Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Kynjuð byggðaumræða

Ísland er eyja. Það voru nánast nýjar fréttir fyrir Íslendinginn sem fór erlendis til náms fyrir nokkrum árum, rétt áður en Geir bað guð að blessa okkur. „hvar á eyjunni býrð þú“ spurði skólafélagi minn og ég starði á hann í forundran. „ég bý á norðurhluta LANDSINS“. Af því að við erum svo stór, samt svo lítil. Móðguðumst þegar okkur var boðið að taka þátt í smáþjóðaleikunum. Við viljum vera á stóra sviðinu. Alltaf. Í fótbolta, í handbolta, júróvision, þá stöndum við saman sem eitt. HÚH!!! Allir stoltir af Hildi Guðna, við eigum í henni hvert bein. Meira að segja þeir sem gala hvað hæst á móti listamannalaunum geta ekki annað en kyngt súrum óhróðrinum smá stund. 

En svo þarf að ákveða eitthvað á litlu stóru eyjunni okkar. Hvernig á að skipta kökunni, hvar á að hafa flugvelli, hvar liggja fátækramörk láglaunastétta, hvaða þjónustu eigum við rétt á, hvar á að byggja upp, á að ráða hæfasta umsækjandann. Þá dragast hendurnar niður úr HÚ hrópinu, sem áður slógu í takt. Takturinn breytist og virðist hverfast í sérlega þreytandi tveggja hópa fylkingar. Eins og við kunnum ekkert annað. Landsbyggð vs höfuðborg, konur vs karlar… fylkingar sem standa sitt hvoru megin eins og dagur nótt, geta alls ekki án hvors annars verið en geta samt ekki staðið saman. 

Landsbyggðinni finnst hún skilin eftir, að kökunni sé ekki skipt miðað við efnivið og vinnu sem lögð er í kökuna. Allir, ja svona flestir, borga sína skatta, og skaffa smá efnivið til að gera eina stóra hnallþóru. En einhverjir sitja svo eftir með súrt ennið þegar komið er að veisluborðinu, það er búið að skafa allan rjómann og kokteilávextina af. Þú færð kökusneið samt, ekki láta svona. Ákvörðunarvald og fjármagn sogast á annan vænginn eins og það sé einhver regla, æ, ekki láta svona. Ertu kannski femínisti?

Okkur hættir til að skipta málefnum kynbundið, sumir vilja ganga svo langt að það sé bara líffræði. Það fari bara betur, hjúkrunarfræði og leikskólafræði eru kvennastéttir af því að það er bara svoleiðis, verkfræði karla stétt af því að þeir vilja bara frekar læra þetta, ekki láta svona, svona eru kynin bara! Og bara tilviljun að kvennastéttirnar eru frekar láglaunastéttir, þessar endalausu tilviljanir alltaf hreint. Málefni umhverfis, velferðar og umönnunar eru talin kvenlæg, fjármálin og hörðu málin, utanríkismál og svoleiðis dót, karllæg. Fyrir stóru strákana. Og það merkilega er að þótt dreifðar byggðir séu oft frekar karllæg rými(tökum þá umræðu síðar) þá virðist stjórnsýslan og umræða um landsbyggðir taka annan hljóm og kunnuglegri, þetta er mjúka hliðin, þar sem við sækjum í náttúru, kyrrð og ró, „móðir“ jörð er það ekki? Látum umvefja okkur þegar við þurfum, flöggum flottu byggðunum okkar þegar hentar, lítil og krúttleg þorp, svo yndisleg, mokum smá skít, „I loveit“. En svo þarf að taka ákvarðanir um kökuskrautið, forgangsraða, og raddirnar drukkna í allri þessari víðáttu, ææ ekki láta svona, vertu stillt! Sameiginlega HÚH hrópið rykfallið og hallærislegt. Í borginni er hraðinn, höfuðstöðvar hverskonar, ákvarðanirnar og peningarnir sem ganga handa á milli, hörðu málin og valdið sem virðist hringa sig eins og ormur um gull, sleikir rjómann úr munnvikinu. Þannig að stórt er spurt, missti ég af einhverju kynjagreiningarpartý þar sem ráðamenn í höfuðstaðnum sprengdu blöðru og blátt confettíið frussaðist yfir Austurvöll? Er landsbyggðin kona?

Birtist fyrst í tímaritinu Úr vör – febrúar, 2020.