa, það eru vísanir í svo margt í þessari sýningu. Og var ég búinn að segja þér, að hún er rosalega djúp sko, ef þú skilur hana ekki, ekki vera reyna skilja hana, hún er svo djúp, þú bara átt að vera á andlegu ferðalagi sko, þú átt að upplifa og iðrast, endurfæðast sko. Jesús var þrjá daga í gröfinni sko, það er hvalurinn sko. Hindúar fundu sko sín æðstu trúarrit á hafsbotni sko, það er það sama. Skilurðu. Þetta er trúarleg reynsla. Þetta er trúarlegt.
Ekki reyna að skilja það. Textinn er allur úr AA-bókinni. Þetta er sko alvöru uppgjör.
Hvar var Anda Kuitse?
Hér að framan er ekki vísað beint í neinn, aðeins er um spuna að ræða byggðan á sjálfsmynd sýningarinnar Fantastar sem fram fer í Brimhúsinu þessa dagana. Helmingurinn er lygi, hitt er leikmynd. Yfirskrift sýningarinnar kemur frá finnlandssænsku ljóðskáldi, en hún er vest-norrænt samstarf. Sýningin er upplifun, gædd dulúð en endursögn á henni missir marks – engar tvær sýningar eru nákvæmlega eins – geri ég ráð fyrir enda aðkoma áhorfenda hluti af upplifuninni. Ég held ég hafi verið á góðri sýningu, áhorfendurnir voru opnir og móttækilegir, jákvæðir, tóku þátt og höfðu gaman að. Á sýningum sem þessum er mikilvægt að vera virkur þátttakandi, geri ég ráð fyrir. En hún skilur ekki mikið eftir sig. Greiningin á henni verður því að vera einhverskonar persónuleg endurspeglun. Hún fylgir hér á eftir á guðfræðilegum nótum, enda er mikið hlaðið undir hana sem eftirmynd andlegs ferðalags.
Mögnuð umgjörð um silalegt svif
Það er ekki hægt að segja annað en að umgjörð sýningarinnar Fantastar sé mikilfengleg og mikið í hana lagt. Leikmyndin spilar meginrullu í sýningunni og stendur sem myndlistarverk fyllilega fyrir því að upplifunin af henni sé þess virði að fara á sýninguna. Ég gæti trúað því að það að ferðast einn í gegnum hana með einhverskonar hljóðmynd og jafnvel að hitta eina spákonu á leiðinni hefði verið skýrari reynsla og áhrifameiri en það sjónarspil sem sett var á svið fyrir áhorfendur sýningarinnar. En innihaldið fór fyrir ofan garð og neðan. Það snerti á mjög takmarkaðan hátt við áhorfendunum sjálfum og jafnvel að manni hafi liðið eins og leikararnir hafi ekki fundið sig alveg í að vera á andlegu ferðalagi sjálfir.
Með öðrum orðum, það sem forsvarsfólk sýningarinnar vill að gerist og hefur lýst getur ekki gerst nema við séum á ferðalagi með þeim. Fókusinn var ekki nægilega skýr og þrátt fyrir að handritið sé þaulskipulagt þá var tempóið í sýningunni á einhvern hátt svo rólegt að það var ekki laust við að mörgum áhorfendum leiddist aðeins, yrðu eirðarlausir. Lífsháskinn, dauðinn og upprisan voru víðs fjarri þrátt fyrir bein tengsl við hinar frómu spákonur sem veittu andlega ráðgjöf á nokkrum stöðum og hinn trúarlegi undirtónn sem reynt var að skapa á stöku stað risti grunnt. Ég held að það hafi verið vegna hræðslu við að krefja fólk af alvöru um að sitja undir andlegum vangaveltum, enda hefur nútíminn mesta þörf fyrir að hlutirnir séu fyndnir og skemmtilegir. Sú túlkun sem á því að tengja við Jónas í hvalnum, nú eða Guð almáttugan sem hangir í loftinu á fiðruðum bát minnir aðeins á hinn ráðvillta föður Gosa, smiðinn góða, sem reikar um á litlum fiðruðum árabát í maga hvalsins nærri lokum sýningarinnar.
Örlítið ris mátti finna í „galdradansi“ grænlenskrar konu frammi fyrir skúlptúr Helga Þórssonar, ef dulúð og galdur voru það sem áhorfandinn var að sækjast eftir. En á þeim tímapunkti má segja að það hafi verið heldur áþreifanlegt að aðstandendum sýningarinnar langaði mest til að finna út hvernig hægt væri að enda hana. Lausnin á því er eitthvað … kannski skondin, en þegar konseptið er skoðað þá er lítið samræmi í því hvernig mannskepnan dáist að eiginleikum hvala, – til að mynda minninu – og því sem setur endaþarm hvalsins í það hlutverk að vera dvalarstaður minninganna í hinu lífræna ferli.
Samræmi brotinnar sjálfsmyndar?
