Fyrir tæpu ári gaf Björk Þorgrímsdóttir út sína fyrstu bók – Bananasól – eins konar skáldsögu úr smáprósum, hjá forlaginu Tunglið. Nú hefur hún gefið út sína fyrstu ljóðabók – Neindarkennd – hjá Meðgönguljóðum. Björk er Reykvíkingur, menntuð í heimspeki og bókmenntafræði, og stundar nú framhaldsnám í ritlist við Háskóla Íslands. Ljóðabókin, sem höfundur hefur lýst sem eins konar textaofbeldi, fór rakleitt í efsta sætið á metsölulista Eymundsson og vekur athygli fyrir ágeng og átakanleg tök á tungumálinu.
– Ég vind mér bara í djúpið: Hvað er neindarkennd? Er það tilfinning fyrir tómi, áþreifanlegt tóm, eða er það kannski alls engin tilfinning heldur bara tóm, neind, ekkert?
„Það mætti segja að neindarkennd sé sú tilfinning að vera tóm. Upplifa sig sem ekkert í þeim skilningi að þú framkvæmir ekki. Þú ert framkvæmdur. Tekur við. Skapast ekki að eigin frumkvæði heldur er stöðugt verið að fylla uppí þig. Tómið lærist og sú tilfinning verður til þess að fleyta þér út um allt án þess að þú getir nokkuð ráðið því hvert förinni er heitið. Algjört stjórnleysi og hamsleysi og þú situr ekki við stýrið, ef það er þá nokkurt stýri yfir höfuð.“
– Er þetta þá bók fyrir eða um þolendur – spilar hún á þolenda/gerenda-ásnum?
„Að einhverju leyti, já. Kannski mest megnis um eftirköstin. Hvernig fólk umbreytist við einn atburð. Hvernig afleiðingarnar hellast út í orðræðuna án þess að manneskjan sé þess meðvituð jafnvel. Þegar þagnarmúrinn hefur verið brotinn vellur út ósjálfrátt málæði sem er ekki endilega það sem manneskjan vildi segja.“
– Er veruleikinn eins í ljóðunum og í „heiminum“ (og kannski enn annar svona á netinu) – gilda þessar reglur jafnt alls staðar?
„Tungumálið er aldrei saklaust. Það gerir sitt besta við að lýsa því sem á sér stað en það er erfitt að henda reiður á því sem kraumar að innan. Það er erfitt að beina eldgosi í einhvern málfræðilegan farveg. Þannig verður það aldrei sett „rétt“ fram. Það verða alltaf einhverjar stafsetningarvillur. Það er samt ekki að ljúga. Það dulbýr. Túlkar. Þar býr einn veruleiki sem getur verið einhver allt annar í augum lesenda. Þeirra veruleiki byggir á þeirra reynslu í heiminum.
Í heiminum er einhver annar veruleiki sem tilheyrir öðrum tíma. Þar búa aðrar hreyfingar, annar ryþmi. Hann er annars staðar.Við erum þátttakendur í honum og getum ekki tekið okkur úr jöfnunni eða útkomunni. Það er erfiðara að sættast við þann veruleika. Orðin geta hins vegar framkallað nokkurra sekúndna þyngdarleysi. Þar sem ríkir einhvers konar meðvitað ábyrgðarleysi gagnvart raunveruleikanum. Þar sem maður getur leyft sér að taka sig úr jöfnunni en mér finnst varasamt að gera það í heiminum. Við getum ekki sett eyðu í stað sjálfrar okkar. Við erum óhjákvæmilegur hluti af því sem gerist. Ég er til. Þú ert til. Atburðurinn á milli okkar er til. Og það sem við tölum og segjum og þær meiningar sem við höfum litast auðvitað af öllu því sem við höfum upplifað þess vegna er þetta svo erfitt.“
– Eru línurnar milli þolenda og gerenda skýrar í a) ljóðum b) úti á götu c) annars staðar?
„Línurnar þurfa að vera skýrar í heimi tungumálsins því þar telur maður sannleikann búa. Hvernig sagan er sögð. Hver framkvæmir og hver þarf að þola. Línurnar þurfa að vera skýrar en eru það alls ekki alltaf. Maður þarf að beita orðunum harkalegar í heiminum og hefur þörf fyrir að vita, greina, skilja, skýra. Auk þess er maður stöðugt að reyna að hafa hemil á honum og vill ná stjórn svo það sem maður telur rétt raungerist. Svo að sannleikurinn nái fram að ganga og að mörkin séu skýr. Mér finnst samt að ef ég er beitt ofbeldi og kölluð þolandi að mér hafi verið kippt úr jöfnunni að einhverju leyti. Sá sem beitir aðra manneskju ofbeldi er ofbeldismaður. Hann gerir eitthvað á hlut annarrar manneskju en ég er til í þessu samhengi líka. Í atburðinum. Í atburðarrásinni. Með þessu vil ég ekki gera lítið úr ofbeldi. Ég vil bara að allir sem eiga í hlut séu til. Ofbeldi er einmitt tilraun til útþurrkunar. Lítilsvirðingin er svo mikil og maður minnkar og minnkar í kjölfarið en orðið þolandi strokar mann út. Hægir á hreyfingum manns. Kyrrsetur mann. Annað orð í þessum dúr er orðið fórnarlamb. Þar sem mér hefur verið fórnað á altari einhvers sem telur sig guð og hefur öðlast óskorað vald yfir mér. Það er margt sem býr í orðunum. Oft einhver ósigur og oftar en ekki beint í átt að manneskjunni sem endar á því að sigrast á atburðunum.
Í ljóðunum hefur maður minni ábyrgð og hefur meira leyfi til að henda orðunum í loft upp og leyfa þeim að lenda þar sem þau lenda. Eru einhvern veginn opin til túlkunar en orðin í heiminum eru rituð í stein og þess er krafist að við leggjum trúnað á þau. Við verðum að treysta fólkinu að það tali satt og fari varlega með orðin. Þau eru það eina sem við höfum og það sem ætti að liggja til grundvallar. Hvenær hættir maður samt að vera ofbeldismaður eða morðingi? Hvenær verður maður maður? Þetta eru áhugaverðar spurningar sem erfitt er að finna konkret svör við. Hvenær verður gerandi þolandi? Ég held að meðvitund manns sem gerir eitthvað rangt geti orðið til þess að hann vaxi sem manneskja en orðið sjálft loðir alltaf við. Ljóðið getur verið tilraun til að sleppa úr þessum heljargreipum sem heimurinn vill oft halda manni í og tungumáli hans. Ljóðið getur orðið að vatni sem holar steina og afmáir grafskriftir.“
– Hvernig brotnar þagnarmúrinn? Er það þá sem ljóðlistin kemur í ljós?
„Þegar maður er búin að vinna að því að klífa múrinn og sér það sem er handan hans er einhvern veginn ekki hægt að snúa baki við því. Það sem blasir við manni er of yfirþyrmandi og allar tilraunir til að halda því niðri verða að engu og þá lætur maður hann falla eða hann lætur mann falla. Það gerist svolítið ósjálfrátt. Leiðin sem þessi tilfinning getur fengið útrás er í gegnum ljóðlistina. Orðin verða áríðandi og það myndast óþreyja gagnvart þögninni.“
EÖN