Opið bréf til gatnamálastjóra

Kæri herra gatnamálastjóri
þú meistari öngstrætanna
leiðir okkar hlutu víst fyrr eða síðar að skarast
oft hef ég velt því fyrir mér hvar þú haldir þig
og virðist nú hafa rambað á miðju
völundarhússins hjarta glitvefnaðarins
hvern hefði grunað að það væri einmitt hér
í þessari brynningarholu úr alfaraleið
kæri herra gatnamálastjóri
þú ert vefarinn mikli
og spinnur þín net svo þéttriðin og lausriðin í senn
þú leggur línurnar þú tryggir stöðugt rennsli
þú skilar börnunum í skólann foreldrunum í vinnuna
hjörtunum í ræsin
tengslunum í tómið
þú ert gatnamálastjórinn
og veist hvað ég er að fara
herra gatnamálastjóri þú ert einsamall
eins og draumsliguð blóðkornin
á brautum þínum innan í sínum
lípíð-dósum hertum og köldum
herra gatnamálastjóri einhvers staðar
virðist þig hafa borið af leið
þótt ekki sé áliðið er ljóst
að nú hefurðu farið fram úr þér
um æðar þér hnígur kraumandi bik
úr eyrum þér líður mistur brotinna gadda
úr nösum þér hlykkjast logandi ormar
úr gini þér vella geðflækjur og myntir af botni næturhyls
af þvagdropum þínum spretta úrkynjuð blóm
ertu kannski sjálfur Mólok
kæri herra gatnamálastjóri
þú arma köngurvofa
þú ert gatnamálastjórinn
og veist hvar ég á heima.