Samræmið sem reynt var að byggja upp, til að mynda þar sem áhorfendur áttu að líkja eftir söng hvala við raddböndin, er eitthvað sem hefði þurft að haldast út sýninguna til að „við“ misstum ekki fókusinn á ferðalaginu. Torkennilegt tónlistaratriði við vélindað var mun nær þýskri nýbylgju en nokkru sem maður tengir við Ísland, Færeyjar eða Grænland og mörg tæknileg atriði trufluðu einlægnina sem felst í því að miðlar setji sig í samband við annan heim til þess að leiðbeina áhorfandanum í andlegum málum.
Brotnasta senan var bíómynd á ensku um sjálfsmynd stúlku, algjörlega án samhengis.
Margir aðrir hlutir eða senur voru útúr kú og of óskiljanlegir til að upplausn yrði ekki bara í áhorfendahópnum og handleiðsla hofmeyjanna fjögurra sem fóru fyrir hópunum var heldur feimnisleg og ómarkviss til að rýmið yrði að helgistað, þar sem andleg upplifun markaðist af ritúali, galdri og nálægð við hið forboðna, heilaga. Þess vegna stóð sýningin engan veginn undir innihaldslegum væntingum. Til þess hefði þurft að ganga mun lengra í persónulegri nánd og transi leikarans, þar sem leikhúsið og kirkjan mætast í hinni fornu dulúð. Rætur leikhússins liggja í trúarbrögðunum og leikaðferð af(vega)leidda leihússins sprettur úr spiritual pælingum leikstjóra sem hugsuðu leikhús sem helgistað þar sem áhorfandinn yrði fyrir raunverulegum áhrifum sem hefðu áhrif á líf hans. Við þráum öll slíkt leikhús, að listin hafi áhrif á líf okkar. Við þurfum meira en sjónræna skemmtun og yfirborðslega upplifun til að listin verði að þeirri andlegu næringu sem listamenn vilja oft gerast umboðsmenn fyrir. Ef að leikhúsið eða myndlistin á að standa undir staðhæfingunni um að listin hafi tekið við af trúarbrögðunum þá verður upplifunin að vera sönn, þó hún sé uppfull af lygi. Hún verður að vera fögur í minningunni, hversu ljót sem hún kann að hafa verið. Og þá verður hún nærandi – eins og trúariðkun – sama hversu leiðinleg hún er.
Þegar mikil rannsóknarvinna er sögð að baki sýningu, þegar metnaður í leik-og hljóðmynd og umfangsmikið samstarfsverkefni margra þjóða er sagt vera komið á koppinn þá býst maður við því að þurfa taka mikið inn og hugsa um margt. Kynning á sýningunni er vel úr garði gerð, katalógur, heimasíða og svo framvegis, en þar er margt að finna sem manni finnst síðan raunar vanta í sýninguna. Það sem mér finnst áþreifanlegast vanta er að unnið sé með þá þræði sem kynntir eru, hið andlega ferðalag og hreinsun/iðrun endurfæðingu. Táknsagan um Jónas í Hvalnum er ekki um mann sem fær áminningu þegar hann er með allt niður um sig, áminningu sem svo veldur honum hughvarfi. Hún er tilbrigði við stef eða frásögu sem kemur ítrekað fyrir í helgisögum hvort sem um Biblíuna er að ræða eða goðsagnir og fjallar um köllun og ábyrgð og það þegar einstaklingurinn telur sig ekki verðan þess að rísa undir köllun Guðs til þess hlutverks sem honum er ætlað. Hvalurinn er vissulega holdgerving undirdjúpanna, óreiðunnar, hins óstjórnanlega og hættulega, í goðsögum og trúarbrögðum. Það er myrkrið sem gleypir og þessvegna er þrávísun leikstjórans í þriggja daga dvöl Krists í hvalnum/gröfinni réttlætanleg, en hún er ónákvæm og hefði þurft meiri dýpt eða úrvinnslu í verkinu til að framsetningin í konsepti sýningarinnar stæði undir sér. Eða er verið að leiða áhorfandann í gegnum víti eða iðrunarferli og hversvegna eiga fantastar eins og ofvirk handboltakona og sífrandi þjóðfræðingar heima í slíku ferli?
Goðsögur vestrænnar menningar og þjóðsögur inúíta eru ólíkar í eðli sínu og spennan þar á milli er afskaplega áhugavert viðfangsefni í leiksýningu. Heittrúarsamfélag Færeyja og trúfesti eyþjóða við hið yfirnáttúrulega, t.a.m. vegna nálægðar við hættur á sjó og landi sem enn einn kontrastinn í sýningu sem tækist á við þessa spennu, biði upp á virkilegar vangaveltur um andlegar þarfir mannsins og hefðir hans við að uppfylla þær. Við þurfum meira en spákonur og spil til að móta stefnu okkar í lífinu eða vekja vonir til framtíðar. Við þurfum að ummyndast vegna dulmagns og trúar á eitthvað æðra en okkur sjálf. Og þegar öllu er á botninn hvolft þá var það helsti veikleiki sýningarinnar að hún var „ofhönnuð“ og handritið of fast í skorðunum. Það vantaði flytjendur í það sem væru galopnir fyrir því sem var í loftinu; eða er ég kannski að misskilja? Var allt þetta tal um iðrun og umbreytingu flipp sem við höfum ekki þörf fyrir, því að fegurðin er alltaf sönn, hversu login sem hún er?