Það er staður milli trjálína tveggja þar sem grasið vex upp
og aldni byltingarvegurinn hverfur inn í skuggana
nærri yfirgefnu samkomuhúsi hinna ofsóttu
sem hurfu einnig í þessa sömu skugga.
Ég hef gengið þar og tínt sveppi við mörk óttans, en ekki láta blekkjast
þetta er ekki rússneskt ljóð, þetta er hvergi annars staðar en hér,
okkar eigið land rekur nær sínum eigin sannleika og ótta,
sínum eigin ráðum að láta fólkið hverfa.
Ég segi þér ekki hvar staðurinn er, þetta myrka net skóganna
sem mætir nafnlausri rák ljóss –
ókyrr vegamót, paradís rottnandi laufa:
ég veit nú þegar hver vill kaupa hana, selja hana, láta hana hverfa.
Og ég mun ekki segja þér hvar hún er, svo hví segja þér
nokkuð? Því þú hlustar ennþá, því á tímum sem þessum
er nauðsynlegt, svo þú leggir við hlustir,
að tala um trén.