Mamma hefur talað


Hún mamma hefur talað
segir að nú sé komið nóg.

Hún reyndi að segja það upphátt
í mörg hundruð ár
en enginn heyrði.

Nú dreifir hún
ósýnilegum skilaboðum
út um allar jarðir.

Dularfullt.

Fólk fellur um sjálft sig
kliðurinn hættir – þögnin tekur við.

Meira að segja landsfeður
falla um sig sjálfa
reyna að mótmæla mömmu.

En það er ekki hægt
að mótmæla mömmu.

Hún heyrir ekki
heimskulegt þvaður
loksins þegar hún hefur svarað fyrir sig.

Hún hefur alltaf verið dularfull
hún mamma.